09.04.1929
Efri deild: 40. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 610 í C-deild Alþingistíðinda. (2633)

43. mál, raforkuveitur utan kaupstaða

Ingibjörg H. Bjarnason:

Jeg skal vera stuttorð. Hefi litlu að svara. En jeg vil gera tilraun til að leiðrjetta misskilning, sem kom fram í ræðu hæstv. fjmrh. Hæstv. fjmrh. undrast það, að mjer þyki undirtektir hv. meiri hl. deildarinnar í þessu máli kuldalegar. Já, það finst eflaust fleirum en mjer. Annarsvegar getsakir um óheilindi okkar Íhaldsmanna og hinsvegar kostnaðargrýlan, — þetta venjulega vopn, þegar leiða á athygli fjöldans frá góðu máli að aukaatriðunum. Einhver uggur er nú samt í stjórnarliðinu, að varlegra sje að leggjast ekki fast á móti þessu góða máli, sem eins og hæstv. fjmrh. tók fram í ræðu sinni, er stórmál.

Þá sagði hæstv. ráðh., að óforsvaranlegt væri að afgreiða þetta mál á einu þingi, og mætti eigi ætlast til þess. — En jeg var nú svo bjartsýn, að jeg vonaði eftir því, að mál þetta gæti á þessu þingi fengið einhverja þá afgreiðslu, sem ekki gæti kallast svæfing. Og jeg geri það enn, þótt ekki sýnist nú ástæða til að ala miklar vonir. — En jeg vil undirstrika, að það, sem frv. þetta fer fram á, er alls ekki óforsvaranlegt. Hjer er ekki um það að ræða, að fylgja þessu máli til málamynda. Hjer er um engan fláttskap að ræða. Hjer er um það eitt að ræða, að koma þörfu máli, einu af mörgum, eitthvað áleiðis. Jeg er ekki blind fyrir því, að fleira þarf að gera. Það þarf einnig að bæta húsakynnin, sem mjög víða eru slæm. En einhversstaðar verður að byrja. Við lifum nú á rafmagnsöld. Og þó þetta frv. sje borið fram af minni hl., þá álít jeg, að ef vilji hefði verið til að athuga þetta mál einlæglega, þá hefði mátt finna heppilegri úrlausn en að vísa málinu til stjórnarinnar. Það má vera, að slíkt beri árangur. En oft er sú afgreiðsla vafasöm fyrir framgang mála. Jeg vil óska þess, að frv. fái að ganga til 3. umr. í von um, að samkomulag fáist um heppilega úrlausn málsins. Mætti þá vera, að sá grundvöllur fyndist, sem samkomulag gæti orðið um.

Jeg vil biðja hv. þingdm. að athuga það, að mál þetta er ekki gripið úr lausu lofti. Jeg hefi ekki blandað neinum tölum inn í umr. þessa máls, því að jeg er leikmaður á því sviði, og mun svo farið um fleiri hv. þdm. en mig. Það er ekki auðvelt að segja, hve mikið framkvæmdirnar allar myndu kosta, en það á heldur ekki að gera alt í einu, heldur smám saman, eins og t. d. hefir verið gert með símann. Ætli nokkur hallmæli þeim nú, er báru það mál fram til sigurs? Þannig mun og fara um þetta mál, sem hjer er rætt; það sigrar, enda þótt sumir óski því hægs andláts nú.

Þá sagði hæstv. fjmrh. — og það átti víst að vera skemtileg samlíking, — að frv. þetta væri svipað því og þegar neglan væri smíðuð fyrst í skip. Fyrst eru orðin til alls, á undan athöfnunum. Jeg er svo bjartsýn, að jeg trúi því, hvernig sem þessu máli lýkur nú, að það verði borið fram til sigurs áður en langt um líður. Og hver veit nema einmitt þeir, sem nú eru á móti þessu þjóðþrifamáli, sjái sjer einhverntíma slag á borði, og taki það upp að nýju.

Þá vil jeg biðja hv. þdm. að íhuga það, hve mikinn þroska þeir sýndu, ef þeir gætu litið fram hjá því, að það er minni hl. þings, er ber þetta málefni fram, og það mun sannast, að þökk og heiður þjóðarinnar munu þeir allir hljóta, er fylgja máli þessu fram til sigurs, hvort sem það eru jafnaðarmenn, Framsóknarmenn eða Íhaldsmenn.

Okkur Íhaldsmönnum hefir verið borið það á brýn, að við sjeum á móti því, sem liggi þó nær, virkjun Sogsins, til þess að fullnægja kröfum Reykjavíkur. Það mál er mjer alveg ókunnugt, og mun jeg því ekki ræða það. Þó hygg jeg, að þau rök, sem Íhaldsmenn hafa gegn virkjun Sogsins, muni fyllilega geta jafnast á við þær röksemdir, er frv. þetta hefir mætt hjer í hv. deild.

Þá finst hv. 4. landsk., að jeg hafi talað „fagurt“ um nauðsyn heimilanna á rafmagni, og hv. þm. ræður mjer til að tala um fyrir mínum eigin flokksmönnum. En nú vill svo vel til, að jeg þarf þess ekki, því að Íhaldsflokkurinn allur er þeirrar skoðunar, að raforkuveitur til almenningsþarfa sje eitt af stórmálunum, sem þarf að hrinda í framkvæmd.

Einhver hv. þdm. viðhafði þau orð, að við flm. töluðum fagurt, en hygðum flátt. Jeg ætla ekki að svara þeim ummælum; þau eru ekki þess verð, en mjer fanst óviðeigandi, að bornar væru fram slíkar getsakir í garð þeirra, er fylgja máli þessu af einlægum hug.