14.03.1929
Efri deild: 22. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 824 í C-deild Alþingistíðinda. (2771)

6. mál, hveraorka

Páll Hermannsson:

Mjer þykir rjett að gera grein fyrir atkvæði mínu. Það hefir verið minst á það af hv. 3. landsk., að landeigendur ættu ekki að lögum þann hita, sem fengist með borun í þeirra landi. Þetta er að minni hyggju rjett, og stafar af því, að það er nýtt hjer á landi, að hiti fáist upp á yfirborðið á þennan hátt. Hvað þetta snertir, er því þessi lagasetning nýmæli.

Hv. 3. og 6. landsk. þm. (JÞ og Jón J) virðist vera á gagnstæðri skoðun. Hv. 3. landsk. vill ekki auka rjett landeigandans, en það vill hv. 6. landsk. gera. Um þetta má auðvitað deila. Mjer finst eðlilegast, að fara mitt á milli, þannig að jarðeigandinn hafi forgangsrjett til að leiða hitann upp á yfirborðið, sjálfum sjer og landareign sinni til gagns, en sje skyldur til að láta þennan rjett af höndum til annara, ef hann getur ekki nje vill ráðast í þetta sjálfur. Mjer finst þetta í samræmi við eignar- og afnotarjett á því, sem á yfirborðinu er. Jeg mun því greiða atkv. á móti öðrum lið brtt. á þskj. 104, en hún ræðir um að felt verði niður orðið „jarðhiti“ úr 1. gr. frv. Jeg vil skilja þetta atriði svo, að jarðeigandi hafi forgangsrjett til að hagnýta sjer jarðhita í landareign sinni. Annars er þetta óskýrt í frv., en jeg er samþykkur þeirri skoðun, sem virðist felast í því.