30.04.1929
Efri deild: 57. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í C-deild Alþingistíðinda. (2601)

102. mál, einkasala á tóbaki

Frsm. meiri hl. (Jón Þorláksson):

Jeg finn ekki ástæðu til þess að tala mörg orð um þetta mál, og síst af öllu um komedíuspil hv. 4. landsk., sem þykist beita sjer af alefli og í alvöru fyrir því, að leggja niður tóbaksheildsöluverslun síns elskulega flokksbróður, hv. 2. þm. Reykv., en veit þó, að fyrirfram er ráðið, að frv. nái ekki fram að ganga, og getur því talað drjúgmannlega.

Jeg vil þó ekki láta fram hjá mjer fara óleiðrjettar stærstu missagnirnar í ræðu hv. 4. landsk.

Hann talaði um, að hæstv. fjmrh. kastaði frá sjer vissum tekjum með því að gleypa ekki við frv., og það tekjum, sem ríkissjóður mætti illa við að missa árið 1930. Hann miðar við tekjur af einkasölu, sem áður var, og tolli þeim, er þá var á tóbaki, en gætir þess ekki nægilega, að tóbakstollur var hækkaður þegar einkasalan var lögð niður. Sú tollhækkun, er kom í staðinn fyrir álagningu einkasölunnar, mun hafa gefið ríkissjóði fullkomlega eins mikið á ári, eða líklega heldur meira. En tekjuvon þessa frv. er ekki nálægt því að vera um 200 þús. kr. á ári, enda eru ekki færð nein rök að því í grg. þeirri, sem látin er fylgja frv.

Hv. þm. veit það með vissu, að af þessum áætluðu tekjum hlýtur rekstrarkostnaðurinn að greiðast, og hann er þó aldrei undir 100 þús. kr. á ári. Væri því núverandi tóbakstolli haldið, mundi það mála sannast, að tekjur einkasölunnar mundu ganga í sjálft sig vegna kostnaðarins við hana. Það er því ekkert útlit fyrir, að þessar tekjur fáist með því, að breyta frá því sem nú er, nema þá að hækka tóbaksverðið.

Það er sjerstaklega eitt atriði, sem gerir afstöðu hæstv. fjmrh. skiljanlega í þessu máli og hann drap lítilsháttar á í ræðu sinni. Það er sem sje vissa fyrir því, að fyrsta árið, sem slík lög og þessi eru í gildi, gefur einkasalan engan tekjuauka, heldur þvert á móti. Þetta stafar af því, eins og sýndi sig seinast, að þegar birgðirnar safnast á eina hönd, minkar mjög innflutningurinn. Fyrirliggjandi birgðir í landinu verða að eyðast, en vegna þess verður innflutningurinn minni fyrsta árið. Afleiðingin verður því sú, að tolltekjurnar minka, og vegur sú rýrnum ef til vill meira en upp á móti tekjum einkasölunnar fyrsta árið.

Þess vegna skil jeg vel, að hæstv. fjmrh. sje andvígur öllum breytingum í þessu efni og ekki síst á þeim tíma, sem ríkissjóði er sjerstaklega brýn nauðsyn á að halda óskertum tekjum sínum.