21.03.1929
Neðri deild: 28. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 797 í C-deild Alþingistíðinda. (2742)

31. mál, sjómannalög

Ólafur Thors:

Jeg er hæstv. forsrh. sammála um það, að það var nokkur ástæða til að tryggja það, að sjerfróðir menn yrðu til aðstoðar þeim lögfræðingum, sem ríkisstjórnin fengi til að vinna þetta verk. En þá sjerþekkingu mátti tryggja sjer ríkissjóði að kostnaðarlausu. Hæstv. forsætisráðh. viðurkennir, og leggur áherslu á, að sjerþekking hafi verið nauðsynleg. Hvers vegna gaf hæstv. ráðh. þá ekki skipstjórafjelaginu „Öldunni“ og fjelagi útgerðarmanna kost á því, að eiga mann í þessari nefnd?

Þetta mál er aðiljum svo mikið áhuga- og hagsmunamál, að það var þeim ekki ofætlun að standa straum af þeim kostnaði, sem þurfti til að tryggja sjerfræðilega aðstoð. Jeg veit, að skipstjórafjelagið og útgerðarmannafjelagið hefðu með ánægju orðið við þeirri beiðni, að leggja til mann í n., og jeg efa ekki, að Sjómannafjelag Reykjavíkur hefði gert hið sama, og jeg tel heldur ekki, að forseta Fiskifjelagsins hefði verið ofþyngt, þótt hann hefði tekið þátt í starfi þessarar n., án sjerstakra launa. Þá yrði kostnaðurinn, sem ríkissjóður ætti að standast, sá einn, að greiða fyrir lögfræðislega aðstoð.

Jeg hefi ekki átalið, að Ólafi prófessor Lárussyni var falið að vinna þetta verk, þótt nokkur kostnaður verði auðvitað af því. En þar sem hæstv. ráðh. var að undrast yfir því, að jeg skyldi ekki bera fram áskorun til hæstv. stj. um ákveðna skipun væntanlegrar n. á síðasta þingi, þegar þál. var samþykt, þá voru þær orsakir til þess, að jeg var alveg grunlaus í þessu efni. Jeg hafði talið sjálfsagt, ef sjerfræðingar væru fengnir til aðstoðar, að þá ættu allir aðiljar þar fulltrúa, ríkissjóði að kostnaðarlausu.

Hæstv. ráðh. taldi þær ástæður til þess, hversu seint þetta frv. væri lagt fyrir þingið, að það hefði verið sent til konungs fyrir fjórum vikum síðan, og væri fyrst komið aftur fyrir fáum dögum. Jeg efa ekki, að hæstv. ráðh. skýri þar rjett frá, en jeg hefði haldið, að þó að svo hefði verið, þá væri samt greiðfær leið fyrir hæstv. ráðh. til að gefa hv. þd. kost á að kynna sjer frv. Ráðherrann gat vel látið þm. fá þennan lagabálk, en jafnframt fyrirskipað þagnarskyldu. Veit jeg, að þetta hefir verið gert með önnur mál, t. d. með frv. um landbúnaðarbankana báða. Þau munu að vísu ekki hafa verið send öllum þm., en nokkrir þeirra hafa fengið að sjá þau. Auk þess hygg jeg og, að flestir kaupfjelagsstjórar þeirra kaupfjelaga, sem eru í S.Í.S. muni hafa fengið að fjalla um það mál, áður en það kom fyrir konung.

Jeg hygg ekki, að hæstv. atvmrh. hefði orðið fyrir neinum ávítum, þó hann hefði ekki lagt þetta frv. fram á þessu þingi. Hæstv. ráðherra veit vel, að hann hefir ekki ávalt orðið við áskorunum, er beint hefir verið til hans um að leggja fram ýms mál. Má þar til nefna till. til þál., sem samþykt var hjer í þessari deild í fyrra, þess efnis, að hæstv. stjórn legði fyrir þetta þing frv. til laga um ellitryggingar. Hæstv. ráðh. hefir nú að vísu gefið skýringu á því, hvers vegna hann hafi ekki gert það, sem sje vegna þess, að málið var ekki nægilega undirbúið. En það sýnir þó, að hann lítur svo á, að honum sje ekki skylt að leggja mál fyrir Alþingi, sem að hans áliti eru ekki nægilega undirbúin, enda þótt sjerstaklega hafi verið á hann skorað.