05.04.1929
Efri deild: 37. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 853 í C-deild Alþingistíðinda. (2814)

26. mál, kvikmyndir og kvikmyndahús

Frsm. meiri hl. (Jón Jónsson):

Eins og nál. um þetta mál ber með sjer, þá hefir mentmn. ekki getað orðið samferða um afgreiðslu þess. Jeg og hv. þm. Ak. (EF) leggjum til, að frv. verði samþ. með nokkrum breytingum. En hv. 3. landsk. (JÞ) vill fella frv. — Skal jeg nú nokkuð víkja að ástæðum meiri hl. fyrir sínu áliti. Við álítum fyllilega rjettmætt að setja lög um þetta víðtæka og áhrifaríka mál. Nágrannaríkin hafa líka öll sett löggjöf um þetta efni. Meiri hl. mentamn. er ekki kunnugt um það, að bein löggjöf sje til hjer um kvikmyndahús, því lögin frá 3. jan. 1890 um lögreglusamþyktir, gera alls ekki ráð fyrir kvikmyndasýningum, enda þær þá óþektar. Þar er því ekkert ákvæði um þær, heldur að eins um almennar skemtanir. Ef því þetta getur talist löggjöf um kvikmyndasýningar, þá er sú löggjöf ærið óglögg. Að vísu hafa ákvæði laganna frá 1890 verið teygð yfir þessa starfrækslu í sumum kaupstöðum, og lögreglustjóra heimilað eftirlit með kvikmyndasýningum. En það stendur eigi að síður óhrakið, að um þetta eru engin almenn lög, heldur aðeins samþyktir fyrir vissa bæi.

Það, sem rekur mest eftir því, að lög sjeu sett um kvikmyndahús, er myndskoðunarskyldan, sem á að vera ríkinu trygging fyrir því, að aðeins sjeu sýndar góðar eða sæmilegar myndir. Í greinargerð með frv. um kvikmyndir, sem lagt var fyrir Fólksþingið danska í fyrra, er komist svo að orði, með leyfi hæstv. fors.: „Höfuðtilgangurinn með löggjöf um kvikmyndasýningar er: að ná því marki, að einungis sjeu sýndar kvikmyndir, sem hafi göfgandi og fræðandi áhrif á sýningargesti, sjerstaklega á unglingana, sem er mikill meirihluti sýningargesta“. Þetta er það, sem danska nefndin telur höfuðskilyrði fyrir lagasetningu um kvikmyndir og jeg vil fyllilega taka undir það. Það er tvímælalaust takmarkið hjer eins og þar, og undir því, hvernig tekst að ná þessum tilgangi, er það komið, hvort kvikmyndasýningar verða þjóðinni til blessunar eða bölvunar, vegna áhrifa þeirra á æskulýðinn. En hvað hefir þá verið gert hjer til að tryggja þetta? Ekkert. Að vísu heimila lögreglusamþ. lögreglustjóra að hafa eftirlit með sýningum, en jeg hygg, að því hafi aldrei verið beitt. Sumir halda nú máske, að hjer sjeu ávalt sýndar góðar myndir, og það má vera að svo sje yfirleitt. En þó mun bera út af því. Jeg veit, að um það eru skiftar skoðanir og áhrifin talin misjöfn á æskuna. Einn af merkustu kennurum þessa lands, Helgi Hjörvar, hefir gefið út bók, er hann nefnir „Vandræðabörn“. Í einum stað í henni er þessu nokkuð lýst, og vil jeg með leyfi hæstv. fors. lesa upp úr bókinni lítinn kafla um þetta efni. Þar segir svo: „Jeg gat um það í upphafi, að hjer í Reykjavík var um tíma um og eftir 1920 mikil spillingaröld meðal barna og unglinga, svo að til stórvandræða horfði. Hvað eftir annað gusu upp þjófnaðir og innbrot, sem heil fjelög stráka stóðu að. Flestir eða allir voru þeir innan við fermingu, sumir ekki eldri en 8–9 ára. Margir þessara drengja komust yfir ærnar fjárhæðir.

En hvers vegna stálu þeir, og til hvers var fjenu varið?

Ekki bar svo mjög á því, að þessir drengir væru frá svo tiltakanlega vondum heimilum. En enginn var heldur frá góðu heimili, sem kalla mætti, af þeim, sem ungir voru. Margir helstu forsprakkarnir hjeldu því eindregið fram, að þeir hefðu fyrst byrjað þjófnað og innbrot af því að horfa á glæpamannamyndir á „bíó“, þar á meðal sá allra versti. Þeir hefðu lært þar á myndunum ýmsar aðferðir við innbrot og þjófnað, þótt gaman að eltingaleik lögreglunnar og þjófanna og dottið margt í hug út af því, sem þeir sáu. Það er álit lögreglunnar hjer, að strákarnir hafi gert of mikið úr þessum áhrifum, sumpart af klókindum, og er það líklegt, enda kemur hjer fleira til. En þó hafa 8–9 ára strákar hjer í bænum stofnað með sjer þjófafjelag og skírt í höfuðið á bófafjelagi, sem þá var sýnt hjer á kvikmyndum, og þarf raunar engra vitna við um áhrif og bölvun slíkra mynda.“

Þarna segir þá reynslan, að vesalings börn hafi leiðst til glæpa af því, að horfa á slæmar myndir. Og þetta út af fyrir sig finst mjer fullgild ástæða til þess, að ríkið taki í sínar hendur alla myndskoðun. Þeirri myndskoðun má að vísu haga á fleiri en einn veg, og tel jeg víst, að ríkistjórnin láti framkvæma hana á svo tryggan og heppilegan hátt, sem unt er.

Þá er annað atriði í þessu máli, hvort leyfi til kvikmynda skuli veitt af ríkisstjórninni eða öðrum. Jeg held, að það sje heppilegt, að ríkisstjórnin hafi þetta í sínum höndum, að minsta kosti af þeirri ástæðu, að með því er það trygt, að Þjóðleikhúsið fái á sínum tíma leyfi til kvikmyndasýninga. Má gera ráð fyrir því, að það verði fulldýrt í rekstri og veiti eigi af, að því verði trygður ágóði af myndasýningum, með því að takmarka leyfi til annara. Borgarstjórinn í Rvík segir að vísu, að leyfi muni ekki verða veitt af bæjarstjórn til annara en þjóðleikhússins. Er það að vísu þakkarvert, ef á því má byggja. En fyrir því er þó engin trygging. Því þótt núverandi borgarstjóri og bæjarstjórn vildu veita leyfið, þá geta orðið umskifti í bæjarstjórn fyrir þann tíma, sem þjóðleikhúsið tekur til starfa. Þá er og mikilsvert atriði, að það sje trygt, að skólar eigi aðgang að því, að geta sýnt góðar kenslumyndir á kvikmyndahúsum. Það er viðurkent, að kvikmyndir eru afbragðs menningar- og kenslumeðal, ef þeim er vel beitt. Þá tel jeg ekki úr vegi, að ríkið skattleggi þennan atvinnurekstur nokkuð, sem hefir það orð á sjer, að vera allmikið gróðafyrirtæki, þótt ekki liggi fyrir beinar upplýsingar um það. Þó er það í mínum. augum minna atriði en þau, sem jeg hefi bent á, einkum myndskoðunin, sem jeg tel höfuðatriði.

Meiri hl. n. er því samþykkur frv. í aðalatr. Mjer kom það nokkuð ókunnuglega fyrir sjónir, að hv. minni hl. n. vill fella þetta frv. Jeg hafði ástæðu til að ætla, eftir því sem orð fjellu í n., að hv. 3. landsk. mundi geta lagt til, að frv. yrði samþ., að vísu með talsverðum breytingum, en hann hefir nú horfið frá því.

Fyrir brtt. meiri hl. n. á þskj. 199 er gerð grein í nál. hans. Jeg vil þó fara um þær nokkrum orðum. Það virðist nauðsynlegt að heimila leyfistímann lengur en í fimm ár, eins og gert er í frv., því að annars er hætt við, að menn treysti sjer ekki til að vanda eins til húsnæðis, mynda og sýningartækja sem ella, en alt hefir þetta mikið að segja. Þá virtist okkur ennfremur, að rjett væri að taka tillit til þess í skattaformúlunni, hve aðsóknin væri mikil að kvikmyndahúsunum, en slíkt er ekki gert í frv., heldur aðeins til sætafjöldans, án hliðsjónar af því, hvort húsin eru mikið eða lítið sótt. Við höfum bætt nýjum lið inn í formúluna til þess að bæta úr þessu.

Hjer í Reykjavík eru tvö kvikmyndahús. Hefir því verið haldið fram, að tekjur þeirra væri ekki eins miklar og alment er álitið. Jeg skal ekkert um það fullyrða, hvort þetta er rjett. Það verður auðvitað altaf álitamál, hve hár þessi skattur á að vera, en n. þótti vissara að lækka hann, og gerir því þá till., að hann verði lækkaður um frá því, sem gert er ráð fyrir í frv. stj., og hyggur, að með því sje skattinum í hóf stilt. Það getur verið, að þessi skattur lendi að nokkru leyti á þeim, sem sækja kvikmyndahúsin, og er ekki hægt við því að gera, en önnur ákvæði frv. eiga að tryggja það, að húseigendurnir yfirfæri þetta ekki að ástæðulausu.

Hæstv. dómsmrh. hefir bent á það, að til mála gæti komið að ívilna þeim kvikmyndahúsum, er sýna myndir með íslenskum texta. Það er mjög raunalegt, hve fátt þeirra mynda, sem hjer eru sýndar, er með íslenskum texta, og ætti að vera okkur metnaðarmál, að sem flestar og helst allar myndir væri með íslenskum texta, og jafnvel um íslensk efni líka. N. leggur því til, að kvikmyndahúsum sje ívilnað í skatti fyrir sýningu á myndum með íslenskum texta, sem og fyrir sýningu á sjerstaklega fræðandi myndum.

Jeg ætla að geyma mjer að gera athugasemdir við þær brtt., sem fram eru komnar, þangað til flm. þeirra hefir gert grein fyrir þeim, en leyfi mjer hinsvegar að vænta þess, að brtt. okkar í meiri hl. n. verði samþ.