21.03.1929
Neðri deild: 28. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 796 í C-deild Alþingistíðinda. (2741)

31. mál, sjómannalög

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg er sammála hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) um, að það sje rjett að njóta aðstoðar góðs lögfræðings við samning slíks frv. sem þessa. Það hefir verið fenginn til þessa verks sá maður, sem menn hyggja að hafi mest til brunns að bera á þessu sviði, en hitt er jeg ekki saminála hv. þm. um, að nægilegt sje að leita lögfræðilegrar aðstoðar, og að það hafi ekki verið sjálfsagt að fara þá leið, sem stjórnin fór, að snúa sjer til þeirra manna, sem höfðu sjerþekkingu á starfi þeirra, sem lögin eiga að gilda um. Það var rjett hjá stjórninni að snúa sjer til fulltrúa þeirrar stjettar, og fá þeim svo góða aðstoð sem hægt var. Jeg held því, að aðfinslur um undirbúning þessa máls, sjeu ekki á rökum bygðar, og hefði verið rjettara hjá hv. þm., ef hann hefði haft sjerstakar skoðanir um það, hvernig málið átti að undirbúa, að taka það fram, þegar þessi ályktun var samþykt í fyrra.

En um það, hvort þetta mál verði leitt til lykta á þessu þingi, skal jeg ekki segja. Jeg játa það, að þótt jeg beri þetta frv. fram, þá hefi jeg enga sjerþekkingu á því, og get því ekki um það dæmt, hvort tiltækilegt sje að koma þessu máli fram nú.

Jeg skal svo ekki deila frekar um þetta við hv. 2. þm. G.-K., en vil aðeins geta þess, þar sem hv. þm. benti á, að þetta frv. kæmi seint fram, að þar sem þingið hafði falið stjórninni að undirbúa málið, þótti rjettara að það væri látið koma fram sem stjfrv. Jeg skal ennfremur geta þess, að þetta frv. var sett í póst, til þess að verða sent utan 25. febr., til að leggjast fyrir hans hátign konunginn, en það eru ekki nema eitthvað tveir dagar síðan tilkynning kom um, að búið væri að leggja það fyrir konunginn og að leggja mætti það fram sem stjfrv.

Hv. þm. sagði, að þetta frv. hefði helst ekki átt að leggja fram nú, en jeg býst við, að það hefði kannske heyrst eitthvað annað, ef frv. hefði ekki verið lagt fram, því að Nd. skoraði á landstjórnina í fyrra að leggja það fyrir næsta þing. Jeg lít svo á, að úr því að möguleikar voru á því, væri það skylda stjórnarinnar að leggja það fram, og láta hv. þm. fá tækifæri til að kynnast því, hvort sem það verður afgreitt á þessu þingi eða ekki.