21.03.1929
Neðri deild: 28. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 800 í C-deild Alþingistíðinda. (2744)

31. mál, sjómannalög

Sigurjón Ólafsson:

Jeg skal nú ekki fara inn á efni þessa máls, heldur aðeins gera að umtalsefni þau ummæli, er hv. 2. þm. G.-K. hafði um mig. Hann sagði, að við nefndarmennirnir tveir, forseti Fiskifjelagsins og jeg, hefðum verið að gefast upp við þetta starf, og því orðið að fá lögfræðing okkur til aðstoðar. Jeg veit nú ekki hvaðan hann hefir þetta, en vilji hann fá góðar og áreiðanlegar upplýsingar um þetta, þá er best og beinast fyrir hann að leita til prófessors Ólafs Lárussonar, sem getur frætt hann um það rjetta í þessu máli.

Svo vil jeg benda hv. þdm. lítilsháttar á það, hvernig meðferð þessara mála hefir verið hagað hjá nágrannaþjóðunum, því jeg býst ef til vill við, að þeim sje það ekki fulljóst. A. m. k. veitti hv. 2. þm. G.-K. ekki af því, að fá fræðslu í þeim efnum. Var því svo hagað, að í nefnd voru skipaðir fulltrúi sjómanna og fulltrúi útgerðarmanna, og loks lögfræðingur af hálfu ríkisins. Jeg verð því að líta svo á, að því hafi verið hagað eins hjer, því Kristján Bergsson hlýtur að teljast fullgildur fulltrúi útgerðarmanna samkv. stöðu sinni sem forseti Fiskifjelagsins, sem er fjelag útgerðarmanna en ekki sjómanna.

Viðvíkjandi því, að þetta frv. geti ekki gengið í gegn á einu þingi, þá er því til að svara, að á öllum Norðurlöndum hafa þessi mál verið afgreidd á einu þingi. Þingin í þeim löndum hafa, eins og vitanlega er rjett, bygt aðallega á áliti þeirrar nefndar, er undirbúið hefir málið í hverju landi, og gert mjög smávægilegar breytingar á frv. þeim, sem nefndirnar lögðu fyrir þingin. Við, er störfuðum að undirbúningi þessa frv., höfum að mestu leyti þrætt þá löggjöf í aðalatriðum, er samþykt hefir verið í nágrannalöndunum, og ætti því að vera óhætt að hyggja á því, er við höfum gert, enda fór þingsályktunartillagan fram á það, sem samþykt var hjer í deildinni í fyrra. En hitt kemur mjer ekki á óvart, þó hv. 2. þm. G.-K. hafi sitthvað að athuga við þá löggjöf.

Þegar siglingalögin frá 1914 voru samþykt, hafði engin nefnd um þau fjallað, sem skipuð væri fulltrúum atvinnuveganna, heldur var einum lögfræðingi falið að semja frv., ef jeg man rjett, og fór það síðan í gegn á einu þingi. Var það Jón próf. Kristjánsson, er samdi það frv.

Annars eru, eins og tekið er fram í greinargerð frv., lög Norðurlanda í þessum efnum mjög svipuð, og einn merkasti þátturinn í samvinnu Norðurlanda um löggjöf. Nú voru Skandinavísku siglingalögin endurskoðuð fyrir nokkrum árum. Var það gert í sameiningu af Dönum, Finnum, Svíum og Norðmönnum, og var nefnd skipuð af hálfu hvers lands fyrir sig til þess. Íslandi mun hafa verið boðið að taka þátt í þessari endurskoðun, en því mun ekki hafa verið sint. Hefir því ávalt setið við sama hjá okkur, og við því dregist aftur úr. Er slíkt slæmt, því að best er, að sem svipaðastar reglur gildi í þeim löndum, sem jafn náið samband er milli eins og milli okkar og Norðurlandaþjóðanna. Annars er sú stefna mjög hávær, og þegar farið að vinna að því, að sjómanna- og siglingalöggjöf verði alþjóðleg.

Hvað snertir vinnubrögð okkar nefndarmanna, þá getur frv. sjálft sagt til um það. En víst er um það, að æskilegri mann en prófessor Ólaf var ekki hægt að finna, og var okkur það mikil ánægja, að fá samþykki stjórnarinnar til þess að hann starfaði með okkur.