09.04.1929
Efri deild: 40. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í C-deild Alþingistíðinda. (2627)

43. mál, raforkuveitur utan kaupstaða

Fjmrh. (Einar Árnason):

Það er ekki nema að vonum, að alllangar umr. verði um þetta mál, því þó að maður gæti haldið, að fyrir hv. flm. væri hjer aðeins um smámál að ræða, er ekki þyrfti að hika við að samþykkja, þá er hjer þó í raun og veru stórmál á ferðinni, sem veltur á tugum miljóna og jafnvel hundruðum fyrir þjóðina.

Hv. 2. landsk. (IHB) furðaði sig á, hvað kuldalega væri í málið tekið og hv. 5. landsk. (JKr) tók í sama strenginn. En mjer finst, að engan þurfi að furða, þó að ekki sje að þessu hrapað undirbúningslaust, því að með frv. er ekki farið fram á neitt smáræði, eins og bent hefir verið á. Fyrst og fremst er ætlast til, að ríkissjóður styrki virkjunina með stórum fjárhæðum, en auk þess má búast við, að slíkar framkvæmdir komist hjer ekki á nema með stærri lánum, er ríkissjóður yrði að ábyrgjast, og það ef til vill fyrir mörg sveitarfjelög. Er því auðsætt, að slíkar framkvæmdir eins og þær, er frv. gerir ráð fyrir, geta því að eins orðið, að ríkissjóður standi þar undir að mestu eða öllu leyti.

Þess vegna tel jeg það óforsvaranlega ljettúð gagnvart ríkissjóði, ef hv. flm. hafa ætlast til, að frv. yrði samþ. nú. Jeg get heldur ekki trúað því, að það hafi verið alvara þeirra, eða þeir ætlast til að frv., eins og þeir ganga frá því, yrði að lögum á þessu þingi. Með þessu er ekki þar með sagt, að hjer geti ekki verið um stórt framtíðarmál að ræða. En það gildir það sama um það, eins og svo mörg önnur stórmál — og ekki síst sveitanna, að þau verða ekki framkvæmd í einum svip. Það dettur engum í hug að neita því, að það sje gott mál að leiða ljós og yl um sveitirnar, en þó liggur annað nær að gera: að byggja upp sveitirnar og gera híbýlin vistlegri en þau eru. Mjer finst það líkast því, sem byrjað væri að smíða negluna í skipið, ef miklu fje væri varið til þess að leiða ljós og hita í bæi þá, sem komnir eru að falli og tæpast hanga uppi, eins og því miður á sjer altof víða stað í sveitum landsins. Hins vegar er ekki nema gott til þess að hugsa, að slíkar framkvæmdir komist á, ef það verður ekki ofraun fyrir ríkissjóð, og það er það, sem rannsóknin á að leiða í ljós, á hvern hátt þetta verði framkvæmt svo, að ríkið og einstaklingarnir megi vel við una.

Annars var það sjerstaklega út af nokkrum orðum í ræðu hv. 5. landsk., að jeg kvaddi mjer hljóðs. Hann sló því fram, að ráðherrarnir hefðu talað flátt í þessu máli. (Margir Íhaldsm.: Það sagði hann ekki).

Þegar hv. 5. landsk. var spurður, við hverja hann ætti, þá svaraði hann skýrt og skorinort, að það væru ráðherrarnir, og það stendur skrifað hjá mjer. (JKr: Þetta er misskilningur, sem jeg skal leiðrjetta, þegar jeg svara aftur). En jeg vil ekki, að leikið geti á tveim tungum, hver afstaða mín er til þessa máls. Jeg vil ekki að frv. Verði samþ. nú á þessu þingi, en jeg get greitt því atkv., að þetta mál verði rannsakað vel og vandlega, svo leiða megi í ljós, að fært verði að samþ. frv. í þessu efni, án þess að ráðist sje í eitthvað, sem kalla má með öllu óframkvæmanlegt.

Það hefir verið ráðist í mörg stórfyrirtæki, sem kostað hafa ríkissjóð miljónir króna, en sem búið er að sýna sig, að orðið hafa sveitunum til meira niðurdreps heldur en ef aldrei hefði verið í þau ráðist. (JÞ: Svo sem hvað?). T. d. Skeiðaáveitan margumtalaða. (JÞ: Þetta er alger misskilningur!). Og mín skoðun er, að rjettara hefði verið að þurka heldur upp Flóann, verja miljónunum til þess í staðinn fyrir að veita á hann vatni. Það hefði því ekki verið vanþörf á að athuga margt betur, áður en ráðist var í annað eins risafyrirtæki og Flóaáveitan var og er. Og það er með þessa reynslu fyrir augum, að jeg tel óforsvaranlegt að samþ. frv. eins og það er nú. Hinsvegar er stj. fús til að láta rannsaka þetta mál, ef þingið vill svo vera láta, og leggur að öðru leyti fram það fje, er til þess þarf.

Jeg hefi svo ekki ástæðu til að segja neitt frekar. Jeg vildi aðeins gera grein fyrir skoðun minni á þessu máli, svo að öllum mætti verða ljóst, hvað fyrir mjer vakir.