19.03.1929
Neðri deild: 26. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 832 í C-deild Alþingistíðinda. (2776)

6. mál, hveraorka

Bjarni Ásgeirsson:

Það er óþarfi að bæta miklu við það, sem þegar hefir verið sagt um þetta mál. Þó get jeg ekki stilt mig um að segja nokkur orð.

Eins og allir vita, er þetta frv. afturganga í þessari deild, og má þá af líkum ráða, að ekki muni það hafa batnað til muna við það að ganga aftur.

Þegar þetta frv. var á döfinni hjer í fyrra, var öllum ljóst, hvílíkir annmarkar voru á því, enda komst það ekki áleiðis, en sofnaði í nefnd. Nú kemur frv. frá Ed., og hefir þar orðið fyrir því óvenjulega happi, að verða sameiginlegt ástfóstur íhaldsins og jafnaðarmanna, og það orðið því til lífs. „Á þeim degi urðu þeir Heródes og Pílatus vinir“. í hv. Ed. nægði því hverahitinn til þess að bræða íhaldsmenn og jafnaðarmenn saman.

Jeg hefi ekkert við það að athuga, þótt sett sjeu skýr og ítarleg lög um þessi efni. Og jeg sje ekki betur, en að í þessu frv. sjeu mörg þörf ákvæði, sem rjett sje að samþykkja. Mjer virðist frv. frá gr. 1–11 vera missmíðalítið, og mætti samþykkja það með litlum breytingum. En 12. gr. frv. er svo úr garði gerð, að jeg hygg, að ekkert hliðstætt sje til í íslenskri löggjöf eða rjettarmeðvitund þjóðarinnar alment.

1.–11. gr. frv. miða að því, að tryggja hagsmuni hins opinbera, og rjett þess til að hagnýta hveraorku til almenningsþarfa. Við þennan hluta frv. hefi jeg því ekkert að athuga, enda byggist hann á ákvæðum stjórnarskrárinnar, og brýtur að öðru leyti í engu í bága við almenna rjettarmeðvitund. En í 12. gr. kemur nokkuð, sem sennilega hefir aldrei þekst í nokkurri löggjöf, hvorki þessa lands eða annara. Jeg vil þá leyfa mjer að lesa upp fyrri hluta 12. gr.:

„Nú vill einhver annar en landeigandi eða umráðamaður bora eftir jarðhita, og sýnir, að hann er þess megnugur, og skal hann þá fá leyfi til þess hjá lögreglustjóra.“

Hvernig á hann nú að sýna, hvort hann er megnugur þessa? Líklega á það að vera komið undir því, hvort hann hefir yfir nægu fje að ráða, eða ekki.

„Í leyfisbrjefi skal tiltekið, á hvern hátt rannsókninni skuli hagað, og hversu stórt svæði er látið af hendi. Skal miða það við, að leyfisbeiðandi fái nægilega stórt svæði til rannsóknar og væntanlegrar hagnýtingar með borun, án þess að vænta megi verulegra truflana frá borholum utan svæðisins.

Tiltekið skal í leyfisbrjefi, hversu nálægt mörkum svæðisins leyfishafi megi bora, með tilliti til væntanlegra borana annara utan svæðisins. Skal lögreglustjóri í því efni fara eftir áliti ráðunauts ríkisstjórnarinnar.“

Eftir þessu er það lögreglustjóri, sem ræður um það, hve stórt land skal látið af hendi til þess manns, sem sækir um leyfið. Landeigandi hefir engan íhlutunarrjett um það, en þó vill löggjafarvaldið vera svo hugulsamt við hann, að ákveðið er, að lögreglustjóri skuli láta hann vita, eða minna hann á, að annar maður hafi fengið leyfi til að hreiðra um sig í landareign hans. Málsgreinin um þetta hljóðar svo:

„Áður en leyfi er veitt, skal lögreglustjóri tilkynna landeiganda, að sótt hafi verið um borunarleyfi.“

Eftir 12. gr. að dæma, hefir leyfishafi full og óskoruð yfirráð yfir öllum þeim hita eða hitaauka, sem hann kann að fá upp úr jörðinni með borun, einkum eftir þá breytingu, sem gerð var á 1. gr. frv. í hv. Ed., sem jeg mun koma að síðar. Með þessu er algerlega gengið á bak rjetti landeiganda og ábúanda, og þeir gerðir varnar- og rjettlausir gagnvart hverjum „spekúlant“ eða braskara, sem getur skrapað saman nokkurt fje og útvegað sjer leyfi lögreglustjóra til þess að hreiðra sig niður í görðum eða túnum í landareigninni. Og hver á síðan jarðhita þann, sem kann að koma fram við borunina. Eftir þessum lögum er það skilyrðislaust leyfishafi og enginn annar.

Eins og hv. 1. þm. Árn. drap á, var 1. gr. frv. upphaflega kveðið svo á, að landareign hverri fylgdi rjettur til hvera og lauga og jarðhita. Nú hefir jarðhitinn verið feldur burtu úr frv. Um hveri og laugar eru til ákvæði í vatnalögunum, og þess vegna treysta þeir sjer ekki til að þoka neinu um það, en nota hinsvegar tækifærið til þess að fá jarðhita undanskilinn eignarumráðum jarðarinnar. Hjer skýtur sami draugurinn upp kollinum, sem ljet mjög á sjer bera við umræður um vatnalögin forðum, þegar margir vildu halda því fram, að rjettur til vatnsorku fylgdi ekki landareign, heldur einhverju öðru, líklega helst ríkinu. Jeg hjelt satt að segja, að sá draugur hefði nú verið að fullu kveðinn niður, og jeg vil vænta þess, að Alþingi verði nú sjálfu sjer samkvæmt, og sýni sama skilning á rjetti landeigenda og þegar það afgreiddi vatnalögin. Ef þetta frv. nær fram að ganga í þeirri mynd, sem það nú liggur fyrir, þá er um leið algerlega brotið í bága við meginreglu vatnalaganna, og rofið alt samræmi þessara tveggja skyldu lagabálka.

Jeg var svo heppinn að hlusta í Ed. á röksemdir þess, að fella í burtu jarðhitann úr fyrstu gr. Var sagt, að með því væri í engu skertur rjettur þess, sem yfirborðið ætti, en enginn mætti láta sjer detta í hug, að landeigandi ætti alla keiluna niður að miðdepli jarðarinnar. En hvernig á að fara að greina í sundur þann hita, sem upp á yfirborðið kemur og hinn, sem er niðri í jörðinni? Er hann ekki allur „sama tóbakið“? Eigi nú á annað borð að fara að setja takmarkanir fyrir eignarrjetti landeiganda niður á við, þá er einlægast að ákveða, hve langt niður, — hve marga faðma ofan í jörðina — eignarrjettur landeiganda á að ná? Og mjer er spurn: Hverra rjett er verið að tryggja með þessum takmörkunum. Er það rjettur þess höfðingja, sem talinn er búa niður í iðrum jarðarinnar? Nei, ef verið er að tryggja nokkuð, þá er það einungis rjettleysi þeirra manna, sem jarðir eiga, gagnvart bröskurum og öðrum þvílíkum lýð, sem náð hafa í fje og lögreglustjóraleyfi til þess að hreiðra um sig á landareign þeirra.