01.03.1929
Efri deild: 11. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 719 í C-deild Alþingistíðinda. (2682)

40. mál, veðlánasjóður fiskimanna

Halldór Steinsson:

Því verður ekki neitað, að þessar greinar sjávarútvegsins, minni mótorbátar og róðrarbátar, eiga erfitt uppdráttar, og að fylsta þörf er, ef hægt væri, að bæta kjör þeirra, til dæmis með lánsstofnun eins og hjer er farið fram á. Því verður heldur ekki neitað, að tilgangurinn með þessu frv. er góður, a. m. k. eftir því sem marka má á 1. gr., þar sem stendur:

„Tilgangur sjóðsins er að gera mönnum, sem fiskiveiðar stunda á vjelbátum og árabátum, sem arðsamastan afla sinn, með því að gera þeim mögulegt að verka hann sjálfir.“

Ef frv. alt í heild sinni væri bygt á þessum góða tilgangi, þá væri vel farið. En það er öðru nær en að svo sje. Mjer getur ekki betur skilist, en hjer komi fram í frv. í heild sinni mjög mikið skilningsleysi á þessum hlutum. Ef ekki skilningsleysi, þá að minsta kosti of mikið áhugaleysi og viljaleysi hv. flm. (JBald) gagnvart þessari grein sjávarútvegsins.

Þó að ekki sje venja við 1. umr. að fara út í sjerstakar greinar, þá verð jeg samt að drepa á 2–3 greinar, til þess að sýna hvað frv. er illa útbúið, svo að það alls ekki getur náð tilgangi sínum.

Þá er fyrst, að eftir 3. gr. frv. er ætlast til, að aðaldeild þessa veðlánasjóðs sje í Reykjavík, en svo sjeu settar á stofn deildir út um landið, en megi þó ekki vera fleiri í byrjun en 25. Það er nú ljóst, að 25 deildir fyrir jafn útbreiddan atvinnuveg sem smábátaútvegurinn er, geta ekki komið að notum nema tiltölulega mjög litlum hluta þeirra manna, sem þessa atvinnu stunda, eða stunda í framtíðinni.

Þá kem jeg að aðalgrein frv., 6. gr. Sú grein gerir frv. alveg óhæft og gerir 1. gr. að engu. Þar stendur:

„Lán veitist aðeins út á afla, sem ætlaður er til verkunar sem þurkaður saltfiskur til útflutnings.“

Jeg skil þessa grein svo, að það megi ekki lána úr þessum sjóði út á annað veð en afla. En slíkt er að mínu áliti alveg ótækt. Það getur staðið svo á, að sjómaður þurfi nauðsynlega lán til sinna lífsnauðsynja, en hafi ekki nægilegan afla fyrir hendi, en annað veð. Er þá nokkur meining í því, spyr jeg, að neita manninum um lán, ef hann getur boðið annað fullgilt veð? Það finst mjer ekki. Með öðrum orðum: greinin gerir það að verkum, að sjóðurinn, þótt stofnaður verði, kemur alls ekki að verulegum notum, ef ekki má lána út á nema verkaðan afla. Þá er ekki hægt að veita lán fyr en í lok vertíðar. En nú stendur einmitt svo á, að flestir þessara manna, sem um er að ræða, þurfa að fá lán í byrjun vertíðar, — þurfa að fá lán til þess yfir höfuð að geta lifað meðan á vertíð stendur. Efnahagur þeirra er að jafnaði ekki svo góður, að þeir þurfi ekki að vera upp á lán komnir, meðan vertíð stendur yfir. Slík lán eru það eina, sem getur bjargað þessum útvegi, til þess að sjómaðurinn geti staðist þann kostnað, sem hann þarf að hafa yfir vertíðina, bæði kaup á veiðarfærum og ýmsu, sem að útgerð lýtur, og eins sínar eigin lífsnauðsynjar.

En í sjálfu sjer er það ekkert þakkarvert, þótt sjómönnuni sje boðið lán út á verkaðan fisk. Það geta þeir fengið víðar enn í þessari lánsstofnun, sem hjer um ræðir. Og það er heldur ekki aðalatriðið, heldur hitt, að sjómenn geti fengið lán í byrjun vertíðar, til þess að geta eignast verkaðan fisk.

Það eru náttúrlega ýmsir fleiri smærri gallar á þessu frv., þótt þetta sje aðalgallinn, sem að minni meiningu gerir frv. ótækt. Það er t. d. það, að sje fiskur fluttur burt af staðnum og seldur, þá sje skuldin kræf og gengið verði að manninum um borgun. Jeg geti búist við, að í mörgum tilfellum mundi sjóðnum blæða fyrir þetta. Það er svo um allan þorra þessara manna, að þeir eru eignalitlir, og ef sjóðurinn hefir við ekkert annað að styðjast en þennan afla, þá er hætt við, að stundum kæmu skellir. Yfirleitt er afli ótryggasta veð, sem hægt er að fá í þessu tilfelli.

Hv. flm. var að segja, að fleiri frv. hefðu komið fram í þessa átt. E. t. v. á hann við Fiskiveiðasjóðinn í Nd. En því frv. er ætlað nokkuð annað verksvið. Og þó að það sje fram komið, er engu minni ástæða til að tryggja þessari grein sjávarútvegsins rekstrarlán.