20.02.1929
Neðri deild: 3. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 789 í C-deild Alþingistíðinda. (2732)

20. mál, atvinna við siglingar

Pjetur Ottesen:

Jeg þarf ekki að svara hæstv. forsrh. Honum fer eins í þessu máli og í málinu á undan, að hann skýtur öllu frá sjer til þeirra, sem undirbjuggu frv.

En jeg þarf að svara hv. 3. þm. Reykv. (JÓl) nokkrum orðum. Hann vildi efast um, að jeg færi rjett með þann kostnaðarauka, sem útgerðinni væri gerður, ef þetta væri lögfest. Jeg benti á skýrt dæmi frá vetrarútgerðinni á Akranesi, og á meðan hann ekki vefengir það, legg jeg ekkert upp úr mótmælum hans.

Hv. 3. þm. Reykv. vill láta smáútgerðina bera óþarfa kostnað, til þess að þessir menn sjeu betur — eins og hann orðar það — undirbúnir að taka við stærri skipum. Það er eins og hæfileikar þessara manna komi ekki greinilega í ljós, nema þeir hafi gengið í gegnum þennan hreinsunareld áður. Jeg hjelt þó, að hv. 3. þm. Reykv. ætti að vera það ljóst, að hæfileikar manns til sjómensku koma jafnt í ljós, hvort sem hann uppfyllir skilyrðin um siglingatímann sem háseti eða stýrimaður. Það má ekki gleyma því, að þó sú þekking, sem stýrimannaprófið á að vera trygging fyrir, sje að sjálfsögðu nauðsynleg þeim, sem á að stýra skipi, þá er það og höfuðatriði fyrir útgerðina, að hafa góða fiskimenn, og þeir, sem það reynast, komast auðveldlega áfram, annað hvort af sjálfsdáðum eða fyrir atbeina útgerðarinnar.

Hv. 3. þm. Reykv. þótti þetta of miklum erfiðleikum bundið, eins og nú er, en eins og jeg benti á áðan, er með öllu hættulaust að fella umrætt skilyrði gildandi laga alveg niður.