11.05.1929
Efri deild: 66. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 711 í C-deild Alþingistíðinda. (2673)

42. mál, Fiskiveiðasjóður Íslands

Erlingur Friðjónsson:

Jeg skal ekki lengja mikið umr., en mig langaði til að segja nokkur orð um málið í sambandi við þær deilur, sem hjer hafa farið fram í deildinni.

Eins og kunnugt er, hafa raddir um að afnema sjóveð ekki komið fram fyr en nú á síðustu árum, en að sjómenn geri kröfur sínar í skip, er bein afleiðing af því, að ekki hefir verið hægt að greiða kaup það, sem þeim hefir borið með rjettu. Útvegsmenn hafa sagt máli sínu til stuðnings, að þessi sjóveðsrjettur væri mjög bagalegur fyrir þá, því að þeir gætu ekki fengið það lán til útgerðarinnar, sem þeir þyrftu nauðsynlega með, þar eð lánsstofnanir bæru því við, að kaup háseta gengi fyrir öllu. En ef sjóveði þessu væri af ljett, mistu sjómenn það tangarhald, sem þeir hafa á útvegsmönnum til að fá kaup sitt greitt, og allur rjettur væri af þeim tekinn.

Það er vitanlega hægt að færa rök fyrir því frá sjónarmiði útgerðarinnar, að það er ilt fyrir hana að liggja undir þessari sjóveðskvöð. En það gegnir alveg sama máli með lánsstofnanirnar. Það er líka ilt að þurfa að hlíta því, að þær taki veð sitt. Hjer er um að að ræða, að skipshöfn lánar vinnu sína gegn tryggingu sjóveðsins, og fær kaup sitt með því að taka það, þegar ekki er hægt að fá það greitt á annan hátt.

Það er hægt að leysa þetta mál frá hendi útgerðarinnar með því að ráða skipshafnirnar upp á hlut, en ekki kaup. Er það títt, að sjómenn vilja þetta heldur, ef hlutaskifti eru sanngjörn. En útgerðarmenn hafa ekki viljað koma þessu skipulagi á útgerðina, og af því leiðir, að sjóveðin hafa lent í höndum skipshafnanna, þegar útgerðin hefir ekki getað greitt sjómönnunum kaup sitt.

Mjer er ekki kunnugt um, að sjóveð í sjeu látin í smábátum undir 12 smálestum, enda eru flestir bátar hjer þetta 12–50 smálestir. En samkvæmt þessu frv. eru bátar frá 50 tonnum og þar fyrir neðan undanþegnir sjóveðinu. Hvers eiga þeir nú að gjalda, sem ráða sig á 12–50 tonna báta? Hví eru sjóveðin leyst af þessum 12–50 tonna bátum, en haldið í hinum stærri skipum, fyrst tilgangurinn er ekki að kippa sjóveðunum með öllu af skipunum? Það mega menn þó vita, að sjóveðin geta engu síður orðið hásetum að liði á skipum, sem eru undir 50 tonnum en yfir.

Mjer þykir það hróplegt ranglæti, að hjer skuli eiga að fara að ganga inn á þá braut, að taka af sjómönnunum þennan rjett, sem þeir hafa haft í ómuna tíð, og færa hann í hendur útgerðarmanna, án þess að nokkuð komi í staðinn. Það verður ekki sjeð, að nokkuð rjettlæti þetta, nema sú óreiða, sem verið hefir á útgerðinni á síðustu árum, þannig að margir útgerðarmenn hafa ekki getað staðið í skilum við háseta sína, svo að hásetarnir hafa orðið að ganga að sjóveðunum. Þegar þetta er orðið tilfinnanlegt fyrir lánsstofnanirnar, sem missa með þessu móti af veði sínu í hendur sjómönnunum, þá kemur fram krafan um að losa útgerðina við þessa kvöð.