06.04.1929
Neðri deild: 38. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 746 í C-deild Alþingistíðinda. (2702)

1. mál, lánsfélög

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það voru aðeins örfá orð í sambandi við brtt. 1. þm. N.-M. (HStef). Mjer finst það koma skýrt fram, hvað fyrir honum vakir. Honum er það ljóst, hversu mikið atriði það er, að gera bændum sem greiðastan aðgang að lánum til að auka bústofn sinn. Á það verður að leggja aðaláhersluna, samhliða því að auka umbætur á jörðunum. Þessari hugsun, sem virðist liggja á bak við brtt. hv. 1. þm. N.-M., er jeg sammála, því að það verður að stefna í þá átt, að hjálpa bændum sem mest á þessu sviði. Hinsvegar vil jeg benda á það, að hjer er um frumsmíð að ræða í 4. kafla frv., og því ekki hyggilegt að ganga lengra en þar er gert. Við eigum svo margt eftir að gera enn á þessu sviði. Jeg vona t. d., að frv. til. 1. um rannsóknir í þarfir atvinnuveganna nái samþ. þingsins. Þá eiga búfjártryggingalögin eftir að koma til framkvæmda og aukinn fjelagsskapur og ráðstafanir um fóðurtryggingar. Er svo margt eftir ógert í landbúnaðarmálunum enn sem komið er, að ekki verður ráðist í alt í einu, enda hefir þetta ekki fengið nægan undirbúning nje verið rannsakað til hlítar. Og jeg álít því, að það þurfi að endurskoða fyrirmælin um lán til þessa þegar á næsta eða næstu þingum. Fjórði kafli frv. er alger frumsmíð, og þótt jeg sje samþykkur þeirri hugsun, sem fyrir 1. þm. N.-M. vakir, álít jeg tæplega rjett að ganga inn á þessa braut, eins og sakir standa.