14.03.1929
Efri deild: 22. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 815 í C-deild Alþingistíðinda. (2764)

6. mál, hveraorka

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Samkvæmt því, sem fram kom við 2. umr. þessa frv., þá hefir allshn. leyft sjer að koma fram með 2 brtt., og eru þær á þskj. 101.

Sú fyrri, sem er viðbót við 5. gr. frv., er tekin upp úr vatnalögunum, eins og reyndar fyrri hluti þeirrar gr. er. Að vísu telur n., að það hefði nægt, sem fyrir var, en telur þó rjett, út af því umtali, sem um þetta hefir orðið, að láta síðari hl. gr. fylgja með.

Hin brtt. n. er við 12. gr. Er það að vísu orðabreyting, en má þó á vissan hátt skoðast sem efnisbreyting. En þess ber að gæta, að prentvilla hefir komist inn í þessa brtt. Þar stendur: „forgangsrjett“, en á að vera „forgöngurjett“. En jeg býst nú ekki við, að það komi að sök, ef hæstv. fors. vill bera brtt. upp með fyrirvara um þetta.

Jeg býst nú ekki við, að um brtt. á þessu þskj. verði miklar umr. nje mikil andstaða gegn þeim.

Þá eru enn nokkrar brtt. við frv. á þskj. 104, frá hv. 3. landsk. (JÞ). Allshn. hefir ekki haft aðstöðu til að taka afstöðu til þeirra. En frá mjer sjeð eru þær sumar hverjar heldur til bóta, en þó ekki allar. Sú 1. er um að úr 1. gr. falli orðin „innan þinglýstra takmarka“. Þetta hefir nú held jeg ekki mikla þýðingu, en þó held jeg það óþarft, því að jeg veit ekki betur, en að til sjeu lög, sem gera að skyldu, að öll landamerki sjeu þinglýst.

2. brtt. á þskj. 104, um að fella burt orðið „(jarðhita)“ get jeg ekki fylgt, en n. hefir óbundið atkv. um hana.

Um hinar er það að segja, að jeg álít þær heldur til bóta. 4. brtt. er sjálfsögð og í samræmi við okkar till., þótt okkur hafi sjest yfir að koma fram með hana. Tvær þær síðustu eru orðabreytingar, sem vera má að sjeu til bóta.