09.04.1929
Efri deild: 40. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 568 í C-deild Alþingistíðinda. (2623)

43. mál, raforkuveitur utan kaupstaða

Jón Jónsson:

Það eru þegar orðnar miklar umr. hjer í deildinni um mál þetta. Tel jeg það vel farið, því málið er merkilegt og gott, og það skýrist við umr.

Hv. 5. landsk. talaði hjer með fjálgleik miklum um málið, og útmálaði með sterkum litum dimmuna og kuldann, sem húsfreyjurnar ættu nú við að búa og alla dýrðina, sem biði þeirra, þegar frv. væri samþ. Var helst á honum að skilja, að ekki þyrfti annað en samþ. frv. til þess að fylla sveitirnar með ljós og hita, svo að enginn flytti þaðan burtu. Blöskraði honum það, að bændur hjengju aftan í sósíalistum til að fella frv., taldi okkur illa þrífast og hótaði okkur loks með hjónaskilnaði þegar heim kæmi!

En í öllum þessum hugleiðingum forðaðist hv. þm. vendilega að gera nokkra minstu grein fyrir fjárhagshlið málsins. En hann verður að virða mjer til vorkunnar, þó jeg geti ekki verið með í því að setja lög um rafveitur, áður en hann hefir fært mjer heim sanninn um það, að okkur sje það kleift.

Mjer þykir það einkennilegt hjá hv. þm., að hann skyldi hneykslast svo mjög á afstöðu minni til þessa máls. Þetta er hið fyrsta þing, sem jeg sit á, og þótt jeg sje enn tómlátur um málið, þá er hitt þó enn merkilegra, að hann, sem þegar hefir setið nokkur ár á þingi, skuli ekki hafa komið auga í þetta nauðsynjamál fyr.

Jafnaðarmanna-grýlan hygg jeg að sje nú farin að slitna dálítið. Það er síður en svo, að jeg skammist mín fyrir að fylgja jafnaðarmönnum í þeim málum, er þeir hafa rjett fyrir sjer, að mínum dómi; jeg tel það hreina skyldu mína. Og jeg get ekki viðurkent þau ummæli hv. þm., að jafnaðarmenn hjer á þingi hafi sýnt illvilja í garð sveitanna. Annars finst mjer að jeg sje engu nær skoðunum jafnaðarmanna í þessu máli en hv. þm. sjálfur. Við erum báðir hlyntir rannsóknum. Jeg vil að ríkið hjálpi þeim hjeruðum, er eitthvað vilja á sig leggja sjálf. Mjer virðist það ekki nema eðlilegt, að ríkið veiti einstaklingunum aðstoð sína við að koma á stofn fyrirtækjum sem þessum, en að það eigi ekki að reka þau, nema að sjerstaklega standi á. Samkvæmt till. minni hl. á ríkið að sjá um undirbúning málsins með því að skipa hina svonefndu orkumálastjórn og kosta allan undirbúninginn. Þar er því lengra gengið í jafnaðarmanna átt, en jeg vil gera, sem aðeins vil láta ríkið hjálpa þeim, sem vilja hjálpa sjer sjálfir. Hv. 3. landsk. þótti gæta einna mestrar mótstöðu gegn frv. hjá mjer. (JÞ: Af þeim, sem þá höfðu talað). En jeg talaði af velvilja í garð frv., eins og líka var skylda mín sem fulltrúa bænda hjer á þingi.

Hitt er annað mál, að jeg er ekki trúaður á það, að þetta verði sveitum landsins að miklu gagni, þótt frv. kunni að komast í gegn. Jeg hafði búist við því, að hv. 3. landsk. mundi sýna mjer fram á, að kostnaðaráætlun mín væri alt of há, og kæmi fram með nýjar tölur, skýrði þær og leiddi mig í allan sannleika, en það fór svo fjarri því að hann gerði það, að hann vjek ekki að því. Hann hafði ekkert við áætlun mína að athuga, heldur þvert á móti, því að hann sagði, að eftir fjárhagslegum mælikvarða mætti sanna, að rafveitur myndu ekki borga sig fyrir einn einasta bæ á Íslandi. Hv. 3. landsk. sagði, að vinnukraftur mundi sparast við raflýsingu, og jeg geng þess heldur ekki dulinn, en aftur á móti veit jeg ekki, hversu mikið er upp úr því leggjandi, eða hinu, að áburðarefni losni frá brenslu. Í fyrri ræðu minni gat jeg þess, að ef áburður er notaður til brenslu, verða bændur að kaupa útlendan áburð í staðinn, því að auðvitað er mjer og öllum ljóst, að það má ekki svelta túnin. Þá verða menn einnig að gera sjer grein fyrir því, hvað sje ódýrast til notkunar, kol, útlendur áburður eða rafmagn, og eftir þeirri niðurstöðu, sem þeir þá komast að, verða þeir að fara.

Hv. 3. landsk. talaði um það, að orkuver, sem hefðu yfir 500 hestorkur, væru ódýrari en hin minni, en það kemur vart til, að slík ver verði reist, nema að einhver iðnaður yrði settur í samband við þau, en náttúrlega mætti athuga möguleikana fyrir því samhliða. Í fyrri ræðu minni gat jeg þess, að jeg vildi að rannsókn á máli þessu yrði framkvæmd sem fyrst og sem nákvæmast, en það virðist svo sem hv. 3. landsk. telji það ekki stuðning við málið, en mjer segir svo hugur um, að trú hv. þm. sje ekki sem sterkust í þessu máli, því að auðvitað á hvert mál að rannsakast sem allra best, og við þá rannsókn ættu kostirnir að koma í ljós. Rafmagnsmálið getur komið miklu góðu til leiðar, en það þarf að rannsakast nákvæmlega, og óskin þarf að koma frá hjeruðum og einstaklingum, en ríkið á að veita styrk til þess. Með tilliti til þess vil jeg leyfa mjer að koma fram með svohljóðandi rökstudda dagskrá:

„Í því trausti, að ríkisstjórnin, eftir ástæðum, útvegi þeim hjeruðum, sem þess óska, hæfa menn til að rannsaka skilyrði fyrir sameiginlegri raforkuveitu, með þeim skilyrðum, að ríkið og hlutaðeigandi hjeruð kosti rannsóknina að helmingi hvort, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Með þessu þykist jeg hafa sýnt málinu fullan sóma, og jeg vil taka það fram, að jeg mun beita mjer fyrir því, að í mínu hjeraði verði hafist handa í þessum efnum. Ef svo skyldi fara, að dagskr. yrði feld, þá mun jeg þó verða fylgjandi till. meiri hl., þótt þær sjeu að mörgu leyti verri en þetta, sem hjer er farið fram á. Eins og sakir standa veit jeg ekki, hvort nokkur hreyfing er í sveitunum í þessa átt, en jeg býst við, að áhugi manna fari vaxandi.