16.03.1929
Neðri deild: 24. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 895 í C-deild Alþingistíðinda. (2845)

28. mál, fátækralög

Frsm. meiri hl. (Hákon Kristófersson):

Eins og sjá má á nefndarálitinu, hefir allshn. ekki orðið öll á einu máli um frv. það, sem fyrir liggur. Meiri hl. lítur svo á, eins og sjest í nál. á þskj. 80, að núgildandi fátækralöggjöf sje ekki svo gömul, að full reynsla sje fengin fyrir, hverskonar breytingar eru æskilegar. Auðvitað er okkur meiri hl. n.— og jeg tala þar sjerstaklega fyrir mig, — vel ljóst, að enn eru miklir gallar á löggjöfinni í þessu efni, svo að auðsjeð er, að varla getur liðið langur tími þangað til nauðsyn krefur rækilegrar endurskoðunar á henni. Hinsvegar hefir meiri hl. orðið sammála um, að frv. þetta bæti að nokkru úr stærsta gallanum, og að sú breyting sje svo nauðsynleg, að ekki megi lengur dragast að lögfesta hana. Í greinargerð frv. á þskj. 28 er þetta skýrt svo ljóslega, að jeg hefi þar engu við að bæta. Vitaskuld fer það svo, að niðurfærsla á sveitfestitímanum verður mjög mikið ágreiningsmál. En sá sveitfestitími (2 ár), sem gert er ráð fyrir í frv. á þskj. 28, er ekkert nýmæli, heldur sama tillagan og kom fram fyrir 27 árum frá nefnd þeirri, er endurskoðaði fátækralögin 1901. Hún vildi færa sveitfestitímann niður í 2 ár. Meira að segja kom til mála í þeirri nefnd, að sveitfestitíminn væri ákveðinn aðeins 1 ár.

Eins og jeg tók fram, þá er jeg persónulega óánægður með mörg ákvæði fátækralaganna, sjerstaklega í 43. gr., en jeg sá mjer ekki fært að flytja meiriháttar breytingar á lögunum að þessu sinni, og verð því að láta mjer lynda um sinn þær umbætur, sem felast í þessu frv. En ýms ákvæði í 43. gr. laganna fela það í sjer, að tvennskonar löggjafarvald sje til í landinu, eða að sömu lög gilda eigi um alt land og ákvæðum þeirra beitt misjafnlega í hverjum hreppi fyrir sig. En þetta liggur ekki hjer fyrir nú; jeg aðeins skýt þessu fram.

Hjer er komið fram frv. frá hv. 2. þm. Reykv. (HV), sem hann mun sjálfur gera grein fyrir. í því frv. er ætlast til svo stórfeldra breytinga á fátækralöggjöfinni, að það getur varla náð fram að ganga á þessu þingi. Og jeg má lýsa því yfir fyrir hönd meiri hl. n., að hann býst ekki við að styðja framgang þess á þinginu.

Samkvæmt brtt. á þskj. 84, frá 1. þm. N.-M. (HStef), er lagt til, að í staðinn fyrir 2 ár í frv. komi 1 ár. Jeg gæti fylgt þessu persónulega, en fyrir hönd n. get jeg lýst því yfir, að meiri hl. er á móti því, af því að hann fylgir frv., og lítur svo á, að það mundi leiða til enn meiri ágreinings að færa sveitfestitímann úr 4 árum niður í 1 ár, fremur en í 2 ár, eins og n. leggur til, og þess vegna muni það varhugaverðara.

Jeg finn svo eigi ástæðu til að fjölyrða meira að sinni um þetta mál. Minni hl. mun mæla fyrir sínum till., og vil jeg lofa honum að komast að með sínar ástæður. Jeg óska, að hv. deild fallist á till. meiri hl. n. á þskj. 80.