23.04.1929
Neðri deild: 52. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 657 í C-deild Alþingistíðinda. (2649)

42. mál, Fiskiveiðasjóður Íslands

Frsm. meiri hl. (Sveinn Ólafsson):

Jeg ætla ekki að fjölyrða mikið um þetta mál nú. En þó get jeg ekki komist hjá að svara hv. 2. þm. Reykv. nokkrum orðum. Mjer voru sem sje mikil vonbrigði að ræðu hans. Jeg hafði búist við, að hann legði eitthvað uppbyggilegt til þessa máls, en mjer virtist honum fara líkt og Steinvöru kerlingu, er hún talaði við Þangbrand, að hann reyndi að snúa öllu í villu, en engu til rjetts vegar. Hann lagði aðaláhersluna á það, að sjómönnum væri gerður sá bjarnargreiði með frv. þessu, að sjóveðrjetturinn væri feldur niður. En þetta er gersamlega rangt hjá hv. þm. Sjóveðrjettinum er aðeins vikið aftur fyrir veðrjett sjóðsins, þegar skipið stendur í skuld við Fiskiveiðasjóðinn, og þetta gildir aðeins um skip þau, sem sigla hjer með ströndum fram, en alls ekki um þau, sem sigla til útlanda. Að segja að sjóveðrjetturinn sje feldur úr lögum með þessu, nær því engri átt. Sömuleiðis er það fjarstæða ein að halda því fram, að þessi færsla veðrjettarins geti orðið til þess, að mönnum verði síður bjargað úr sjávarháska. Hverjir leita öðrum lífsbjargar úr sjávarháska í launa skyni? Mun nokkur það lítilmenni að deila um kaup fyrir að bjarga nauðstöddum bróður úr lífsbættu áður björg er veitt? Slíkar röksemdir sem þessar hjá hv. þm. sæta því hinni mestu furðu.

Þá taldi hv. þm„ að með þessu væri alið á sundurþykkjunni, sem væri á milli útgerðarmanna og sjómanna. Þessu er því til að svara, að jeg þekki ekki til neinnar sjerstakrar sundurþykkju milli þeirra manna, sem við bátaútveginn vinna og hlutum skifta. Er þetta því út í hött talað hjá hv. þm.

Að hjer sje að ræða um svo lítilfjörlegan styrk fyrir útgerðina, að ekki taki að sinna honum, finst mjer hin mesta fjarstæða, og því til sönnunar vil jeg benda á það, að eftir frv. og brtt. meiri hl. verður til útlána úr sjóðnum árlega um 120 þús. kr.: 60 þús. kr., sem ríkið leggur fram, innborgaðir vextir af lánum gamla sjóðsins og afborganir þeirra lána um 60 þús. kr. Er þetta talsverð aukning frá því sem verið hefir, þar sem aðeins hefir verið um að ræða 20–30 þúsundir til útlána árlega. Þegar nú þess er gætt, sem frv. gerir ráð fyrir, að ekki verður lánað nema helmingur kaupverðs, þá ætti þessi upphæð að nægja til þess að kaupa árlega 30 opna vjelbáta af vanalegri stærð og 12 stærri vjelbáta þiljaða, t. d. 10 rúmlesta stóra. Og ef reynslan yrði sæmileg af þessari fyrstu tilraun, ætti að mega bæta ofan á þann grundvöll, sem lagður verður með lögum þessum.

Jeg mun ekki lengja mál mitt að sinni meira en orðið er. Jeg vil geta þess, að meiri hl. nefndarinnar hefir komið sjer saman um að taka aftur brtt. á þskj. 317 til 3. umr. Henni verður ef til vill að einhverju breytt milli umr.

Meiri hl. leggur því til, að frv. verði samþ. til 3. umr. með brtt. þeim, sem eru á þskj. 248. Mun jeg svo eigi tefja tímann lengur, enda þótt ástæða hefði verið að tína til fleira úr ræðum andstæðinganna en jeg hefi gert.