01.03.1929
Efri deild: 11. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í C-deild Alþingistíðinda. (2686)

40. mál, veðlánasjóður fiskimanna

Halldór Steinsson:

Jeg vil vísa á bug þeim órökstuddu staðhæfingum hv. 4. landsk., að jeg telji sjómenn óráðvandari en fólk alment. (JBald: Þetta er rökrjett, eftir ummælum þm.). Nei, Þetta er útúrsnúningur og eitt dæmi af mörgum um óheiðarlega meðferð þessa hv. þm. á þingræðum.

Það, sem okkur ber á milli, mjer og hv. 4. landsk., er það, að hann vill veita lánin í lok vertíðar, en jeg í byrjun hennar. Það er þetta, sem hv. þm. getur með engu móti skilið. Ef lánin eru veitt fyrirfram, geta þau komið að verulegum notum fyrir allan þorra fátækra sjómanna, sem þurfa á lánum að halda, til þess að geta lifað. Hitt dugar þeim ekki, að fá lánin í lok vertíðar. Og það er þetta, sem er aðalgalli frv.