28.02.1929
Neðri deild: 8. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 893 í C-deild Alþingistíðinda. (2841)

28. mál, fátækralög

Hjeðinn Valdimarsson:

Jeg vil ekki leggja á móti því, að þetta frv. gangi til nefndar, en jeg segi fyrir mitt leyti, að jeg mundi ekki geta samþykt neitt af því nema 2. gr. frv. Jeg álít, að sú breyting, sem hjer er farið fram á, ef önnur og meiri breyting kemur ekki samhliða, verði aðeins til hins verra. Það verður ekki minni ójöfnuðurinn heldur en nú er, þótt sveitfestitíminn verði styttur, og jeg er sammála hv. 1. þm. N.-M. (HStef) um það, að ekki verði með þessu frv. ráðin bót á verstu göllum fátækralaganna, eins og fátækraflutningnum, sem nú er stærsti bletturinn á löggjöfinni í þessu landi.

Við jafnaðarmenn ætlum okkur að bera fram aðrar brtt., ekki aðeins við 21. gr., heldur við fátækralögin yfirleitt, sem jeg vona að líka verði athugaðar í nefnd. En eina ráðið til þess að koma viti og mannúð í þessa löggjöf, er að gera alt landið að einu framfærsluhjeraði, eða a. m. k. að jafna niður kostnaðinum, svo að ekki haldist sá reipdráttur milli sveitanna, sem nú er.