20.02.1929
Neðri deild: 3. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 793 í C-deild Alþingistíðinda. (2736)

20. mál, atvinna við siglingar

Jóhann Jósefsson:

Út af því, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði, vil jeg taka það fram sem málsvari Vestmannaeyinga, að jeg sat fund í haust, þar sem forseti Fiskifjelagsins var að ræða um þessi mál við almenning austur þar. Jeg heyrði hann ekki bera þetta atriði undir álit þeirra, sem þar voru við staddir. Má þó vel vera, að álits manna hafi verið leitað um það annarsstaðar, en í Vestmannaeyjum var það áreiðanlega ekki gert.

Hvað frv. þetta snertir, þá er með því verið að ýta inn í löggjöfina ákvæðum, sem snerta stórútgerðina, en eiga alls ekki við smábátaútveginn. Og hvað undanþáguna snertir, þá held jeg, að hún hafi ekki valdið neinum vandræðum til þessa. En eigi að fara að skylda menn til þess að hafa stýrimann, auk formanns, á 12 tonna bátum, þá hlýtur það óhjákvæmilega að hafa allmikinn aukinn kostnað í för með sjer fyrir eigendur bátanna, og jeg fyrir mitt leyti tel það óþarfa, því að reynslan er sú, eins og hv. þm. Borgf. benti á, að það eru eins oft duglegir hásetar sem bjarga ástandinu, þegar mikið bjátar á, eins og margir yfirmennirnir.

Hv. 2. þm. Árn. sagði, að það gleddi sig að sjá þetta frv., því að það gæti beinlínis verið óttalegt, þegar formanna á bátum misti við, að enginn væri til þess að taka við stjórn. Hvað snertir 12 tonna báta, þá held jeg, að engin ástæða sje til þess að óttast slíkt, að minsta kosti veit jeg engin dæmi þess, að skipshöfn á slíkum bátum sje svo illa valin, að ekki sje altaf einhver hásetanna fær um að taka við stjórn. Öryggi þeirra er því, að mínum dómi, ekkert aukið, þó að fyrirskipað verði að hafa stýrimenn á þeim. En smábátaútveginum yrði óneitanlega töluvert íþyngt með slíkri fyrirskipun.