02.04.1929
Efri deild: 34. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í B-deild Alþingistíðinda. (272)

10. mál, útfutningsgjald af síld o.fl.

Jón Þorláksson:

Það getur verið eitthvað satt í því, að verðhlutföll á söltunarsíld og þeirri, sem seld var til bræðslu, hafi verið óvenjuleg síðastl. sumar. Þó hygg jeg, að það hafi ekki munað miklu frá því, sem venjulegt er, þó það hafi kunnað að vera eitthvað.

Hv. flm. brtt. kannast nú við, að þessi hækkun á útflutningsgjaldinu sje ekki fram borin til þess að afla ríkissjóði tekna, heldur liggi þar til aðrar ástæður. En jeg hefi enga þá ástæðu heyrt frá honum enn, því að naumast getur það verið af umhyggju hans fyrir þessum atvinnuvegi, að hann leggur til að skattleggja hann með nýjum álögum. Og sje hækkun þessi ekki gerð til þess að afla ríkissjóði tekna, þá skil jeg ekki, með hverju á að rjettlæta slíkan skattauka.

Hv. flm. sagði, að jeg liti björtum augum á fjárhag ríkissjóðs og mun með því hafa átt við, að jeg hefði orðið til þess að bera ýmislegt fram, sem miðaði í framkvæmdaáttina fyrir land og þjóð, en þyrfti styrktar ríkissjóðs. Það er rjett, að jeg lít björtum augum til fjárhags ríkissjóðs og vænti þaðan styrks til nytsamra framkvæmda. En að jeg þori að gera það, er með það fyrir augum, að atvinnuvegirnir fái að eflast og þróast á eðlilegan hátt og án þess að löggjöfin kyrki þá í fæðingunni með óhæfilegum álögum. Jeg álít tekjur ríkissjóðs nægilegar með þeim hæfilegu gjöldum, sem atvinnuvegirnir bera nú. Og jeg lít björtum augum á hverja þá tekjuvon, sem framundan er, ef aðeins er sýnt, að atvinnuvegirnir fái að þróast í friði. En jeg er á móti hverri þeirri tekjuvon ríkissjóði til handa, sem stofna mundi atvinnuvegunum í hættu með óhæfilegum tolli eða öðrum álögum, eins og farið er fram á með brtt. á þskj. 223.

Nú stendur svo á um bræðslusíldina, eða þær veiðar, að þær eru liður í þessum atvinnurekstri, sem hefir vantað. Mikið af skipum og fjöldi fólks, sem ekki finnur annað verkefni sumarmánuðina, og mundi sú atvinna rýrna til muna, ef gert er erfiðara fyrir að Veiða síld í bræðslu en verið hefir.

Nú er kunnugt, að það orkar mjög tvímælis, hvort holt muni að auka síldarsöltun, og er því jafnvel haldið fram, að aukin söltun mundi fella síldina í verði. Er þá auðsjeð, að sú atvinna, sem hafa mætti af síldveiðum, verður þjóðhagslega að litlum notum sumarmánuðina, ef það legðist niður að veiða í bræðslu, en sú veiði hefir verið tekin upp hin síðari árin og orðið til þess að fylla í eyðu, sem áður varð í atvinnu manna. Af þessum ástæðum sýnist því hjer um hagsmunaatriði fjölda manna að ræða, og því nauðsynlegt að hlaupa ekki slík gönuskeið sem þessi, að heimta, að verðminni aflinn beri sömu gjöld og sá aflinn, sem altaf er verðmeiri. Og til frekari árjettingar mætti benda á það, að Sömu skipin afla hvorratveggja þessara síldartegunda á þann hátt, að þau láta afla síðasta dagsins, eða það, sem nýtt er, til söltunar, en hitt í bræðslu, og því engin ósanngirni, þó að betri og nýi aflinn beri hærra útflutningsgjald en sá hluti aflans, sem fallið hefir í verði við að bíða.