11.05.1929
Efri deild: 66. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 704 í C-deild Alþingistíðinda. (2669)

42. mál, Fiskiveiðasjóður Íslands

Jón Baldvinsson:

Jeg vildi aðeins benda á það, áður en málið fer í n., að með þessu frv. er gengið inn á nýjar brautir í löggjöfinni. Rauði þráðurinn, sem gengið hefir í gegnum lög þau, er sett hafa verið um sjávarútveginn alment, hefir verið sá, að tryggja fólk það, er vinnur að sjávarútvegi. Í þessu frv. er vikið frá þeirri reglu, með því er rjettur sjómanna skertur, gerður minni en hann hefir verið hjer á landi hingað til og minni en hann er hjá nágrannaþjóðunum.

Mesta trygging sjómanna hefir verið sú, að þótt útgerðarmaðurinn hafi ekki getað staðið í skilum með umsamið kaup, þá hafa þeir átt aðgang að skipi því, er þeir voru skráðir á. Það er óhjákvæmilegt, ef þetta ákvæði verður niður felt, að geysileg óvissa ríki hjá öllum fjöldanum af þeim mönnum, er atvinnu stunda á hinum smærri skipum. Það hefir verið svo mikið um málaferli út af brigðum á slíkum kaupgreiðslum, að jeg þekki málaflutningsmann, sem á 1–2 árum hefir innheimt slíkar kröfur fyrir nær 200 þús. kr. Jeg get ímyndað mjer, að slíkar kröfur nemi um 100 þús. kr. vel flest ár. Ef þessi trygging er niður feld, þá er greinilegt, að þessir menn verða að vera án kaups yfir sumarmánuðina. En það kemur aftur niður á sveitarfjelögunum.

Um frv. að öðru leyti má segja það, að heldur er hjer úr litlu fje að spila til kaupa á skipum og bátum, og þeir munu verða fáir, sem komast að þeim vildarkjörum, að fá lán úr sjóðnum. Auðvitað lít jeg svo á, að rjett sje að láta hv. sjútvn. hafa málið með höndum, og sjá til, hvort hún getur ekki soðið eitthvað úr því, sem gagn er að.