11.05.1929
Efri deild: 66. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 709 í C-deild Alþingistíðinda. (2672)

42. mál, Fiskiveiðasjóður Íslands

Ingvar Pálmason:

Það er náttúrlega ekki ástæða til að ræða mikið um þetta mál við þessa umr., en það eru nokkur atriði í ræðu hv. 4. landsk., sem jeg get ekki látið ósvarað. Hann viðurkendi það, að það gæti verið rjett, að allir sjómenn væru upp á hlut, en þá ætti hann að vera mjer sammála um afnám sjóveðsins, því að það er aðalþröskuldurinn. Sjómenn munu frekar vilja ráða sig upp á kaup heldur en hlut, eins og sakir standa, sökum þessa sjóveðs, en allir hljóta að sjá, að miklu rjettlátara er að hafa þá upp á hlut heldur en fast kaup, enda geta þeir altaf haldið í rjett sinn með því að banna sölu á fiskinum, ef þeir óttast að þeir muni verða beittir brögðum. Hv. 4. landsk. gat þess, að það væri venja að veðsetja og fá lán út á óveiddan fisk, en það þekki jeg ekki. Jeg veit það, að við eystra verðum fegnir, ef við fáum lán út á fisk, sem þegar er veiddur, og mjer þykir það einkennilegt, ef svo er ekki hjer. Hvað því viðvíkur, að útgerðarmenn geti veðsett þann fisk, sem er trygging sjómanna fyrir kaupgreiðslum, þá varðar það við lög, því að þá er það eign annara, sem veðsett er. Þess vegna er þetta sagt út í bláinn, en hefir ekki við rök að styðjast. Hv. 4. landsk. hjelt því fram, að vond útkoma smábátaútvegsins væri því að kenna, að bátar og vjelar væru illa hirtar. Þarna hygg jeg að hv. þm. dæmi af lítilli þekkingu. Í það minsta er því ekki þannig farið þar, sem jeg þekki til, og á Austurlandi mun enginn útvegsmaður hafa farið á höfuðið sökum þess. Jeg get sagt hv. 4. landsk. það, að sjálfur á jeg vjelbát, sem nú er orðinn 15 ára gamall, og viðgerð á honum hefir kostað mig 800 kr., en mjer er sagt, að hann muni geta dugað önnur 15 ár. Þetta er þó engin undantekning, heldur er það svona yfirleitt á Austfjörðum. Það, sem hefir kollvarpað smábátaútveginum, er hið háa kaup, sem greitt er á togurunum, því að smábátaútvegurinn getur ekki staðið straum af því. Síðan þessu var breytt og farið var að ráða háseta upp á hlut, bera bátar sig sæmilega, þótt ekki fiskist nema 100–150 skp. yfir vertíðina. Að endingu vil jeg leggja sjerstaka áherslu á það, að ef smábátaútvegurinn á að geta þrifist, verður að ljetta af sjóveðinu.