30.04.1929
Efri deild: 57. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í C-deild Alþingistíðinda. (2598)

102. mál, einkasala á tóbaki

Frsm. minni hl. (Jón Baldvinsson):

Það er alveg rjett hjá hv. frsm. meiri hl., að þetta frv. er flutt sem tekjuaukafrv., af því að við flm. þess álitum, að með þessu móti væri ríkissjóði sjeð fyrir miklum tekjuauka á hentugan og hagkvæman hátt. Og þess er vissulega ekki vanþörf. Tekjuaukningin, sem við gerum ráð fyrir að fáist með þessu móti, kemur mjög lítið við landsmenn, en hún kemur við þá fáu innflytjendur tóbaksins, hvort sem þeir eru nú 3 eða 4, því að þeir missa af nokkrum tekjum með þessu fyrirkomulagi. Það má auðvitað segja, að þessir menn greiði skatt, en þær tekjur, sem ríkissjóði aflast með því móti, komast ekki í námunda við þær tekjur, sem fást mundu samkv. þessu frv., eins og skýrslur Tóbakseinkasölunnar 1922–25 sýna. Það hefir aldrei verið neinn ágreiningur um það, að gamla einkasalan gaf þann árangur, sem hún átti að gefa. Tilgangur hennar var ekki annar en sá, að afla ríkissjóði tekna, og hann náðist. Það var því alveg óskiljanlegt, þegar flm. hennar ljetu kúga sig til að nema hana burt, og sviftu þannig ríkissjóð miklum tekjum.

Hv. frsm. meiri hl. fór ekkert út í efni þessa frv., en ljet þess getið með almennum orðum, að grg. frv. hefði ekki við rök að styðjast, hvað snerti þær tekjuvonir, sem þar er gert ráð fyrir, með samanburði við afkomu Tóbakseinkasölunnar gömlu, eða með öðrum orðum, að ríkissjóður muni ekki fá þær tekjur, sem þar er gert ráð fyrir. Nú getur enginn borið á móti því, með því að það er skjalfest, að þær tekjur, sem einkasalan gaf ríkissjóði þau 4 ár, sem hún stóð, voru að meðaltali nál. 300 þús. kr. á ári, og það var meira en í upphafi var gert ráð fyrir. Þegar við því teljum víst, að einkasalan muni ekki gefa af sjer minna en alt að ¼ milj., er það á fullum rökum reist, enda bygt á þeirri reynslu, sem. gamla einkasalan gaf. Mjer finst því það, sem í grg. segir, standa óhrakið.

Inn á hina ástæðuna gegn þessu frv., sem mun meginástæða meiri hl. fyrir frávikningunni, skal jeg ekki fara, af því að jeg býst ekki við, að hv. meiri hl. n. sje sammála, hvað snertir stefnuna til þessa máls, þó að hann virðist sammála um að vísa málinu frá að þessu sinni.

Mergur þessa máls er sá, að það þarf að afla ríkissjóði tekna. Hingað til hefir það þótt gott að eiga 200 þús. kr. vísar á ári, og jeg skil ekki í þeim flokki sem ber ábyrgð á fjármálunum, en vill þó ekki fá þessar tekjur ríkissjóði til handa. Nd. hefir nú skilað fjárl. með nokkrum beinum tekjuhalla, auk þess sem búast má við, að það bætist við ekki lítil fjárhæð, vegna ýmissa nýrra 1., og er því líklegt, að fjárl. verði nú raunverulega afgreidd með talsverðum tekjuhalla, því að ganga má að því sem vísu, að hjer í Ed. bætist eitthvað við. Og hvaðan á að taka peningana til hátíðahaldanna 1930? Það er ekki enn farið að gera áætlun um þann kostnað í fjárl., en hann hlýtur að verða mjög mikill, a. m. k. altaf nokkur hundruð þúsund kr. Það er vonandi, að það verði gott árferði þetta ár, eins og nú lítur út fyrir, og ríkissjóður fái miklar tekjur af tekjustofnum sínum, en við rennum alveg blint í sjóinn með það, hve miklar þær tekjur verða. Hitt vitum við með vissu, að útgjöldin verða mjög mikil 1930. Jeg fæ því ekki betur sjeð, en að öll rök hnigi að því, að ríkissjóður sje í fullri þörf fyrir þær tekjur, sem honum eru ætlaðar samkvæmt þessu frv., því að útgjöldin verða áreiðanlega svo mikil, að ef ekki verður kappkostað að útvega ríkissjóði einhverja tekjuauka, eru líkur fyrir verulegum tekjuhalla 1930.

Það er leiðinlegt fyrir hæstv. stj., sem sennilega getur ráðið örlögum þessa frv., að verða að feta í fótspor fyrirrennara síns, sem nú er málsvari hv. meiri hl. fjhn., og skilja við með mikinn tekjuhalla á baki í lok kjörtímabils síns, einkum ef svo er, sem jeg býst við að fullyrða megi, að stj. hafi hafnað vissum tekjum ríkissjóðs, er hún hafði heimild til að innheimta. Enn hefir ekkert frv. komið fram af stj. hálfu, til þess að tryggja ríkissjóði tekjur, og þarf hann þó vissulega á því að halda, eins og jeg hefi sýnt fram á. Það er eins og hæstv. stj. byggi alla von sína á skattanefndinni, sem nú situr á rökstólum. Þessi skattanefnd hefir nú starfað undir það árlangt, og ekkert frá henni komið, og heldur ekki að vænta að neitt komi frá henni fyr en á næsta þingi. Að bíða eftir áliti nefndarinnar og fresta framkvæmdum þessa máls um 1 ár þýðir það, að ríkið tapar 200 þús. kr. tekjum á sama tíma. Mjer finst ekki ástæða til að afneita öruggum og föstum tekjum, þó að þessi nefnd hafi ekki enn lagt blessun sína yfir málið. Það væri líka dálítið merkilegt, að fella þetta frv. nú, ef það kæmi svo upp úr dúrnum, eins og mjög sennilegt er, að meiri hl. skattanefndar legði til þegar á næsta ári, að tekin væri upp einkasala á tóbaki.

Að lokum get jeg ekki stilt mig um að benda á það, að hæstv. stj. hefir að mestu leyti látið undirbúa þetta mál í von um, að það næði fram að ganga. Fyrv. hæstv. fjmrh., Magnús heitinn Kristjánsson, gerði ráðstafanir til þess að semja frv. um þetta efni og hefði eflaust borið það fram á þessu þingi, ef honum hefði enst líf og heilsa. Mjer finst því, að hæstv. stj. hefði verið skylt að taka slíku máli vel, er það var fram komið, í stað þess að líta ekki við því, en fallast á till. fjandmanna málsins, sem altaf hafa verið öndverðir einkasölu í hvaða mynd sem er.

Annars mætti minna á, að Alþt. geyma sterk orð Framsóknarmanna, þar sem þeir lýsa því yfir hver á fætur öðrum, að þeir vilji fylgja einkasölu á tóbaki af því að sú aðferð sje mjög hentug í framkvæmdinni til þess að afla ríkissjóði verulegra tekna. T. d. segir Klemens Jónsson í ræðu á þingi 1925, sem prentuð er í Alþt. frá því ári, — það eru aðeins fáein orð, sem jeg ætla að lesa með leyfi hæstv. forseta:

„Jeg get lýst því sem minni persónulegu afstöðu til þessa máls, að jeg fylgi einkasölu á tóbaki bæði af „principi“ og vegna þess, að jeg tel það hagnað“.

Jeg gæti raunar vitnað í fleiri ræður hv. Framsóknarmanna frá þessu þingi, þar sem þeir lýstu yfir með enn sterkari orðum fylgi sínu við málið. En fari nú svo, að frv. þessu verði vísað frá með rökstuddri dagskrá, eða á einhvern hátt komið fyrir kattarnef, þá geng jeg þess ekki dulinn, að um greinilega stefnubreyting er að ræða hjá Framsóknarmönnum þessarar hv. d., og þá lítill munur orðinn á þeim og upphaflegum flm. frv., hv. 1. þm. Skagf. (MG) er banaði gömlu einkasölunni, sínu eigin afkvæmi, sællar minningar. Og lítið verður þá úr stóru og sterku orðunum, er hæstv. atvmrh. (TrÞ) beindi til 1. þm. Skagf., rjett áður en gengið var til atkv. um það, hvort einkasalan skyldi lögð niður eða ekki 1925. Man þó eflaust margur, hve hv. þm. Str. (TrÞ) var þá þungorður í garð þáverandi atvmrh. (MG). En þau orð hafa þá verið markleysa ein, ef hv. Framsóknarmenn vilja ekki við þessu máli líta nú. Vík jeg ef til vill að þessu síðar. Að vísu hefir því verið fleygt, að þm. flokksins væru skiftir í málinu, en jafnhliða er sagt, að hæstv. fjmrh. (EÁ) hafi nýlega lýst því yfir í hv. Nd., að hann vildi ekki að einkasala á tóbaki yrði samþ. á þessu þingi. Og þar sem ætla má, að hann hafi talað fyrir hönd hæstv. stj., þá er sennilegt hver sje afstaða meiri hl. stjórnarflokksins til þessa máls.