09.04.1929
Efri deild: 40. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 605 í C-deild Alþingistíðinda. (2630)

43. mál, raforkuveitur utan kaupstaða

Jón Jónsson:

Jeg vissi ekki hvernig jeg átti að taka það, er hv. 5. landsk. (JKr) var að tala um það í ræðu sinni, að menn töluðu fagurt en hygðu flátt um þetta mál. Jeg hjelt fyrst, að hann ætti við hæstv. ráðh. með þessari ásökun. Mjer skildist það helst á orðum hans. En síðar upplýsti hann, að hann hefði með þessum orðum sínum átt við þá aðra, er um málið hafa talað af hálfu meiri hl. — Jeg fyrir mitt leyti vil algerlega mótmæla þessu hvað mig snertir. Og jeg get fullyrt, að í hinni rökst. dagskrá minni felst enginn fláttskapur. Jeg ætlast fullkomlega til, að eftir henni verði lifað, ef hún nær samþ. þessarar hv. deildar. Og jeg ætlast til, að samkv. henni fái hvert það hjerað, sem fram á það fer, verkfræðilega aðstoð til undirbúnings orkuvera og rafmagnsleiðslu. Og einn hæstv. ráðh. hefir tjáð sig samþykkan því að það sje gert. Jeg tel því, að hjer sje ekki um neinn fláttskap að ræða. Og jeg efast um, að í því sje fólginn minni áhugi fyrir þessu máli heldur en kemur fram í till. hv. 5. landsk., þótt hann vilji nú þegar ákveða kostnaðarskiftingu í framkvæmd verksins. Annars er nú hv. þm. nær sósíalistum í till. sínum. Hann vill láta ríkið bera allan kostnað af undirbúningi þessa máls. En jeg vil skifta kostnaðinum og hjálpa aðeins þeim, sem vilja hjálpa sjer sjálfir. Hv. þm. er því sjálfur nær sósíalistum, þótt hann segði, að jeg negldi mig aftan í þá. Og frá sjónarmiði hv. þm. ætti hann frekar að átelja það, að jeg fylgdi eigi nógu fast sósíalistum í þessu máli, því að bæði hv. frsm. meiri hl. og hv. frsm. minni hl., sem fylgir í raun og veru stefnu sósíalista í þessu máli, vilja láta ríkið bera allan kostnað af undirbúningi þessa máls. — Þá talaði hv. þm. um það hneyksli, að hv. 4. landsk. hefði verið valinn frsm. meiri hl. Um það er ekki mig að ásaka, enda naumast ásökunarvert. Ekki get jeg skilið hvers vegna hv. þm. var að draga verkfallið í vetur inn í umr. — Það er eðlilegt, að menn geti orðið ósamdóma um mál svo sem eins og verkföll. Þó ætti það ekki að standa fyrir því, að menn gætu staðið hlið við hlið og unnið saman, þegar skoðanir falla saman. Hitt væri óhæfilegt, ef hatrið gengi svo langt, að menn vegna ólíkra skoðana á sumum málum, gætu ekki unnið saman þegar skoðanir falla saman. Það tel jeg ganga of langt.