21.03.1929
Neðri deild: 28. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 805 í C-deild Alþingistíðinda. (2746)

31. mál, sjómannalög

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg verð að segja það, að jeg er hissa á ummælum hv. 2. þm. G.-K. viðvíkjandi undirbúningi þessa frv. Því ef maður athugar hans eigin orð, kemur það í ljós, að hann hefir ekkert nema gott að segja um forseta Fiskifjelagsins. Ennfremur hefir hann játað, að það sje venja í öðrum löndum, að slík nefnd sje skipuð fulltrúum allra aðilja og rjett sje, að framfylgja því hjer. Hvað lá þá beinna við en að stjórnin skipaði formann Sjómannafjelags Reykjavíkur í nefndina? Á þriðja manninn í nefndinni, Ólaf próf. Lárusson, hefir hann rjettilega borið mikið lof. Jeg fæ því ekki betur skilið, en að hann hafi fært stjórninni hina fylstu traustsyfirlýsingu fyrir valið í nefndina, og jeg verð að segja, að það er ekki í fyrsta skifti, sem hann þakkar stjórninni verk hennar.