30.04.1929
Efri deild: 57. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 476 í C-deild Alþingistíðinda. (2599)

102. mál, einkasala á tóbaki

Fjmrh. (Einar Árnason):

Jeg man ekki, hvort jeg hefi tekið það fram í þessari hv. d., en í hv. Nd. hefi jeg a. m. k. gert það, að jeg teldi ekki nauðsynlegt að samþ. frv. um einkasölu á tóbaki á þessu þingi. Og ástæðurnar eru sömu og þær, sem teknar eru fram í nál. hv. meiri hl. fjhn.

Eins og menn muna, var á þinginu í fyrra samþ. þáltill. um skipun milliþinganefndar í skattamálum. Var nefndin skipuð 3 mönnum og kosin af öllum stjórnmálaflokkum þingsins í þinglokin. Nefndin hefir enn ekki skilað áliti, en hinsvegar er í þáltill. tekið allnákvæmlega fram um verkefni hennar, og í d.-lið till., sem jeg, með leyfi hæstv. fors., ætla að lesa upp, er talað um ýms einkasölumál. Þar segir svo:

„Að athuga, hvort ekki megi afla ríkissjóði tekna án þess að íþyngja gjaldþegnum, svo sem með einkasölu á nokkrum hátolluðum vörum, eða öðrum þeim vörum, sem hentugar eru til einkasölu, eða á annan hátt.“

Þarna er beint bending um það, að skattamálanefndin skuli taka einkasölumálin til athugunar og leggja álit sitt fyrir þingið.

Nú get jeg ekki sjeð, að brýn ástæða sje til að þingið grípi fram fyrir hendur n. um verkefni, er síðasta þing fól henni að rannsaka. Þess vegna hefi jeg lýst yfir því, að jeg væri á móti öllum breytingum, sem fram hafa komið á þessu þingi um skatta- og tollmál. Þær eru að vísu ekki margar, þessar breytingar, sem betur fer, en allar eru þær fram bornar af flokksbræðrum hv. flm. þessa frv. Jeg tel það illa farið, að hvert einasta þing sje að grauta í þeim málum, sem ráð er fyrir gert að lögð verði fyrir eftir föstum reglum frá n., sem haft hefir þau til rannsóknar samkv. skipun þingsins.

Hv. flm. hefir borið fram till. um aukin útgjöld til embættis- og starfsmanna ríkisins, sem gleypa mundu hinar áætluðu tekjur hans af þessu frv. Sú eyðsla er þegar komin á þetta yfirstandandi ár og kemur líka á 1930.

Hv. frsm. minni hl. (JBald) furðaði sig á því, að sá flokkur, sem bæri ábyrgð á fjárhag ríkissjóðs, vildi svifta hann þeim tekjum, er áætlaðar væru með frv. þessu. Jeg hefi nú fært rök fyrir því, hvers vegna jeg vil ekki breyta að svo komnu. Hinsvegar get jeg líka sagt, að óhætt mun að slá því föstu, að ekki megi byggja á svo háum tekjum af tóbakseinkasölunni fyrsta árið, eða aldrei hærri en það, sem ríkissjóður þarf að greiða vegna hækkandi dýrtíðaruppbótar á laun embættismanna.

Með þessu er þó ekkert sagt um það, hvernig jeg muni snúast við þessu máli, er það kemur rækilega undirbúið af milliþinganefndinni.

Hv. frsm. minni hl. tók það fram, að stj. hefði undirbúið þetta mál. Þetta er að nokkru leyti rjett, að Magnús heitinn Kristjánsson undirbjó málið, og mjer er sagt, að hann muni hafa ætlað að bera það fram í þinginu, ef honum hefði enst líf og heilsa.

En þetta breytir ekki afstöðu minni á neinn hátt. Hv. frsm. minni hl. spurði mig að því áður en hann bar fram frv., hvort jeg vildi ekki flytja það. Jeg kvað nei við því og ljet jafnhliða í ljós, að jeg óskaði ekki eftir, að frv. yrði afgr. á þessu þingi.

En þó að segja megi, að málið hafi verið undirbúið af stj., þá var það nú svo, að sá ráðherranna, sem fór með fjármálin á undan mjer, hann tók málið ekki upp heldur.

Annars er ekki ástæða til að fara út í, hvaða líkur sjeu fyrir því, hvað miklar tekjur tóbakseinkasalan gefi ríkissjóði. Jeg geri ráð fyrir, þegar sú stofnun væri komin á fastan fót, að hún mundi gefa tekjur, sem um munaði. En það liggur ekki fyrir nú að ræða þá hlið málsins, og get jeg því látið hjer staðar numið um sinn.