06.04.1929
Neðri deild: 38. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 747 í C-deild Alþingistíðinda. (2703)

1. mál, lánsfélög

Halldór Stefánsson:

Jeg býst ekki við, að mikið tjái að deila við hv. landbn. út af brtt. mínum, því að hún mun hafa svo mikil ítök í hv. d., þegar til atkvgr. kemur. En jeg verð að segja það, að mjer þóttu þær ástæður, sem hv. frsm. n. (JörB) færði fram gegn till. mínum, vera veigalitlar og ekki rjettar.

Hv. frsm. játaði það, að það gæti verið gagnlegt að styðja að því, að gera þessi lán greiðari, en þóttist hinsvegar ekki vilja blanda saman rekstrar- og bústofnslánunum. Þetta er á hreinasta misskilningi bygt. Lánin verða veitt algerlega sjer í lagi; rekstrarlánin eftir þeim reglum, sem þar um gilda, og bústofnslánin sömuleiðis eftir þeim reglum sem um þau gilda. Hjer er engu blandað saman, nema hvað það verður sami milliliðurinn, er veitir hvortveggja þessi lán, og jeg fæ ekki sjeð, að það sje nokkuð athugavert við það.

Hv. frsm. n. taldi, að það mundi rýra hið almenna gildi þessa frv., ef einstökum mönnum yrði veittur rjettur til lána, og færði það til, að þeir menn myndu nota sjer þetta og ganga ekki í fjelögin, er væru einstrengingslegir og ófjelagslyndir. Jeg vil nú leyfa mjer að spyrja: Myndu þessir menn láta kúgast til að ganga í fjelögin vegna þessara laga? Jeg held, að ekki í sje hægt að gera ráð fyrir því. Þeir í myndu standa utan við fjelögin eftir sem áður, en fara á mis við að njóta þessara lána og leita sjer annara úrræða.

Þá taldi hv. frsm. n., að till. mínar rækjust á 45. gr. 1. um Landbúnaðarbankann. Jeg gerði að vísu ráð fyrir, að svo kynni að vera, að athuga þyrfti till. mínar í sambandi við frv. um Landbúnaðarbankann, þó að jeg tæki ekki sjálfur eftir því, að þetta rækist á. En þetta, sem hv. frsm. færði til, er á misskilningi bygt, því að sú málsgrein, sem hann las upp, fjallar ekki um rekstrarlánafjelög, heldur fóðurbirgðafjelög, og það er vitanlegt, að sá er fengi rekstrarlán, getur verið í fóðurbirgðafjelagi, og meira að segja verið skyldur til þess.

Hv. frsm. n. vildi gera lítið úr þeim ástæðum, sem jeg færði fram fyrir því, að það gæti verið gott að eiga hægan aðgang að stofnunum, er ávöxtuðu fje, og færði hann það til, að mönnum yrði ekki skotaskuld úr því að koma fje sínu á vöxtu, ef þeir á annað borð hefðu hug á því. Þetta má vel vera, ef um mikið fjármagn er að ræða; en það sem fyrir mjer vakti, var það, að þeim mönnum, er lítið fje eiga og lítið fje áskotnast, gæti orðið það hvöt til sparnaðar, ef þeim er auðvelt um að ná til stofnana, er ávaxta fje. Þó að ekki sje um beina örðugleika að ræða nú, til að fá ávaxtað fje sitt, eru þeir þó svo miklir, að menn, þegar um lítið er að gera, láta það oftast vera, til að hliðra sjer hjá þeim umsvifum, að koma fje sínu ávöxtu og geta náð til þess aftur. Þetta á einkum við um smærri upphæðir. Hitt tel jeg vafasamt, að þeir menn, sem eiga fje svo að verulegu nemi, láti það liggja á vöxtum heima fyrir, þar sem öllum er vitanlegt um það.

Jeg hefi þá minst á höfuðmótbárur hv. frsm. n. gegn till. mínum, og læt þetta nægja.

Mjer þótti vænt um, að hæstv. forsrh. tók vel í till. mínar að efni til og taldi þá hugsun, sem liggur þeim til grundvallar, rjetta og þess verða, að hún kæmist til framkvæmda, þegar tímar liðu. Mjer þótti gott að heyra þetta, því að það gefur mjer vonir um, að þótt till. mínar nái ekki fram að ganga í þetta sinn, muni þær þó að meira eða minna leyti koma til framkvæmda síðar meir. Mjer er það ekkert höfuðatriði, hvort till. mínar ná fram að ganga nú eða síðar. En hinu held jeg föstu, að sú tilhögun, sem jeg sting upp á, gæti orðið að meira liði og svarað betur tilgangi málsins en frv. eins og það er. Enda get jeg ekki sjeð, hvaða ástæða er til að bústofnslánin þurfi að skifta beint við bankann sjálfan, en megi ekki skifta við þá milliliði, sem bankinn notar þó fyrir sig um rekstrarlán. Hinsvegar get jeg skilið, og virt hv. n. það til vorkunnar, þó að hún vilji fara varlega. Það vil jeg líka gera, eins og sjá má á því, að jeg mun styðja sumar till. hv. n., sem lúta að því að fara varlega, og bygðar eru á skynsamlegri hugsun. Og jeg get bætt því við, að öllum þeim till., sem jeg tel að verða megi til varúðar um rekstrarlán bænda vil jeg fylgja.

Jeg mun svo ekki fjölyrða frekar um málið, enda hefi jeg nú notað ræðurjett minn. Og jeg mun taka því með jafnaðargeði, þó að till. mínar nái ekki samþ. að þessu sinni, en mjer þótti vænt um að heyra frá hæstv. forsrh., að hann álitur till. mínar bygðar á rjettri hugsun, því að það gefur mjer þá von, að sú stefna er kemur fram í þeim sigri þegar stundir líða.