05.04.1929
Neðri deild: 37. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í B-deild Alþingistíðinda. (26)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

0026Gunnar Sigurðsson:

Mjer hefir komið það allkynlega fyrir sjónir, að undir þessum löngu umr. um þetta mál skuli ekki hafa verið minst einu orði á aðalgrundvöllinn, sem það byggist á, sem sje sölu verðbrjefanna. Afkoma bankans hlýtur að verða allmikið komin undir því, hvernig sú sala gengur. Jeg er í engum vafa um, að með tímanum tekst að selja þau erlendis, en til þess að gera það auðveldara, er miklu hentugra að hafa öll veðdeildarbrjefin í sama banka. Jeg teldi æskilegast, að landbúnaðarbankinn hefði alla veðdeildarstarfsemi, enda væri slíkt til hagræðis fyrir Landsbanka Íslands, þar sem störf hans eru ávalt að aukast. Ef það virtist nú ekki tiltækilegt að láta þennan nýja banka hafa alla veðdeildina, vildi jeg heldur, að Landsbankinn hefði hana alla áfram heldur en farið væri að skifta henni, því að með því teldi jeg sennilegt, að hann gæti komist í samband með sölu brjefanna t. d. við kauphöllina í Kaupmannahöfn, og jafnvel í sambönd við kauphöllina í New-York. Á þetta atriði vildi jeg leggja mikla áherslu, því að þar sem um jafnlítið þekta þjóð er að ræða eins og íslensku þjóðina, er miklu hægara að selja brjefin, ef þau eru frá einni stofnun.

Út af þessu vildi jeg gera þá fyrirspurn til hæstv. atvmrh., hvort honum fyndist ekki tiltækilegt að taka alla veðdeildina og láta þennan nýja banka hafa hana, til þess að gera brjefin auðseldari.

Þá vil jeg lítillega minnast á brtt. n. við 45. gr. frv. Jeg er henni mótfallinn, því að jeg lít svo á, að gr. þurfi engra breytinga við. Jeg fæ nefnil. ekki betur sjeð en að gengið sje fullkomlega tryggilega frá, þegar um er að ræða að lána gegn tryggingum í búfje.

Þetta getur komið illa við þá, sem stunda eingöngu sauðfjárrækt. Það er nokkuð lítið að fá ekki út á nema helming veðsins með verðlagsskrárverði, einkum þegar þess er gætt, að verðlagsskrárverð er jafnan neðan við sannvirði. Og það verð jeg að segja, að ekki ætti að vera ótryggara að lána út á veð í búpeningi heldur en von í afla. Mjer er líka kunnugt um það, að erlendis, víða þar sem jeg þekki til, eiga bændur kost á að setja jörð sína að veði með áhöfninni, og svo þarf að vera.