17.05.1929
Efri deild: 73. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 760 í C-deild Alþingistíðinda. (2722)

1. mál, lánsfélög

Frsm. 3. minni hl. (Jón Jónsson):

Jeg verð að afsaka, að dregist hefir fyrir nefndinni að afgreiða þetta mál. Það var lagt fram 22. apríl, en einmitt um það leyti byrjuðu aðalþingannirnar, og jeg hefi talið mjer skylt síðan að ganga af kappi að störfum í fjvn.

Hins vegar get jeg ekki sjeð, að þessi dráttur komi svo mjög að sök, þar sem til er ætlast, að þessar stofnanir, lánsfjelögin, fái sitt aðallánsfje frá Búnaðarbankanum. Búnaðarbankinn tekur ekki til starfa fyr en á næsta ári, og því verða lánsfjelögin ekki stofnuð fyr, hvort sem er. Auk þess býst jeg ekki við, að þessi lánsfjelög rjúki upp víða um land þegar í stað, enda er öll framför best með gætni.

Jeg vil ekki fara mikið inn á málið sjálft, en vil þó taka það fram, að jeg tel vafasamt, að það sje hagnaður fyrir þá sveitabændur, sem í samvinnufjelögum eru, að taka peningalán, til að geta borgað út í hönd. Jeg myndi telja æskilegast, að ástæður bænda og afurðasala væri þannig, að þeir gætu þetta af eigin rammleik. En jeg tel vafasamt, að mikill hagur sje að því, að taka lánsfje til þess. Bændur í samvinnufjelögum, sem hafa mikil bankaviðskifti, hafa svo góða aðstöðu þar, að jeg tel vafasamt, að þeir fengju betri kjör með lánsfjelaga-fyrirkomulaginu. Hvort sparnað leiddi af því fyrirkomulagi, skal jeg ekki segja um, en fremur finst mjer það ólíklegt. Jeg held, að fyrir gæti komið, að þegar menn væru búnir að borga úttekt sína með lánsfjenu, að þeir freistuðust til að taka vörur að láni í viðbót, og væri þá síðari villan verri hinni fyrri. Jeg stend ekki einn uppi með þessa skoðun. Jeg hefi hjer fyrir framan mig umsögn Söfnunarsjóðsstjórans, síra Vilhjálms Briems, sem kunnur er fyrir gætni og glöggskygni í þessum efnum. Hann segir svo:

„Þá er að minnast á sparisjóðs eða rekstrarlánadeildina. Sú var tíðin, að jeg taldi rekstrarlán æskileg fyrir landbændur, en síðan hafa aðstæður breyst, svo að jeg lít svo á, að þeirra sje ekki þörf. Nú eru kaupfjelög komin víða um sveitir, og eiga þau mun hægara um vik að afla sjer rekstrarlána en einstaklingar. Þess utan er öflug heildsala fyrir kaupfjelögin komin á laggirnar, þar sem er Samband íslenskra samvinnufjelaga. Sambandið hefir góð bankasambönd, svo að þau kaupfjelög, sem við það skifta, eru vel sett með lán hjá því, eða fyrir þess milligöngu, á milli kauptíða. Jafnvel þó kaupfjelögin ekki vildu nota sjer aðstöðu og aðstoð Sambandsins, eru þau nú á tímum ekki í neinu hraki með að afla sjer rekstrarlána. Það hefir t. d. Sláturfjelag Suðurlands sýnt með því fyrirkomulagi á sínum lántökum, sem það hefir um margra ára skeið viðhaft í viðskiftum sínum við Landsbankann. Annars munu kaupfjelögin löngum hafa viðhaft svipað fyrirkomulag til lántöku. T. d. Kaupfjelag Skagfirðinga þegar fyrir aldamót, en það hafði þá ekki að neinum banka að hverfa, heldur varð að snúa sjer til L. Zöllner’s um lántökur. Hann annaðist þá kaup og sölu fyrir fjelagið. Vel má vera, að lánin hafi verið dýrari en þurft hefði, ef banki hefði verið í landinu, sem hefði getað veitt þau, en engu að síður voru viðskiftin svo góð, að jeg hefi aldrei haft betri verslun en þau ár, sem jeg var í því fjelagi.“

Þetta segir maður, sem er færari að dæma um þessa hluti heldur en jeg. En þó vil jeg ekki fyllilega taka undir það með honum, að slíkra stofnana sje alls ekki þörf. Jeg held að heppilegt geti verið að dreifa lánsfje frá Búnaðarbankanum til bráðabirgðaþarfa út um sveitir landsins. Við keppum að því í kaupfjelögunum, að allir sjeu skuldlausir um áramót, og slíkt er nauðsynlegt. Nú stendur oft svo á, að allar afurðir bænda eru ekki seldar um áramót, og er þá hentugt að geta átt kost á þessu lánsfje til að greiða skuldir sínar að fullu. Jeg get hugsað mjer fleiri tilfelli, þar sem slík lán kæmu að góðum notum, t. d. ef bændur hefðu heyjað vel og vildu því eigi lóga svo miklu sem venjulega. Þá væri þeim gott að geta fengið lán, til þess að þeim yrði kleift að geta aukið bústofn sinn. Líka gætu slík lán verið hentug við greiðslu kaupgjalds o. fl. Vera má líka, að slík lán geti verið hagkvæm til að hreppa betri verslunarkjör en ella, en þó hefi jeg litla trú á því þar sem kaupfjelög eru fyrir.

Samt sem áður efast jeg ekki um, að þar sem þroskuðustu mennirnir eru, geti slík lán komið að liði. En jeg vil leggja áherslu á, að gera löggjöf þessa sem best úr garði. Erlend fjelög, er ganga í þessa átt og sniðin eru eftir þýskri fyrirmynd og eru í samvinnuformi, hafa reynst mjög vel.

Mjer fanst frv. upphaflega vera vel undir búið, enda var höfundur þess manna færastur til að gera það vel úr garði, þar sem hann ber ágætt skyn á þessi mál og hefir lengi verið starfsmaður hjá samvinnufjelögum og bönkum. Jeg tel því, að það hafi verið viðurhlutamikið af þinginu að fara að breyta frv. fyr en reynslan hafði sýnt, hvaða gallar væru á því. Jeg tel þá breytingu t. d. til skemda, að lánsfjelögin megi ekki taka sparisjóðsfje til ávöxtunar. Jeg sje ekkert á móti því, að svo sje gert. Ef bændur fá traust á þessum stofnunum, þá er eðlilegast að þeir leggi sparipeninga sína í þær, enda er eðlilegast, að sparifjeð starfi þar sem eigandi þess er. Þetta fje ætti að fást með hagkvæmari kjörum en fjeð frá Búnaðarbankanum. Það er því rangt að draga afl úr sjóðnum með þessari breytingu.

Þá finst mjer sú breyting óheppileg, að breyta nafninu „sveitabanki“ í „lánsfjelag“. Það er lítilfjörlegra heiti og miðar fremur að því, að draga úr trausti þessara stofnana.

Þá hefir sú breyting verið gerð á frv. í Nd., að gert er ráð fyrir því, að Búnaðarbankinn veiti lánin beint, en áður var til ætlast, að hann veitti þau gegnum kaupfjelög og sparisjóði. Þessa breytingu tel jeg bæði til bóta og skemda. Að vísu er ávalt gott að fækka milliliðunum. En hinsvegar má gera ráð fyrir, að óhentugra sje fyrir Búnaðarbankann að skifta við mörg lánsfjelög úti um land, er hann þekkir ekki til, heldur en þektar stærri stofnanir. Þó get jeg fyrir mitt leyti fallist á að láta þetta ákvæði standa óbreytt.

Sú breyting hefir einnig verið gerð í Nd., að lánin megi alls ekki standa lengur en 1 ár. Jeg er á þeirri skoðun, að heppilegast sje, að lánin standi yfirleitt ekki lengur en þetta, svo að menn sofni ekki á þeim, en ef bændur verja lánsfjenu t. d. til að kaupa sjer dýr verkfæri, getur þeim orðið erfitt að lúka þeim á einu ári. Þegar svo stendur á, ætti að mega skifta greiðslu lánanna á nokkur ár, því að þó að Búnaðarbankinn veiti slík lán til lengri tíma, þá er erfitt fyrir þá, sem í fjarlægð búa, að sækja lánin þangað, og því betra að geta fengið þau í sveitabankanum.

Þá er refsingin við vanskilum alt of ströng að mínum dómi. Öll vanskil eiga að varða brottrekstri eftir breytingum Nd. Allir sjá, hve ósanngjarnt þetta ákvæði er, ef gert er ráð fyrir því t. d., að maður leggist veikur og geti því ekki goldið lán sitt á rjettum gjalddaga. Jeg vil að hjer gildi sömu ákvæði og í samvinnufjelögunum um það, að aðalfundur ráði brottrekstri manna.

Þá finst mjer það ákvæði miða að því, að draga úr sjálfstæði fjelaganna, að sú stofnun, sem veitir þeim lánið, eigi að hafa á hendi alla reikningsfærslu fyrir fjelagið. Jeg vil, að fjelögin sjeu bygð sem mest neðan frá, ráði sjálf forstöðumenn sína og hafi reikningshaldið á hendi sjálf. Mjer finst það ærið úrhendis, að Búnaðarbankinn annist vaxtareikning lánsfjelaga á Norður- og Austurlandi. Skil jeg ekki þær röksemdir, að hægara sje að fylgjast með hag fjelaganna fyrir menn á öðrum landshornum heldur en heima í hjeraði.

Þá sje jeg ekki ástæðu til að banna að lána út á framleiðslutæki og jarðarafurðir t. d. hey, eins og leyft var upphaflega frv. Bændur hafa ekki svo mikið til að veðsetja, að rjett sje að banna þetta.

Jeg tel það mjög óheppilegt, að hv. Nd. skuli hafa felt lögtaksrjett lánsjelaganna niður. Þetta verður til að gera allan málarekstur erfiðari og dýrari en ella.

Jeg hygg í fám orðum sagt, að ekki hafi verið rjett að breyta frv. mikið frá því, sem það var í upphafi, því að það var þá sæmilega undirbúið. Ef færa á frv. í sitt fyrra horf, verður afleiðingin að vísu sú, að málið nær ekki fram að ganga á þessu þingi, en þá yrði málið jafnframt svo vel undir búið, að hægt væri að stofna lánsfjelögin um leið og Búnaðarbankinn tekur til starfa.

Jeg sje ekki ástæðu til að fjölyrða meira um málið að sinni, en vil hleypa ð hv. frsm. 2. minni hl. (JBald) og flm. mikilla brtt., hv. 1. þm. G.-K., áður en jeg tala meira í málinu.