16.04.1929
Efri deild: 46. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 848 í C-deild Alþingistíðinda. (2802)

22. mál, nöfn bæja og kaupstaða

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Allshn. hefir athugað þetta frv. rækilega og orðið ásátt um að leggja til, að það verði samþ. með allmörgum breytingum.

Nefndin viðurkennir, að rjett sje að lögfesta nöfn bæja og kaupstaða og ákveða með lögum, hvernig þeim nöfnum skuli breytt, ef til kemur. En hún álítur, að frumkvæðið til slíkra breytinga eigi að koma frá íbúum kaupstaðanna sjálfra og leggur til, að frv. verði breytt til samræmis við það álit.

Brtt. nefndarinnar eru margar. Ein þeirra skiftir þó mestu máli, en það er sú, sem fjallar um frumkvæði íbúanna.

Nefndin flytur þá brtt. við 1. gr., að í staðinn fyrir „bæ eða kaupstað“ komi kaupstað eða kauptún. Það er orðin föst málvenja, að kauptún, sem öðlast hafa sjerrjettindi og stjórn sinna eigin mála, sjeu kölluð kaupstaðir. Nafnið bær mun vera lögfest um býli í sveit. Því telur nefndin rjett að gera þessa breytingu. 2. brtt. er bein afleiðing af 1. brtt.

3. brtt. nefndarinnar gengur út á það, að umsteypa 3. gr. frv. og orða hana á annan veg. Eins og jeg hefi tekið fram, álítur nefndin, að frumkvæðið eigi að koma frá kaupstöðunum og kauptúnunum sjálfum, en sjer þá jafnframt þörf á að setja ítarlegri reglur en í frv. standa um meðferð þeirra mála, sem hjer ræðir um. Þótti nefndinni rjett, að þau ákvæði kæmu fram í lögunum, og væru svo skýr, að ekki yrði um þau vilst.

4. brtt. er um að bæta inn nýrri grein á eftir 3. gr. frv. Hún er um það, að þegar svo hafi verið að farið, sem fyrir er mælt í 3. gr., þá skuli samþykki Alþingis koma til, áður en nafninu verði löglega breytt, ella sje hún ógild.

5. brtt. er um, að orðið sjálf í 1. línu 4. gr. frv. falli niður.

6. brtt. er bein afleiðing af 1. brtt.

Jeg sje ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um frv. að svo stöddu. Jeg geri ráð fyrir, að brtt. nefndarinnar fái góðan byr, því að tilgangi frv. er eigi síður náð, þó að þær verði samþyktar. Hinsvegar lítur nefndin svo á, að ákvæði þeirra sjeu yfirleitt skýrari en ákvæði frv.

Jeg vil nota tækifærið til að minnast á það, að jafnframt þessu frv. hefir nefndin til meðferðar frv. um breytingu á nafni Ísafjarðarkaupstaðar. Af fyrnefndum ástæðum geri jeg ekki ráð fyrir, að nefndin telji rjett að afgreiða það frv. Hún telur heppilegra, að frumkvæði þeirrar ákvörðunar, sem í því frv. felst, komi frá Ísfirðingum sjálfum. Þetta vildi jeg tilkynna hv. deild og hæstv. stjórn.