06.04.1929
Neðri deild: 38. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 732 í C-deild Alþingistíðinda. (2698)

1. mál, lánsfélög

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Jeg get að mestu látið nægja með að vísa til nál. á þskj. 216, því að þar er gerð ítarleg grein fyrir málinu og þeim brtt., sem nefndin hefir að gera við frv. Jeg ætla ekki að fara mörgum orðum um málið. Nefndin var öll sammála um, að hjer væri um merkilegt mál að ræða, og að nauðsyn bæri til að greiða fyrir bændum og láta þeim fje í tje, og greiða á þann hátt fyrir viðskiftum. Þetta er öllum ljóst, og því er ekki ástæða til að fara um það mörgum orðum. Hinsvegar leist nefndinni það dálítið óvarlegt, eins og frv. fer fram á, að heimila sveitabönkum að reka sparisjóðsstarfsemi víðsvegar um land. Nefndin vill ekki neita því, að bankarnir fái við það meira fjármagn, og að bændur kunni að fá við það meiri hjálp til framkvæmda, en efast hinsvegar um, að allrar varfærni verði gætt, ef svo á að verða, og fyrir þá sök vill hún þrengja nokkuð starfssvið bankanna, þannig að þeim sje ekki heimilt að taka á móti sparifje til að ávaxta eða lána út. Þetta er höfuðbreytingin, sem nefndin vill gera á frv., og þótt menn kunni að finna að því, að með þessu móti renni minna fje út um sveitir landsins heldur en eftir frv., mun þó vera hyggilegra að gæta allrar varúðar, enda má altaf, þegar reynsla er fengin, breyta ákvæðunum og heimila þetta síðar. Jeg ætla svo ekki að fara fleiri orðum um frv. alment, heldur víkja að einstökum brtt., sem nefndin flytur.

Um 1. brtt. þarf ekki að fjölyrða frekar, þar eð samskonar till. var feld við atkvgr. um lög Landbúnaðarbankans, og ef þessi yrði samþykt, myndu þau ákvæði reka sig hvort á annað.

En verði frv. um Landbúnaðarbankann breytt síðar, væri hægt að koma fram með brtt., er gengi í þessa átt. Þessi till. er því tekin aftur.

2. brtt. er aðeins orðabreyting, sem leiðir af breytingu nafnsins á frv., en b-liðurinn miðar að því, að sparisjóðsdeild Landbúnaðarbankans geti veitt beint lán til þeirra fjelaga, sem nefnd eru í greininni, án þess að hafa útibú eða aðra milliliði.

3. brtt. fer í þá átt, að e-liður falli niður, en hann er um það, að sveitabankar taki við innlögum með sparisjóðskjörum, og megi svo lána fjeð út aftur. Sje jeg ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um það,

Í 4. brtt., á þskj. 216, hefir fallið niður sú brtt., er nefndin vildi gera við 5. gr., en hana er aftur að finna á þskj. 276.

5. brtt. er við 7. gr. og gengur í þá átt, að greinin verði orðuð upp, en þar er ekki um verulega efnisbreytingu að ræða. Nefndin leit svo á, að betur færi á að orða hana þannig, og jeg sje ekki ástæðu til að rekja efni hennar frekara, en læt mjer nægja að vísa til hennar.

6. brtt. við 8. gr. er þess efnis, að 2. mgr. skuli orðuð nokkuð á annan veg en gert er í frv. Vill nefndin, að sú stofnun, sem veitir fjelaginu lán, skuli halda glöggan reikning yfir lán manna, og hvað hver lántakandi eigi að greiða í vexti. Er þetta til stórra þæginda fyrir lánsfjelagið, sem hefir viðskifti við þá stofnun, og enginn efi er á því, að brtt. er til bóta.

7. brtt. er við 11. gr., og samkvæmt henni skal sú grein falla niður. Þar eru ákvæði um sparisjóðsstarfsemi

sveitabanka, en um það hefi jeg áður talað í ræðu minni, og sje því ekki ástæðu til að ræða um það frekar.

8. brtt. er við 14. gr. Er þar gert ráð fyrir, að menn geti veðsett framleiðslutæki og jarðarafurðir, en nefndinni þykir helst til langt gengið, ef mönnum er heimilt að veðsetja verkfæri, búpening og jarðargróðann. Þess vegna hygg jeg, að ekki sje miklu slept, þó að þetta ákvæði verði látið falla niður, og ekki verði heimiluð veðsetning þessa, enda mun mönnum finnast það nokkuð hæpið, að hægt sje að veðsetja garðávexti og annað þesskonar. C-liðurinn er þess efnis, að síðasta mgr. 14. gr. falli niður, en hún gengur út á það, að sveitabankar skuli hafa lögtaksrjett fyrir öllum kröfum á hendur fjelagsmönnum sínum. Landbn. lítur svo á, að ekki sje hyggilegt að heimila bönkunum jafn auðvelda leið til innheimtu á útistandandi skuldum, og það má gera ráð fyrir, að þessar peningastofnanir eigi svo mikla fjármuni útistandandi, og innheimta þess fjár getur orðið mönnum til mikilla óþæginda umfram það, sem hún á að vera. Finst nefndinni rjett, að þessar stofnanir fari hina venjulegu leið með inneimtu fjár, enda eru það sárfá gjöld, sem má taka lögtaki, og öll eru þau heldur smá.

9. brtt. lýtur að því, að lögin skuli öðlast gildi þegar í stað.

10. brtt. er afleiðing af þeirri brtt., að fjelög þessi skuli kallast lánsfjelög, en ekki sveitabankar.

Þá er enn ein brtt. eftir, sem jeg vildi víkja nokkru nánar að. En það er um það ákv. 7. gr. frv., sem felt verður burt, ef 5. brtt. n. verður samþ. En það er 2. málsgr. 7. gr., sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. fors.: „Þegar sjerstaklega stendur á, svo sem þegar láni hefir verið varið til að kaupa dýr landbúnaðarverkfæri, er þó heimilt að framlengja lánið lengur, þó aldrei yfir 5 ár samtals.“ Frv. gerir ráð fyrir því, að hver fjelagsmaður verði skuldlaus einu sinni á ári, að undanteknu því, þegar um kaup á dýrum landbúnaðaráhöldum er að ræða. N. getur ekki felt sig við þetta. Hún telur best, að öll lánin samkv. þessu frv. sjeu greidd árlega, án undantekninga. Landbn. getur ekki fallist á, að rjett sje að blanda lánum til lengri tíma, eða alt að 5 árum, saman við þau lán, sem greiðast eiga upp árlega, því enda þótt hægt sje að halda þessu tvennu aðskildu í viðskiftum hvers fjelagsmanns, þá orsakar það skuld hjá lánsfjelaginu út á við um hver reikningslok. En því er n. mótfallin. Hún telur best, að bæði fjelagsmenn og fjelag geti verið skuldlaus um hver reikningslok.

Þá telur og n., að þetta geti orðið lántakendum sjálfum til óhagræðis. Ef þeir, sem búa við þröngan fjárhag, hafa tekið lán til verkfærakaupa, sem staðið getur í 5 ár, þá mundi það leiða af sjer það, að hin árlegu rekstrarlán yrðu af skornum skamti, vegna vandkvæða á því, að þeir geti lagt fram hæfilegt veð fyrir því rekstrarláni, sem þeir hafa þörf fyrir. Landbn. vill því nema þessa lánsheimild burt, og hafa einungis eina tegund lána bundin við þessi lög, sem sje rekstrarlánin.

Hins vegar telur landbn. það sjálfsagt, að afla beri peninga til að lána bændum til verkfærakaupa. Það er nú að vísu gert ráð fyrir því, að Búnaðarbankinn láni fje til allra þarfa bænda, ef gild trygging er fyrir hendi.

En þær kringumstæður geta verið fyrir höndum, að ekki væri vel sjeð fyrir því á þann hátt einan. Landbn. vill því gera fyrir þessari þörf með því að bera fram brtt. við frv. um bústofnslánadeild, um að hún veiti einnig lán til verkfærakaupa. Að vísu er ekki hægt að segja, að verkfærin sjeu beinlínis bústofnsauki. En þau eru það þó óbeinlínis, því góð verkfæri eiga máske ekki hvað minstan þátt í því, að skapa skilyrði fyrir aukinn bústofn. Landbn. álítur, að vel geti orðið sjeð fyrir þessari þörf á þennan hátt, en vill ekki blanda lánum til verkfærakaupa saman við rekstrarlánin. Landbn. hefir ákveðið, að koma fram með brtt. við frv. um búnaðarbanka, fyrir 3. umr., er fari í þessa átt.

Um brtt. hv. 1. þm. N.-M. á þskj. 241 geymi jeg mjer að ræða, þar til hv. tillögumaður hefir talað fyrir þeim. Mun jeg þá fyrir hönd landbn. gera aths. við þær.