20.02.1929
Neðri deild: 3. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 791 í C-deild Alþingistíðinda. (2734)

20. mál, atvinna við siglingar

Pjetur Ottesen:

Jeg býst við því, að ræða hv. 2. þm. Árn. (MT) sje nokkurskonar áframhald af þingsetningarræðu hans um daginn. Hann er að áminna mig fyrir óþarfa málalengingar. En jeg vil benda hv. þm. á þann aðstöðumun, sem hjer er með okkur. Hann er í sjútvn., sem fær mál þetta til meðferðar, en jeg ekki. Þar getur hann því látið ljós sitt skína í þessu máli og öðrum, sem það snerta.

Hv. þm. heldur því fram, að eftirtekt sjómanna sje að fara aftur. Jeg skal ekkert um það dæma. Það getur verið rjett, miðað við þá staðhætti, sem hann þekkir. En jeg veit, að það er í mótsögn við þá reynslu, sem fengist hefir, þar sem jeg þekki til. Þetta er líka eðlilegt. Eftirtekt háseta verður að vera vakandi, engu síður en formanns. Á Akranesi verður að sækja fiskinn svo langt á vetrum, að róðurinn tekur næstum yfir sólarhring. Á hverjum bát eru þetta 4–5 menn, og verða þeir því að skiftast á um að vaka. Það kemur því engu siður í hlut hásetans en skipstjórans að vera á verði um það, að haldið sje rjettri stefnu, enda er ráðningu manna á bátana hagað þannig, að ávalt sjeu á hverjum bát nægilega margir menn, sem fengið hafa fulla leikni í að stýra eftir áttavita og halda bát í rjettu horfi. Þetta, sem hv. 2. þm. Árn. var að segja, á því ekki við fiskimenn við Faxaflóa, og ætla jeg, að svipað sje ástatt um þetta, þar sem sjósókn er svipuð og þar. Og þó að lærdómurinn sje nauðsynlegur, er hann hvergi nærri einhlítur, enda eru þess mörg dæmi, að hásetar hafa orðið að taka við stjórninni, er formanninn brast, og farnast vel.