09.03.1929
Efri deild: 18. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 812 í C-deild Alþingistíðinda. (2759)

6. mál, hveraorka

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Út af ræðu hv. 3. landsk. (JÞ) vil jeg segja nokkur orð. Hann gat þess fyrst í ræðu sinni, að samkv. 10. gr. vatnalaganna er laugaeigandi skyldur að láta af hendi vatn til sundlauga án endurgjalds. Það er rjett, að nefndin athugaði þetta, en hefir ekki tekið um það fullnaðarákvörðun, heldur hugsað sjer að láta það bíða til 3. umræðu. En hún er fús til að athuga, hvort ekki sje rjett að láta þetta ákvæði vatnalaganna einnig koma fram í þessum lögum.

Að því er snertir síðara atriðið í ræðu hv. 3. landsk., þá virðist mjer frv. talsvert ljósara en hv. 3. landsk. telur það vera. Í fyrstu gr. frv er það skýrt tekið fram, að rjettur til umráða og hagnýtingar á hverum og laugum fylgi hverri landareign, en þó með þeim takmörkunum, sem settar eru síðar í frv. Og þessi takmörk eru sjerstaklega í 4.–10. gr. frv. Þar er t. d. kveðið svo á, að landeiganda sje óheimilt að spilla hverum eða laugum á landi sínu með ofaníburði, framræslu eða á annan hátt, nema það sje af sjerstökum ástæðum óhjákvæmilegt. Sömuleiðis að landeigandi sje skyldur til að leyfa þeim mönnum, sem ríkið gerir út til að rannsaka hveraorku, óhindraðan aðgang að landareigninni.

Jeg skil frv. á þá leið, að landeigandi hafi fyrst og fremst borunarrjettinn, en geti hann eigi nje vilji sjálfur framkvæma borunina, má hann ekki hindra aðra í að gera það. Þá er það tekið fram viðvíkjandi leyfishafa, að borunin megi ekki eyðileggja fyrir öðrum aðstöðu til hagnýtingar á orku, sem kann að vera utan svæðisins. Ef borun leyfishafa leiðir af sjer tjón fyrir jarðeiganda, þá á hann rjett á fullum bótum fyrir það, en að öðrum kosti ekki. Að öðru leyti falla öll rjettindi til hitaorkunnar til þess, sem borunina framkvæmir: þó með þeim takmörkunum, sem sett eru í borunarleyfinu. Eignast hann þá að sjálfsögðu fullan umráðarjett þeirrar orku, sem hann framleiðir með boruninni, nema að því leyti sem það kann að hafa spilt þeirri hitaveitu, sem áður var.

En eins og jeg hefi tekið fram, tel jeg sjálfsagt, að þetta mál verði athugað rækilega. Sú löggjöf, sem hjer er um að ræða, er mjög mikilsverð, og efast jeg ekki um, að allir hv. þdm. vilji leggja sig fram til að gera hana sem best úr garði.