18.05.1929
Efri deild: 76. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 713 í C-deild Alþingistíðinda. (2676)

42. mál, Fiskiveiðasjóður Íslands

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

Það er nú svo ástatt um þetta mál, að það hefir verið lítið rætt í sjútvn., þar eð það kom svo seint til hennar, og auk þess kom fram hjer í Ed. annað mál mjög skylt, sem var frv. til 1. um veðlánasjóð fiskimanna, og var það sent til fjhn.

Það kom í ljós í sjútvn., að hún gat ekki orðið sammála um þetta frv. um Fiskiveiðasjóð Íslands, því að minni hl. vildi leggja til, að frv. gengi fram óbreytt, en meiri hl. taldi á því ýmsa annmarka, og sá ekki ástæðu til að mæla með frv. eins og það liggur fyrir. Það er nokkuð vikið að því í nál. meirihl., og skal því aðeins bætt við, að jeg álít, að í frv. um veðlánasjóð fiskimanna felist nokkur þau atriði, sem ekki hafa verið tekin til greina sem skyldi í þessu frv., en sem jeg tel þó að þyrftu að komast inn í lagafyrirmæli um slíka stofnun, sem hjer er um að ræða. Auk þess tel jeg, að fje það, sem Fiskiveiðasjóðnum er ætlað til starfrækslu, sje svo lítið, að mjög lítil not geti orðið að því, ef hann á að fullnægja báðum þeim hlutverkum, sem frv. gerir ráð fyrir, sem sje að vera lánsstofnun til skipakaupa fyrir smærri útveginn og vera lánsstofnun til rekstrarlána fyrir sama útveg. Það er kunnugt öllum, sem til þekkja, að sjávarútvegurinn er töluvert fjárfrekari til rekstrar heldur en t. d. landbúnaður. En ef maður ber saman þetta frv. og lögin um búnaðarbankann, sem afgr. eru frá þessu þingi, er ólíku saman að jafna. Hjer er ekki nema lítið starfsfje, sem Fiskiveiðasjóður á að hafa, móts við það fje, sem Búnaðarbanki skal ráða yfir.

Þetta telur meiri hl. einn höfuðgalla á frv., auk þess sem hann telur, að þegar löggjöf er sett um þetta efni, þá sje nauðsynlegt, að inn í hana sjeu sett þau ákvæði, er geri þessar lánveitingar svo hagkvæmar sem verða má fyrir þá, sem nota eiga.

Meiri hl. n. hefir því hallast að því, að vísa nú báðum þessum frv. til stj. með tilmælum um, að hún undirbúi lög um fullkomna lánsstofnun fyrir smærri útveg landsmanna, og leggi fyrir næsta þing frv. um það efni.

Í sambandi við þessa till. meiri hl. vil jeg víkja því til hæstv. stj., að jeg og meiri hl. sjútvn. ætlast til þess, að við samningu slíks frv. sje líka tekið tillit til þess frv., sem hefir legið breytingalaust fyrir hv. Ed. á þessu þingi og var borið fram að mestu leyti samhlj. á þinginu 1928. Jeg hefi fulla ástæðu til að ætla, eftir þeim orðum, sem hæstv. atvmrh. (TrÞ) hefir látið falla hjer á Alþingi í vetur, að hann muni verða fús til þess að undirbúa slíka löggjöf. Í því trausti, að svo verði, hefir meiri hl. lagt til, að báðum þessum málum verði vísað til stj.