28.02.1929
Neðri deild: 8. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 894 í C-deild Alþingistíðinda. (2842)

28. mál, fátækralög

Jörundur Brynjólfsson:

Hv. 2. þm. Reykv., sem nú settist niður, mun eiga sæti í allshn. Fer þetta mál vafalaust til þeirrar nefndar, svo að hv. þm. getur þá komið með þær breytingar, sem hann vill, eða komið með nýtt frv., ef honum þykir það betur henta.

Það eru engin mótmæli gegn þessu frv., þó að hv. þm. segi, að það gangi ekki nógu langt. Með því er þó stefnt í þá átt, sem fyrir hv. þm. vakir, að gera sveitfestitímann styttri. Þó að menn svo síðar þurfi að verða einhvers styrks aðnjótandi, þá þurfa þeir ekki fremur fyrir þessa lagabreyting að hröklast sveita á milli, svo að jeg held, að það sje ekki rjett hjá hv. þm., að þetta frv. sje til hins verra, en það kann að vera, að þetta sje ekki nóg til þess að útiloka allan flutning þurfamanna á milli sveita. En það hefir nokkuð verið rætt um þetta áður, og jeg býst ekki við, að þeirri breytingu verði á komið, nema því aðeins, að breytt sje um alt fyrirkomulag fátækraframfæris í landinu.

Jeg sje ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um það, sem sagt hefir verið. Hv. nefnd athugar sjálfsagt þetta frv. í sambandi við fátækralögin í heild, og gefst þá kostur á að koma fram með það, sem fyrir mönnum kann að vaka.