09.03.1929
Efri deild: 18. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 809 í C-deild Alþingistíðinda. (2757)

6. mál, hveraorka

Jón Þorláksson:

Frv. þetta felur í sjer ýms ákvæði, sem hafa meiri og minni þýðingu, að því er snertir möguleika landsmanna í framtíðinni til þess að notfæra sjer jarðhita. Mjer virðast þó ýms atriði í því, sem vert sje að gefa frekari gaum en gert er í nál. Vil jeg þá fyrst nefna smávægilegt atriði. Í lögum þeim, sem nú gilda um þessi efni, sem eru vatnalögin, er í 10. gr., b-lið, svo að orði kveðið: „Skylt er landeiganda að láta af hendi nauðsynlegt vatn, land og efni úr landi til sundlaugar og sundskála til afnota í almenningsþarfir. Bætur fyrir laugavatn, land og landsafnot, átroðning og annað tjón eða óþægindi, skal greiða eftir mati, nema samkomulag verði.“

Þessi skylda helst að vísu eftir frv., en þó með þeirri takmörkun, að samkvæmt því eru það aðeins hjeraðsstjórnir og landsstjórn, sem fá þennan rjett gagnvart landeiganda. en eins og nú standa sakir fær hver einstaklingur hann, sem kemur upp til sundlaug til almenningsþarfa. Þetta er að vísu smávægilegt atriði, en mjer finst engin ástæða vera til þess, að nema burtu hinn almenna rjett, sem nú gildir í þessum efnum.

Þá er annað atriði, sem jeg vildi minnast á. Það er að mínum dómi miklu stórvægilegra, og jeg vil segja höfuðatriði þessa máls. Eins og frv. þetta liggur fyrir nú, virðist mjer það ekki koma nógu skýrt fram, hver sje rjettur landeiganda og hver rjettur hins opinbera um þann jarðhita, sem fást kann með borun. Hvað snertir jarðhita, sem fæst á þennan hátt, þá finst mjer ótækilegt að gera á nokkurn hátt erfiðara fyrir en nú er, að unt sje að taka hann til almenningsnota. En mjer finst einmitt, að með 1. gr. frv. sje rjettur landeiganda í þessum efnum færður út frá því, sem hann er í vatnalögunum, því að í frv.greininni segir, að landareign hverri fylgi rjettur til umráða og hagnýtingar á hverum, laugum og jarðhita, sem á henni eru. En í vatnalögunum nær þessi umráðarjettur ekki nema yfir hveri, laugar og ölkeldur. Þetta ákvæði um jarðhitann í 1. gr. er því nýtt, og liggur því næst að skilja það svo, að það sje svo víðtækt, að í því felist rjettur landeiganda yfir öllum jarðhita, sem hægt er að ná í landareigninni, og því sömuleiðis yfir þeim jarðhita, sem fást kann með borun.

Í 12., 13.–14. og 15. gr. frv. eru ákvæði um jarðhita, sem fást kynni með borun, en þar er ekkert tekið fram, að landeiganda beri borgun fyrir þann jarðhita, og máske dregur það úr ákvæðum 1. gr. frv., að landeiganda beri borgun fyrir slíkan jarðhita eftir eignarmati. Að vísu stendur í 13. gr. frv. að lögreglustjóri geti veitt borunarleyfi, og þarf því ekki að sækja um það til landeiganda, og svo stendur ennfremur í þessari grein, að sá sem hafi fengið borunarleyfi, fái einkarjett á leyfissvæðinu til jarðhitarannsókna og forgöngurjett til virkjunar þeim jarðhita, er hann finnur, enda greiði hann árgjald til ríkissjóðs, eftir því sem nánar verði tiltekið í leyfisbrjefinu. Mjer virðist því, að það muni helst verða ofan á, eftir samanburð á þessum ákvæðum, að sá sem vildi taka jarðhita, sem fæst með borun, til virkjunar, þyrfti auk leyfis stjórnarvaldanna einnig að fá jarðhitann tekinn eignarnámi af jarðeigandanum. En með því er of langt gengið, því að slíkt væri ekki í samræmi við grundvallaratriði námulaganna.

Jeg vildi nú spyrjast fyrir um það hjá hæstv. stjórn, hvernig hún líti á þetta atriði, og jafnframt að leiða athygli hv. nefndar að þessu.