21.03.1929
Neðri deild: 28. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 802 í C-deild Alþingistíðinda. (2745)

31. mál, sjómannalög

Ólafur Thors:

Hæstv. fors.- og atvmrh. sagði, að forseti Fiskifjelagsins hefði verið fullgildur aðili útgerðarmanna í þessu máli. En ef svo var, hví var hann þá ekki líka fullgildur aðili sjómanna? Annars hafði hann ekkert umboð frá útgerðarmönnum, og jeg fæ ekki sjeð, að það hafi við neitt að styðjast, að líta á hann sem sjálfsagðan umboðsmann útgerðarmanna. Jeg hlýt því að mótmæla þessari skoðun hæstv. ráðh.

Þá var hæstv. ráðh. að spauga með það, að jeg hefði bæði sagt, að þetta frv. hefði komið of snemma fram og of seint, og yrði hann því að álykta, að hann hefði gert alveg rjett í því að fara hinn gullna Framsóknar-meðalveg. En þó þetta líti nokkuð einkennilega út hjá mjer, þá er það þó rjett. Frv. kom of seint til þess, að það yrði útkljáð á þessu þingi, en óþarflega snemma til þess að takast til meðferðar á næsta þingi. Til þess hefði verið nóg að útbýta frv. meðal þm. rjett í þinglokin. En með því að koma nú fram með það, verður það aðeins til þess að tefja tíma þingsins.

Jeg vil ekki fara að rökræða þetta mál neitt við hv. 4. þm. Reykv. Jeg var ekkert að finna að vinnubrögðum hans. Hitt veit jeg, að hann er alls ekki maður til þess að vera í slíkri nefnd (SÁÓ: Þm. veit ekkert um það), og jeg geri honum enga skömm til, þó jeg segi, að hann hafi ekki þekkingu til þess. Aldrei sagði jeg heldur, að próf. Ólafur Lárusson væri ekki hæfur til þess að starfa í slíkri nefnd. Hann er einmitt gott sýnishorn þess, hvernig menn á að velja í svona nefndir, en hv. 4. þm. Reykv. er ágætt sýnishorn þess, hvernig menn eiga ekki að vera þar. (SÁÓ: Þetta er bara oflof). Er það lof um mann að segja, að hann sje ólíkur Ólafi próf. Lárussyni?

Þá sagði hv. 4. þm. Reykv. frá því, að það tíðkaðist erlendis við skipun slíkra nefnda og hjer um ræðir, að í þær væru skipaðir hæfir lögfræðingar, er svo nytu aðstoðar þeirra manna, er sjerfróðir væru, eftir því er henta þætti, en einmitt þessu hefi jeg haldið fram.

Ennfremur tók hann undir það með hæstv. forsrh., að forseti Fiskifjelagsins gæti ekki verið fulltrúi sjómanna. En það geta þeir karpað um, forseti Fiskifjelagsins og hv. 4. þm. Reykv., hvort svo sje eða ekki.

Þá taldi hv. 4. þm. Reykv. sjálfsagt, að þetta frv. yrði strax samþykt, vegna þess að aðrar þjóðir hefðu samþykt athugasemdalítið frv. um líkt efni frá samskonar nefndum. Jeg efast nú ekkert um það. En hitt efast jeg heldur ekki um, að þær nefndir hafa verið betur skipaðar en sú, er hjer hefir starfað. Jeg mun því ekki loka augunum og segja já og amen við þessu frv. Því enda þótt nefndin hafi að mestu sniðið frv. eftir og fylgt ágætri löggjöf nágrannaþjóðanna, þá er það engin sönnun fyrir ágæti þess. Að vísu efa jeg ekki, að þýðingin sje góð hjá hv. nefnd, en það er þá heldur ekki þakkandi, því þetta er ugglaust einhver sú dýrasta þýðing, er hjer þekkist. En til þess þó að geta dæmt fyllilega um ágæti þýðingarinnar, verður maður líka að hafa frumtextann, en jeg býst við því, að þeir sjeu fáir, hv. þdm., er hafa kynt sjer hann. En kjarni málsins er sá, að reynslan hefir sýnt, að það er varhugavert að miða löggjöf vora um of við löggjöf annara þjóða, sökum þess að staðhættir eru hjer að mörgu leyti alt aðrir. Það er því engin sönnun fyrir ágæti þessa frv., þó að það sje ágæt þýðing á löggjöf, sem er hagkvæm fyrir aðrar þjóðir.