09.04.1929
Efri deild: 40. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 608 í C-deild Alþingistíðinda. (2632)

43. mál, raforkuveitur utan kaupstaða

Jónas Kristjánsson:

Hv. 6. landsk. getur ekki breitt yfir framkomu sína í þessu máli, svo ekki sjáist í gegn, að þótt hann tali fagurt, þá er hugarfarið annað, eins og dagskrá hans ber vitni um. (JónJ: Stjórnin hefir lýst yfir því, að hún taki hana til greina!) Annað heyrðist mjer nú á hæstv. dómsmrh. Mjer heyrðist álit hans á verkfræðingum vorum á annan veg en þann, að hann treysti þeim til slíkrar rannsóknar. Og ef þeim er ekki treyst til þess, hver á þá að gera slíka rannsókn. Nei, þetta er alt út í loftið hjá hv. þm. Þá sagðist hv. þm. vilja hjálpa þeim, sem hjálpa sjer sjálfir. En jeg get ekki sjeð annað, en frv. byggist á því, þar sem notendur eiga að miklu leyti að kosta þetta sjálfir, þá hjálpa þeir sjer líka. En hv. þm. vill láta þá borga helming rannsóknarkostnaðar. Nú getur farið svo, þegar búið er að framkvæma rannsóknina, að ekki þyki borga sig að framkvæma verkið, vegna dýrleika. Er þá ósanngjarnt að láta þá menn greiða þennan kostnað, sem ekkert gagn hafa af því. — Þá var hv. þm. að gleðja sig með því að halda fram, að verkfallið kæmi ekkert þessu máli við. — En þroski hv. þm. er nú ekki meiri en svo, að hann felur sig og hagsmuni sinnar stjettar forystu þess manns, sem sýnt hefir með stefnu sinni og starfsemi í þjóðmálum, að hún ríður alveg í bága við velferð landbúnaðarins, svo að óvíst er, hversu lengi sá atvinnurekstur borgar sig. Jeg býst ekki við, að allir bændur undirskrifi þetta með hv. þm. Viðvíkjandi hæstv. fjmrh. er það að segja, að jeg átti ekki við hann í ummœlum mínum, enda talaði hann ekki fagurt fyrir þessu máli. Jeg átti vitanlega við þá þm. eina, sem það gerðu, en vilja þó fella frv.

Jeg skal litlu svara hv. 4. landsk., enda ekki gott verk við hann að ræða, því hann er fljótur að fara út í aðra sálma og eignar öðrum hvatir og orð, sem ekki eru til. — Hann sagði, að jeg hefði verið móti Byggingar- og landnámssjóði, en viðurkennir nú, að jeg hafi greitt frv. atkvæði mitt, og hefir þannig jetið ofan í sig það sem hann áður fullyrti. Hann veit, að 1927 var um alt annað frv. að ræða, því þótt nafnið sje sama, þá skiftir miklu um form og fyrirkomulag. Þeir agnúar geta á því verið, að ekki sje hægt að fylgja því, þótt maður sje hlyntur hugmyndinni. Svo var um frv. 1927, sem hv. þm. flutti sjálfur. (JBald: Nei!) Hann flutti þó að minsta kosti frv. um að stofna 50 nýbýli á ári. Það frv. var að öllu leyti ómögulegt. — Skal jeg svo ekki stæla meira við þennan hv. þm.

Það kemur í ljós við afgreiðslu þessa máls, hve hlyntir menn eru frv. Þeir, sem samþ. rökst. dagskrána, vilja frv. feigt.