09.04.1929
Efri deild: 40. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 577 í C-deild Alþingistíðinda. (2625)

43. mál, raforkuveitur utan kaupstaða

Ingibjörg H. Bjarnason:

Þar sem jeg er einn af flm. frv. á þskj. 44, sem svo mikið og margt hefir verið rætt um, get jeg ekki látið það fara gegnum þessa umr. án þess að segja um það nokkur orð.

Jeg álít, að frv. þetta, nái það fram að ganga, boði konum nýrri og betri tíma, og jeg veit, að þannig muni flestir óhlutdrægir menn líta á það.

Þegar á málið er litið alment, þá gegnir það mestu furðu, að ekki skuli öll hv. fjárhagsnefnd hafa getað orðið sammála um að leggja það til við þessa hv. deild, að samþykkja frv. þetta. En svo hefir ekki orðið. Meiri hluti hv. nefndar vill vísa málinu frá, af þeim ástæðum, að það sje ekki nógu vel undirbúið, að það verði ríkissjóði of kostnaðarsamt, og að „búast megi við, að kröfur um undirbúningsrannsóknir og síðan um fjárstyrk til raforkutauga, muni koma samtímis úr öllum áttum“.

En þessar ástæður hafa nú verið vegnar og ljettvægar fundnar, enda reynsla fyrir því, að framkvæmdir, sem ríkið hefir staðið að á líkan hátt og hjer er gert ráð fyrir, t. d. vegalagningar, brúargerðir og símalínur. Þetta hefir ekki komið alstaðar alt í einu. Það hefir unnist með tímanum og þá verið farið eftir því, hvar þörfin var mest, og þau hjeruð setið fyrir — vegum og síma.

Í nál. minni hl. fjhn. kemur það ljóslega fram, að ætlast er til, að unnið verði að raforkuveitum landsins á líkan hátt, sbr. nefndarálit hans, sem telur að löggjöf og framkvæmdir um raforkuveitur til almenningsþarfa eigi að byggjast á sama grundvelli: „Framkvæmdir verða þá með eðlilegum hætti, fyrstar þar, sem áhugi er mestur og aðstaða best til þess að fyrirtækið beri sig.“

Er því óþarfi að gera ráð fyrir að uppfylla þurfi óskir allra hjeraða landsins um rafvirkjun á einu og sama árinu. Nei, hjer er fordæmið fyrir hendi, sem er vitarnir, vegirnir og síminn.

Sannfæring mín er sú, að væri hafist handa nú um að koma upp raforkuveitum til almenningsþarfa, með því fyrirkomulagi, sem frv. gerir ráð fyrir, þá verði að tuttugu árum liðnum raftauganet landsins engu óvíðtækara en símanet landsins er nú, rúmum 20 árum eftir að fyrsta taugin var lögð.

Það leiðir af sjálfu sjer, að þar sem ekki er gert ráð fyrir að alt verði unnið í einu, sem að framkvæmdum lýtur, þá er ómögulegt að gera fyrirfram ábyggilegar kostnaðaráætlanir um raforkuveitur fyrir landið alt; þær kæmu smátt og smátt, jafnóðum og ákveðið væri að taka fyrir hvert einstakt orkuver.

Jeg vil taka undir orð hv. frsm. minni hl., að við þær áætlanir er mikill ljettir, að hafa við að styðjast landmælingar og uppdrætti danska herforingjaráðsins. Því miður er því verki enn ekki lokið, en jeg teldi það vel farið og nauðsynlegt, að hæstv. ríkisstjórn sneri sjer að því, að láta framkvæma það, sem eftir er að mæla, og gera uppdrætti af norðausturhluta landsins (Eyjafirði, Þingeyjar- og Múlasýslum).

Í greinargerð fyrir frv. leggjum við flutningsm. þess áherslu á það, að almenn úrlausn málsins geti ekki orðið sú, að hvert einstakt býli á landinu komi sjer upp orkuveri til eigin nota. Fyrst og fremst er aðstaða til heimavirkjunar ákaflega misjöfn, á nokkrum stöðum ágæt, öðrum miður góð og víða ill eða ókleif. — Auk þess er efnahag alls þorra bænda ekki þannig varið, að þeir geti einir borið kostnaðinn.

Afleiðingin er þá sú, sem þegar er farin að koma í ljós, að einstaka efnaheimili, þar sem aðstaðan er góð, geta veitt — og veita sjer — þau miklu gæði, sem raforkuveitan hefir að færa.

Þetta verður svo í reyndinni þröskuldur á vegi fjelagsframkvæmda.

Með þetta fyrir augum verður nauðsynlegt að hefjast þegar handa um að gera raforkuveitumálið skipulagsbundið, og mælir það atriði fastlega með því, að málið verði ekki dregið á langinn, tafið eða svæft.

Hjer er um mjög veigamikla ástæðu að ræða, sem allir þeir, sem horfa eitthvað fram í tímann, ættu að geta fallist á.

Þótt fleira mætti fram bera frv. til stuðnings frá almennu sjónarmiði, mun jeg ekki lengja ræðu mína frekar með því, en snúa mjer að annari í hlið málsins.

Það er sjaldgæft að heyra hjer á hinu háa Alþingi, að tekið sje tillit — í orði — til kvenþjóðarinnar og verkahrings hennar, í sambandi við umræður um hin ýmsu þjóðþrifamál, sem eru rædd á Alþingi. Mjer var það því mikið ánægjuefni, að hv. 5. landsk. þm. (JKr) í ræðu sinni mintist hvað eftir annað á þýðingu þá, sem það hefir, að raforkan eða „hvítu kolin“ verði flutt inn á öll eða flestöll býli landsins.

Oft er nú á tímum talað um fólksekluna, sjerstaklega í sveitum landsins — og það ekki að ástæðulausu, og allir vita til hverra vandræða horfir í því efni. En þar sem það er svo, enn sem fyr, að

„Bóndi er bústólpi,

bú er landstólpi,

því skal hann virður vel“ —

þá má ekki gleyma því, að kona bóndans, sem tekur sinn þátt í öllu striti hans og störfum, er einnig alls góðs makleg.

Það er vitanlegt, að húsmæður þessa lands, ekki síst til sveita, munu fagna því, að heyra, að fram er komið á Alþingi frv. til laga um raforkuveitur til almenningsþarfa, og að frv. er einmitt miðað við þarfir almennings til sveita. Og jeg er viss um, að konur munu fylgja gangi þessa máls með áhuga og bíða úrslitanna með eftirvæntingu.

Það gæti farið svo, að einhverjar konur yrðu þess minnugar, hverjir þm. hafa tafið þetta mál, þegar þeir koma til þeirra sem kjósanda næst. Það er í alla staði eðlilegt, að bæði konur og karlar kynni sjer, hverjir þm. hafi haft rjettan skilning á slíku máli sem þessu, og hverjir það eru, sem hafa verið með vífilengjur, þyrlað upp ryki og reynt að láta líta svo út, sem málið væri ekki nægilega undirbúið og varhugavert frá fjárhagslegu sjónarmiði.

Þetta mál er þannig vaxið, að það ættu eigi að verða um það flokkadrættir og sundurlyndi. Þetta mál er menningarmál, og það mun sannast, að ef núlifandi kynslóð býr svo um, að rafmagnið verður eign hvers heimilis, fær hún að launum þakkir komandi kynslóða, fyrir að hafa þannig leyst þjóðina úr fjötrum myrkurs og kulda. Þó að þarfir okkar séu margar og miklar, þá hygg jeg, að sú þörf, sem hjer er farið fram á að bæta úr, sje ekki hvað minst aðkallandi. Myrkrið og kuldinn hafa legið eins og mara á þjóðinni, alt frá landnámstíð. En eins og oft hefir verið tekið fram, hefir þetta mikla þýðingu fyrir heilbrigðisástand þjóðarinnar. Hlý og björt húsakynni veita þroska og lífsgleði og efla lífsþróttinn, en þetta hefir mikil áhrif á starf og líf hvers einstaklings. Það búa nú of margir í rökum og dimmum húsakynnum, en besta leiðin til þess að vinna bug á því, er einmitt það mál, sem hjer er um að ræða, og er það því mjög óskiljanlegt, að það skuli ekki mæta meiri skilningi en það gerir hjá meiri hl. þessarar hv. deildar.

Það hefir lítið verið minst á það, hve raforkan ljettir undir með flest heimilisstörf, t. d. matreiðslu og upphitun, auk þess sem hún eykur hreinlætið að miklum mun. Jeg get talað um þetta af nokkurri reynslu. Sú var tíðin, að við þurftum að hreinsa þetta 20–30 lampa daglega í Kvennaskólanum, og jeg man, hvað okkur brá við, þegar rafljósin komu, og þessi liður var úr sögunni, og við gátum notað þann tíma, sem til þessa hafði gengið, til annars, sem okkur var ánægjulegra.

Það hefir verið tekið fram af ýmsum, einkum hv. 3. landsk., að það mundi spara áburðinn, sem jarðræktin má illa við að missa, þegar raforkan er orðin almenn, eigi aðeins til ljósa heldur einnig til hitunar. Við vitum, hvað miklu er brent af áburði eða taði, og allir vita, hvað það tefur ræktun landsins, ef þarf að nota áburðinn til eldiviðar.

Jeg hefi nú bent á það, hvílíkur vinnusparnaður er að rafmagninu, þá hreinlætisaukningu, sem það hefir í för með sjer, og hver áhrif það hefir á heilbrigði og heilsufar. Alt eru þetta svo mikilvægar ástæður, að Alþingi ætti sem fyrst að ljá þessu máli stuðning sinn. Og hvað sveitirnar snertir, þá er rafmagnið eitt af aðalleiðunum til að gera þær samkepnisfærar við kaupstaðina. Eins og nú er, flýr unga fólkið sveitirnar, enda er ekki nema eðlilegt í alla staði, að það, þegar það hefir komist upp á hlý, björt og góð húsakynni, kjósi heldur að búa þar, sem þessu er að heilsa, og sæki þangað. Bak við þennan flótta unga fólksins úr sveitunum liggur óskin um bjartara og þægilegra líf og ákjósanlegri lífsskilyrði.

Það, sem sjerstaklega getur lyft þessu máli, er að mínu áliti sameinuð aðstoð ríkisstj. og fjárveitingavaldsins. Og það er engin fjarstæða, þó að gert sje ráð fyrir, að takast megi að koma því fram. Íslenska þjóðin hefir, þau rúml. 50 ár, sem hún hefir sjálf ráðið fjármálum sínum, lyft stærri Grettistökum en þessu. Og með aðstoð Alþingis tekst það, ef sú viljastefna verður ofan á, sem lítur á hag heildarinnar, en gleymir því, hvort málin eru borin fram af meiri eða minni hl. þings. Jeg vil minna menn á orð hins stórhuga skálds, Hannesar Hafsteins:

Starfið er margt, en eitt er bræðbandið,

boðorðið, hvar sem þjer í fylking standið,

hvernig sem stríðið þá og þá er blandið:

það er að elska, byggja og treysta’ á landið.

Ef allir vildu hafa það fyrir markmið að vinna að velferðarmálum þjóðarinnar, er jeg viss um, að þingmeirihl. hefði tekið þessu máli betur en raun hefir á orðið. Þeir treystu á landið, mennirnir, sem brúuðu fyrstu stórárnar, í því trausti, að geta með tímanum brúað þær allar, lögðu fyrstu vegina, bygðu fyrstu vitana og lögðu fyrstu símalínuna. Því er mjer spurn: Eiga þingmenn nú ekkert af þessu trausti? Treystir enginn því, að þjóðin sje fær um að veita sjer rafmagn, sem gengur næst sólarljósinu að gæðum, og er skilyrðið fyrir ljósi, yl, hita, lífi, heilsubót og fleiri lífsþægindum. Jeg held, að það sjeu ekki öfgar, þó að jeg telji þetta upp og færi frv. okkar það til gildis. Meðferð frv. hjer í hv. d. sker úr því, hvort það eigi framvegis að vera einkarjettindi efnamannanna að njóta gæða og þæginda rafmagnsins. En ef sú leið verður farin, að láta afskiftaleysið og tregðuna ríkja áfram um þessi mál, munu þeir þm., sem að því stuðla, komast að raun um, eftir nokkur ár, að betra hefði verið að sinna þessu á því herrans ári 1929. Þá verður það þeirra að afsaka sig og iðrast synda sinna. En jeg vona í lengstu lög, að ekki komi til þess, að þetta mál verði svæft. Jeg vona, að enn lifi traustið á þjóðinni meðal þeirra fulltrúa hennar, sem Alþingi skipa.