20.03.1929
Efri deild: 27. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í B-deild Alþingistíðinda. (284)

45. mál, einkasími í sveitum

Frsm. (Halldór Steinsson):

Jeg þarf ekki að hafa langa framsögu í þessu máli. — Síðan afnot símans urðu almenn hjer á landi, hefir jafnan borið meira og minna á óskum landsmanna um lagning nýrra síma. Þetta er í sjálfu sjer ekki óeðlilegt, því að það er orðið svo alstaðar í heiminum, og það má gera ráð fyrir, að slíkar óskir þagni ekki, fyr en sími er kominn inn á hvert heimili þessa lands. Af sömu rótum er þetta frv., sem hjer er fram komið og fer fram á heimild handa sýslunefndum til að gera samþyktir um símalagningar yfir einhver ákveðin svæði.

Jeg skal geta þess, að samgmn. hefir leitað álits landssímastjóra um þetta mál, og var hann í öllum aðalatriðum samþykkur frv., aðeins leggur hann til, að lítilsháttar breyt. verði gerðar á því, og eru brtt. þær, sem n. leggur til, í samræmi við álit hans.

Fyrst er brtt. við 10. gr. í þeirri gr. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Hver sá, sem gjaldskyldur er til einkasíma eftir samþykt, á rjett á að leggja síma inn hjá sjer frá aðaleinkalínunni án aukins gjalds til hennar“.

Landssímastjóri vakti athygli n. á því, og n. virtist það með rjettu, að ef þetta væri ótakmarkað, gæti svo farið, að ein lína yrði ofhlaðin og skertur rjettur þeirra, sem fyrir væru. Þess vegna telur n. rjett að bæta inn í því ákvæði: „ef það þykir fært að dómi landssímastjóra“. Það má gera ráð fyrir, að hann sje því kunnugastur, og ennfremur má gera ráð fyrir því, að í öllum tilfellum, þar sem hann álítur fært að bæta við slíkri línu, muni hann veita samþykki sitt.

2. brtt. n., við 13. gr. frv., er til komin af því, að henni virðist of lágt tengigjald, 5 kr., miðað við þau tengigjöld, sem nú eru greidd til landssímans. Eins og kunnugt er, eru tengigjöld mjög víða 20 kr. fyrir hvern ársfjórðung, þ. e. a. s. 80 kr. á ári.

Það hefði nú ef til vill mátt rjettlæta þetta 5 kr. tengigjald, ef ekki hefði verið ákveðið eins og hjer stendur í 13. gr.: „enda annist þá landssíminn alla afgreiðslu á miðstöðinni notendum að kostnaðarlausu“. En þegar svo er ákveðið, virðist ekki sanngjarnt, að tengigjaldið sje svo lágt sem hjer er ákveðið, og þó að það sje ákveðið 10 krónur, get jeg ekki betur sjeð en að þessar línur sleppi öllu betur við það gjald heldur en aðrir talfæranotendur annarsstaðar á landinu. N. hafði líka hugsað sjer að gera aðra breyt. á 13. gr., bæta inn í á eftir orðunum „allri afgreiðslu á miðstöðinni“: „í stöðvartímanum“, — því að það liggur í hlutarins eðli, að landssíminn annast ekki þessa afgreiðslu nema á þeim tíma, sem stöðin er opin. Þess vegna býst jeg við, að n. komi með brtt. í þessa átt við 3. umr. Annars skal jeg ekki ræða þetta mál frekar að sinni; það liggur ljóst fyrir og litlar breyt., sem n. hefir gert, svo að jeg hygg, að þær geti ekki valdið ágreiningi.