06.04.1929
Neðri deild: 38. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 743 í C-deild Alþingistíðinda. (2701)

1. mál, lánsfélög

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Jeg get verið þakklátur hæstv. forsrh. fyrir undirtektir hans við brtt. n., því að mjer virtist hann geta fallist á þær í öllum aðalatriðum, og þar með á þær ástæður, sem n. færir fyrir þeim. Jeg get tekið undir þau ummæli hæstv. ráðh., að það væri ekki nema ánægjulegt, ef síðar yrði fjallað um þetta mál, að færa út starfsvið þessa fjelagsskapar og leggja honum meira fjármagn en n. nú gerir till. um. En þar sem þetta er á byrjunarstigi, áleit n. hyggilegast að fara hægt af stað. Með vaxandi þekkingu og reynslu kemur í ljós, hvernig þessu verður best fyrir komið, og það er aðalástæðan til þess, að n. hefir fœrt starfsemina meira saman en gert er í frv.

Nafnið á frv. á vel við eftir þeirri starfsemi, sem þessari stofnun er ætlað samkv. frv., en þegar því hefir verið breytt í það horf, sem n. leggur til, verður það nafn betra, sem n. gerir till. um, að tekið verði upp.

Viðvíkjandi þeirri takmörkun, sem felst í 14. gr., um veðsetningu, þá er það að segja, að jeg býst ekki við, að það komi að mikilli sök, þó að ekki megi veðsetja þessa hluti, sem þar eru taldir upp, nema ef vera kynni fyrir þá, sem eiga lítils úrkosta og hafa lítil fjárráð, sem og fyrir þá, sem standa í einhverjum stórræðum, t. d. þá mann, sem taka stórar lendur til garðræktar eða stór svæði til að afla heyja, sem þeir svo selja. Jeg hygg, að fyrst í stað verði svo lítið um þessa starfsemi, að ekki komi að sök, þó að hún sje ekki tekin með í frv. að þessu sinni.

Jeg ætla ekki að fara fleiri orðum um ræðu hæstv. forsrh., enda virðast skoðanir hans og n. svo líkar, að ekki gefst ástæða til þess.

Jeg ætla þá að víkja að brtt. hv. 1. þm. N.-M. (HStef). Eins og vænta mátti, hefir hann gert grein fyrir þeim og reynt að rökstyðja þær. Jeg skal taka það strax fram, að n. hefir ekki getað fallist á brtt. hans, en eins og hann tók sjálfur fram, eru þær svo bundnar innbyrðis, að ef ekki verður fallist á eina þeirra, þá koma hinar ekki til greina.

Jeg gerði grein fyrir því í fyrri ræðu minni, hvers vegna n. vill ekki blanda neinni annari starfsemi saman við rekstrarlánin, og því ekki heldur bústofnslánunum. Það er ekki af því, að n. geti ekki fallist á nauðsyn þessarar starfsemi, heldur af því, að hún telur nauðsynlegt, að þessu sje haldið sundurgreindu, enda geta menn snúið sjer til Landbúnaðarbankans með þessi erindi. Jeg get bætt því við, að hv. 1. þm. N.-M. gerir ráð fyrir því. að menn geti fengið rekstrarlán, hvort sem þeir eru í þessum fjelögum eða ekki. N. álítur, að þessi breyting, ef gerð verður, verði til að rýra gildi þessa máls. Með þessu móti yrði þeim gefinn kostur á lánum, sem eiga besta úrkosti af sjálfsdáðum, þeim, sem eru ekki fjelagslega sinnaðir o. s. frv., en hinsvegar gert þrengra fyrir þá, sem erfiðara eiga með að fá fje til þarfa sinna. N. álítur því, að þessi breyting verði til stórspillis á frv. Annars rekast þessar brtt. hv. 1. þm. N.-M., að því er jeg fæ best sjeð, allóþyrmilega á 45. gr. 1. um Landbúnaðarbankann. Þar segir svo, í 3. málsgrein: „Ekkert lán má veita gegn veði í búfje, öðru en kúm, nema eigandi fjárins sje fjelagi í fóðurbirgðafjelagi, sem bankastjórn tekur gilt. Getur og bankastjórn sett það skilyrði fyrir lánveitingu, að fjelagar, allir fyrir einn og einn fyrir alla, ábyrgist bústofnslánadeild það tjón, er hún kann að verða fyrir vegna fóðurskorts þess búfjár, er hún hefir að veði frá fjelagsmönnum.“ Mjer sýnist þessi ákvæði reka sig á það, ef mönnum utan fjelaganna er lánað fje í þessu skyni, og er jeg hræddur um, að svo mundi verða í reyndinni, að rekstrarlánafjelögin yrðu að bera ábyrgð á þessum lántökum að einhverju leyti. Og þótt með þessu móti yrði auðveldara fyrir bændur að afla sjer fjár til að auka bústofn sinn, virðist n. þeir agnúar á þessum till., að ekki sje rjett að samþ. þær.

Jeg hefi áður getið þess, hvers vegna n. vill ekki blanda sparisjóðsstarfseminni saman við rekstrarlánin. Jeg hygg, að þeim, sem á annað borð hafa hug á að spara, muni ekki verða skotaskuld úr að koma peningum sínum í banka eða sparisjóð til ávöxtunar, svo að það virðist með öllu óþarft að gera ráðstafanir í þessa átt. Annars er þetta ekkert atriði, sem máli skiftir.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um brtt. hv. 1. þm. N.-M., því að eins og hann tók sjálfur fram, eru þær svo bundnar innbyrðis, að ein fellur með annari. Hann drap á það, að hann teldi till. landbn ekki til bóta, nema ef vera kynni 4. og 5. brtt. Þessu gat jeg vel búist við, því að till. hans ganga í gagnstæða átt við till. n.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta, en vænti þess, að umr. fari nú að lúkast úr þessu.