20.02.1929
Efri deild: 3. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 807 í C-deild Alþingistíðinda. (2754)

6. mál, hveraorka

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Þetta frv. lá fyrir þinginu í fyrravetur, en þá vanst ekki tími til að afgreiða það.

Það er full ástæða til að koma á gleggri löggjöf en verið hefir hingað til um hveraorku og notkun hennar, með því að nú á síðustu missirum hafa verið gerðar tilraunir, með sæmilegum árangri, til aukningar hverahitans með aðferð, sem ekki er áður þekt, og á jeg við þær boranir, sem gerðar hafa verið af bæjarstjórn Reykjavíkur í hveralandinu við bæinn. En frv. miðar að því, að koma skipulagi á þessa hagnýtingu. Þykist jeg vita, að því muni verða vel tekið af hv. deild. Mjer sýnist eðlilegast, að frv. verði að lokinni umræðu vísað til allshn.