09.03.1929
Efri deild: 18. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 814 í C-deild Alþingistíðinda. (2761)

6. mál, hveraorka

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Jeg vildi aðeins minnast á aths. hv. 3. landsk. (JÞ) um orðið „jarðhita“ milli sviga í 1. gr. frv. — Jeg tel mjög tvísýnt, að rjett sje að fella þetta orð niður, og tel, að þetta orð geti ekki komið að sök, af því að greinin tekur fram, að rjettindin sjeu ákveðin með þeim takmörkum, sem lögin setja. En sje orðinu slept, virðist mjer að falli niður rjettur jarðeiganda til borunar. En jeg skil anda laganna svo, að landeigandi eigi þennan rjett, og framkvæmi hann sjálfur borunina, þá eigi hann líka orkuna án sjerstaks leyfis. Komi það í ljós, að landeigandi hvorki geti nje vilji nota þennan rjett, þá fellur hann burtu. En nefndin mun athuga þetta nánar til 3. umr.