20.04.1929
Neðri deild: 50. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 646 í C-deild Alþingistíðinda. (2646)

42. mál, Fiskiveiðasjóður Íslands

2646Hjeðinn Valdimarsson:

Það mætti búast við af umtali því, sem verið hefir á undanförnum þingum um að hjálpa útgerðarmönnum kringum land, að eitthvað yrði gert, en jeg verð að segja það, að hjer sannast hið fornkveðna: Fjöllin tóku jóðsótt og fæddist hlægileg mús, því að jafnvel í samanburði við það frv., sem Íhaldsmenn hafa borið fram í þinginu, þá er þetta frv. eins og halakliptur hundur, það er kliptur af því allur síðari hlutinn, en bútar af því og minni háttar atriðin standa eftir, þó gerbreytt. Jeg er hissa á því, hvernig hv. flm. þessa frv. hafa getað sætt sig við þessa meðferð, og bendir það á, að þeim hafi ekki verið sjerstakt áhugamál að koma þessu frv. fram, því eins og málið kemur frá n., þá er það, svo jeg noti orð síðasta ræðumanns (SvÓ) í öðru sambandi, „til lítils þrifnaðar í landinu.“

Það eru tvær aðferðir, sem talað hefir verið um á síðustu þingum í þessu máli, að lána út á skip og báta, aðallega til að kaupa þá, og að lána rekstrarfje, eins og frv. hv. 4. landsk. (JBald), um veðlánasjóð fiskimanna, fer fram á, en bæði þau frv., sem jeg hefi nefnt, ganga lengra en þetta. Eins og hv. 4. þm. Reykv. (SÁÓ) hefir þegar bent á, þá eru í frv. því, sem nú er í hv. Ed., ætlast til þess, að höfuðstóll veðlánasjóðsins nemi 2 milj. kr., auk Fiskiveiðasjóðsins gamla til rekstrarfjárlána, og munar þó um þá upphæð. Hinsvegar er í frv. til 1. um Fiskiveiðasjóð auk Fiskiveiðasjóðsins gamla ætlast til 100 þús. kr. tillags í 5 ár. En það, sem meira er um vert, er, að Fiskiveiðasjóði er leyft að gefa út skuldabrjef fyrir ferföldu stofnfjenu, eða fyrir 4X1200 þús. kr. = 4 milj. 800 þús. kr. En eins og frv. er nú klipt og skorið, yrði stofnfjeð auk gamla Fiskiveiðasjóðsins aðeins 60 þús. kr. á ári í 10 ár og síðan 30 þús. kr. árlega, og 500 þús. kr. lán úr ríkissjóði, en engin skuldabrjefasala, og af þessu stofnfje fara 500 þús. krónurnar einar til rekstrarlána. Er því sama sem ekkert af því fje, sem sjóðnum er ætlað til afnota, handbært sem stendur, því að Fiskiveiðasjóður, sem er um 700 þús. kr., er nú nær allur bundinn í löngum lánum, svo að það verður tiltölulega lítill hluti, sem þessi kynslóð getur notað af honum. Þessar 60000 kr., sem sjóðurinn fær til skipakaupa á ári, eru eins og krækiber í ámu. Það, sem hjá Íhaldsmönnum, í frv. þeirra, hefði komið til gagns, var það fjármagn, sem fengist hefði með skuldabrjefasölu, og hefði fljótlega munað um það, ef það hefði náð að verða 4–5 milj. kr. Þótt það sje ekki mikið af öllu því fje, sem útvegurinn notar, þá er það þó nokkuð, í stað þess sem það, sem hjer er nefnt, er blátt áfram hlægilegt, þegar um það er að ræða, að mynda Fiskiveiðasjóð Íslands, sem á að vera banki fyrir bátaútveginn. Slíkur dvergbanki getur seint orðið að gagni. Það, sem hægt væri að lána út á báta til bátakaupa, sýnist ekki vera fyrst um sinn annað en þetta 60000 kr. framlag úr ríkissjóði, og þær 500000 kr., sem ætlaðar eru til rekstrar, en það verða allir að játa, að það mun ekki verða mikið fyrir þann aragrúa af bátum, sem eru kringum alt land, og mun það fjármagn aldrei geta leyst bátana undan því oki, sem það þarf að gera, að sækja sjer lán til kaupmanna til rekstrar. Jeg hefði talið æskilegasta lausn þessa máls, að því hefði verið vísað til stjórnarinnar á sama hátt og hv. 4. þm. Reykv. hefir bent á, í trausti þess, að hæstv. stjórn myndi undirbúa þetta mál þannig, að það verði ekki neitt „humbugs“-mál eins og það frv., sem hjer liggur fyrir. Slíkir sjónhverfingaleikir eiga ekki við á Alþingi.

Það getur verið vafasamt, hvort á að taka stórútgerðina með. Hv. 4. þm. Reykv. vildi halda því fram, að hún ætti að vera sjer. Jeg hefi ekki athugað það, en það gæti þó margt mælt með því, að hafa hvorttveggja í sameiginlegri peningastofnun, og þá virtist mjer, ef farin væri sú leið, að þá ætti að reyna að gera ýmislegt meira til þess, sem ekki er gert hjer í frv., hvað þá í brtt. hv. n., að styðja að því, að koma á hentugri eignarumráðum á bátaútveginum heldur en víða er á landinu. Það er reyndar svo sumstaðar, að mennirnir, sem eru á bátunum eiga þá sjálfir, og er æskilegt að það gæti orðið sem víðast, en aftur á móti ekki þannig, að það sje einn maður eða verslun, sem eigi flesta bátana, svo að mennirnir, sem eru á þeim, hafa ekki aðra hagsmunavon en að hirða laun sín. Hægt væri að hjálpa til slíkrar sameignar með því að láta slík samtök njóta lægri vaxta en þá menn, sem gera þetta eingöngu í fjárgróða skyni. Jeg verð að segja það, að í frv. því, sem hjer liggur fyrir, er gert ráð fyrir því, að það verði nokkuð lægri vaxtakjör hjá þessum sjóði, heldur en er á peningamarkaðinum yfirleitt, að jafnaði ekki nema 5½%. en hinsvegar sje jeg ekki vel ástæðuna til þess, að svo langt yrði farið undir almenn vaxtakjör, þegar enginn munur er á gerður, hvort lántakendur eru vel eða illa staddir. Það er engin ástæða til þess, ef menn eru ekki fjárhagslega illa staddir, að fara að nota fje ríkisins til þess að veita þeim lán undir venjulegum vöxtum. Aftur á móti gæti verið mikil ástæða til þess, ef þyrfti að styrkja fátæka menn til þess að koma fótunum undir atvinnu sína. En hjer er látið ganga jafnt yfir rjettláta og rangláta í því efni.

Þá vil jeg aðeins minnast á þá brtt., sem hjer er fram komin, að leggja þessi fjármál undir Búnaðarbankann. Jeg hugði, að það hefði komið fram við þær umr., sem verið höfðu hjer í deildinni áður, að yfirleitt væri hv. þm. þeirrar skoðunar, að Búnaðarbankinn ætti að vera fyrir landbúnaðinn, en nú virðist hv. sjútvn. vera komin á þá skoðun, að best muni fara á því, að rugla alveg saman reitunum. Það var till. í þessa átt á sínum tíma hjer í deildinni, en náði þá ekki fram að ganga, en ef þetta nær fram að ganga, þá er sem frsm., hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) og hv. n. haldi, að það sje eitthvað vissara fyrir sjávarútveginn að komast undir landbúnaðinn heldur en að vera út af fyrir sig. Það er engin afsökun, þó að svo kunni að vera í Þýskalandi, að lítilsháttar lánadeild fyrir fiskiveiðar sje undir landbúnaðarráðuneytinu, því að allir vita, að sjávarútvegur Þjóðverja er mjög lítilvægur, samanborið við aðra atvinnuvegi, og þar sem þessi atvinnugrein er lítil, er venjan sú, að láta hana heyra undir landbúnaðarráðuneytin. En hjer á Íslandi, þar sem sjávarútvegur er aðalatvinnugreinin, væri eðlilegast, að sjálfstæð skipun væri gerð um hennar mál eins og landbúnaðinn.

Jeg get ekki látið hjá líða, að benda hjer á síðasta málslið brtt. á þskj. 347: „Útlánsfjenu skal skift sem jafnast milli útgerðarhjeraða eftir útgerðamagni báta.“ Þótt þetta líti vel út á pappírnum, þá er þetta eitt nóg til þess að gera sem minst úr gagni því, sem af frv. mætti verða, vegna þess, að því víðar sem peningunum er dreift, þess minni von er um að nokkur maður geti haft gagn af úilánsstarfsemi þessa dvergbanka.

Jeg ætla svo ekki að fjölyrða mikið meira um þetta, en aðeins benda á eitt atriði, sem um hefir verið deilt hjer, það er um sjóveðrjett í bátunum. Það er vitanlegt, að ef þessi ákvæði, sem meiri hl. sjútvn. leggur til að verði samþykt, ná fram að ganga, þá leiðir af því, að sjóveðrjettur gengur á eftir venjulegum veðum í bátunum til skipakaupa eða rekstrarlána. En til hvers hafa sjóveð annars verið veitt? Til þess að tryggja greiðslur fyrir ýms algerlega nauðsynleg verk fyrir bátana, sem ekki má láta fyrirfarast að vinna. Björgunarlaun og hafnsögumannslaun ganga t. d. fyrir öðrum kröfum, því að það gerir að minsta kosti það að verkum, að þeir, sem leggja fram starf sitt og leggja oft líf sitt í hættu, fái laun sín greidd, en ef lán peningastofnana og fleira á að ganga fyrir, þá verður miklu óvissara um greiðslu fyrir þá, sem leggja í að bjarga skipshöfn og skipi. Jeg álít það afskaplega hættulegt fyrir bátana, ef venjuleg lán til þeirra eiga að ganga fyrir slíkum kröfum. (SvÓ: Bjarga menn þá vegna launanna? — JJós: Það er líka til nokkuð, sem heitir vátrygging). Menn bjarga stundum eingöngu vegna launanna, þar sem ekki er um mannslíf heldur eignir að ræða, en jafnvel þar sem ekki er bjargað vegna launanna, er enginn vafi á því, að slík ákvæði eru sett í lögin til þess að þeir, sem bjarga, fái greidd laun sín, enda hygg jeg þess tiltölulega fá dæmi, þegar bjargað er bátum, að ekki sje krafist endurgjalds fyrir, þegar einstakir menn eiga í hlut. Þá vil jeg svara því, sem hv. þm. Vestm. skaut inn í um vátryggingar, að það hefði verið æskilegt að fá umsögn vátryggingarfjelaganna um þetta atriði, en mjer er ekki kunnugt um, að hv. n. hafi beiðst umsagnar þeirra um það atriði, að kröfurjettur skipstjóra og skipshafnar fyrir kaupi sínu fjelli niður, sem einmitt mest hefir verið um deilt hjer. En ef tveir aðiljar eiga peninga hjá útgerðarmönnunum, og annar er peningastofnun, sem lánar fje í margvíslegu skyni, en hinn eru menn, sem leggja fram vinnuafl sitt og oft hætta lífi sínu við vinnuna, þá get jeg ekki annað skilið, en að þeir menn eigi að vera rjetthærri heldur en sá aðili, sem aðeins leggur fram peningana. Það er þessi skoðun, sem er undirstaða þess, að sá aðili hefir verið látinn svo rjetthár um sjóveð, eins og í 232. gr. sjólaganna getur. Hv. meiri hl. sjútvn. leyfir sjer að taka þessa tryggingu af sjómönnunum og lætur þá ekki fá neitt í staðinn. Jeg hygg þó, að þegar í rætt var um þetta mál á þinginu í fyrra, og ýmsir töldu þess mikla þörf að fá þessu breytt þannig, að hægt væri að fá fult veð í bátunum, hafi tiltölulega fáum dottið það í hug, að það mundi koma fram á þessu þingi till. um að svifta sjómenn sjóveðinu og láta ekkert í staðinn koma, og með sömu þingmönnum, er hafa verið að skerpa veðin fyrir verkkaupi í landinu. Það eru ekki nema tvö ár síðan samþyktur var viðauki við lög um greiðslu verkkaups í landinu, til þess að tryggja mönnum kaup sitt, og í fyrra, þegar kom fram frv. um að láta verkafólk á sjó og landi hafa veð í síldinni, þá voru þessir sömu hv. þm. því samþykkir. En hjer er svo gengið í þveröfuga átt, þar sem verið er að svifta menn rjetti, sem þeir hafa haft um langan aldur og hafa hjá öllum öðrum þjóðum. Maður skyldi þá halda, að þetta væri af þeirri ástæðu, að það sýndi sig, að sjómenn, sem væru á bátunum, fengju yfirleitt ávalt kaup sitt, svo að aldrei yrði að ganga að sjóveði í bátunum, og að það væri því óþarfi, enda virðist mjer helst að hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) líti svo á. Jeg veit ekki hvernig þetta er á Austurlandi. Það getur verið, að ástandið sje gott þar, sem fullkomin hlutaskifti eru, en hjer syðra er því ekki að heilsa, víðast hvar, og ekki við síldveiðarnar nyrðra. Jeg veit, að það hefir oft komið fyrir, bæði sunnanlands og norðan, að skipshafnirnar hafa orðið að ganga að sjóveðinu fyrir kaupgjaldinu, af því að þær hefðu ekki fengið kaup sitt greitt annars. Jeg vil spyrja hv. frsm. (SvÓ) og hv. meiri hl. n.: Á hvern hátt á þá að tryggja sjómönnum það, að þeir fái kaup sitt, ef á að láta sjóveðið svo langt aftur sem hægt er, og hægt er að lána út á hálft verð bátsins með veði á undan? Hv. frsm. meiri hl. vildi helst henda til þess, að hægt væri að tryggja sjómönnunum þetta með samningum, eða einhverskonar öðrum tryggingum, en þetta er náttúrlega sett í löggjöfina til þess að gera kaupgreiðsluna algerlega örugga, svo að hver maður út af fyrir sig þurfi ekki að vera að deila um þetta þegar hann ræður sig, og þannig á það líka að vera. Það er, eins og hv. 4. þm. Reykv. sagði, nægileg deiluefni á milli útgerðarmanna og þeirra, sem ráða sig hjá þeim, þótt ekki sje verið með löggjöfinni að fá þeim fleiri atriði til þess að deila um.

Jeg er viss um það, að ef þessi lög næðu fram að ganga, sem mjer sýnist eftir öllum sólarmerkjum að verða muni, þá myndi af þessu atriði verða mögnuð óánægja í landinu.

Jeg ætla svo ekki að tala meira um þetta að sinni, en vænti þess, að þetta mál nái ekki fram að ganga í því formi, sem það er nú. Jeg álít, að það sje engu síður nauðsynlegt fyrir þingið að koma á fót góðri lánsstofnun fyrir sjómenn, sjerstaklega fyrir smábátana, sem oft eiga erfitt með að ná sjer í lán, heldur en stórútgerðina, en jeg hygg, að það verði ekki gert á þennan hátt, sem nú var um rætt. Hinsvegar ber jeg það traust til hæstv. fors.- og atvmrh., að hann bæði muni það og efni, sem hann talaði hjer um fyrir skömmu, að undirbúa slíkt mál fyrir næsta þing, bankastofnun, sem fullnægi þörfum bátaútvegsins á svipaðan hátt eins og Búnaðarbankinn þörfum landbúnaðarins.