30.04.1929
Efri deild: 57. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 482 í C-deild Alþingistíðinda. (2602)

102. mál, einkasala á tóbaki

Páll Hermannsson:

Hv. frsm. meiri hl. (JÞ) hefir í nál. og nú í ræðu sinni túlkað alveg rjett, hvað fyrir okkur meiri hl. fjhn. vakir í heild.

Hinsvegar finst mjer, að hv. frsm. minni hl. (JBald) hafi í ræðu sinni farið út fyrir þann ramma, sem nál. okkar setur um afstöðu meiri hl. fjhn. til málsins, og giskað á fleira en þar er hægt að lesa. Hann talaði um stefnubreytingu okkar Framsóknarmanna á þessu sviði og sagði, að við litum öðrum augum á nauðsyn þessa máls en við hefðum gert áður, eða 1925. Jeg fæ nú ekki sjeð, hvað mjer viðvíkur, að hv. frsm. minni hl. hafi beina ástæðu til að sjá neina stefnubreytingu. Jeg var ekki á þingi þá og hefi heldur ekki látið uppi neitt álit um málið, svo að ágiskanir hans í þessu efni ná ekki til mín.

Aðstaða mín kemur greinilega fram í þskj. 413 og þeirri dagskrá, sem þar er, en þar er yfirleitt ekkert sagt um stefnu meiri hl. í málinu sjálfu, en það kemur þar fram, að meiri hl. kann illa við þau vinnubrögð, að skipa á öðru þinginu n. til þess að fjalla um ákveðin mál, en taka svo verkefnið frá þeirri n. á næsta þingi á eftir án þess nokkurt nál. hafi birst. Hv. 4. landsk. hefir því tekið sjer hjer bessaleyfi, sem hann hefir ekki fulla heimild fyrir. Hæstv. fjmrh. hefir fært rök fyrir þessu, svo að jeg þarf ekki að gera það betur, en jeg vildi láta það sjást skýrt og greinilega, að afstaða mín til málsins nú er ekki bygð á öðru en því, sem nál. ber með sjer, og er engum heimilt að búa til aðrar ástæður fyrir afstöðu minni.