16.03.1929
Neðri deild: 24. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 897 í C-deild Alþingistíðinda. (2846)

28. mál, fátækralög

Frsm. minni hl. (Hjeðinn Valdimarsson):

Mín tillaga er í stuttu máli sú, að fella frv. Mjer er ekki ljóst, hvað vakað hefir fyrir flutningsm. þessarar breytingar á 21. gr. fátækralaganna, að færa sveitfestitímann úr 4 niður í 2 ár. Þó sagði hv. frsm. meiri hl., að nefndin væri þeirrar skoðunar, að lögin væru svo lítið búin að sýna sig enn í þessu atriði, að meiri hl. þætti ekki ástæða til breytinga á þeim. Jeg álít þetta talsverða breytingu, í frv. því, sem fyrir liggur. Jeg er ekki á móti þeirri hugmynd að stytta sveitfestitímann. En fyrst verið er að færa hann niður úr 4 árum, því er þá ekki snúið að því, að láta dvalarsveit gilda til ákvörðunar sveitfesti manna, verða framfærslusveit?

Þessi breyting í frv. er þó væntanlega ekki borin fram af því, að einstök hjeruð vilji koma framfærendum af sjer á önnur? Á því er enginn vafi, að heppilegast væri fyrir þá, sem styrks þurfa að leita, að geta fengið hann í þeim stað, er þeir búa. Ef tilgangur fátækralaganna og þeirra breytinga, sem á þeim kunna að vera gerðar, er sá, að búa að þurfalingum samkvæmt mannúðarhugsjónum, þá ætti dvalarsveitin að verða framfærslusveit. En ef jafnrjetti ætti að vera um þessi mál milli sveitanna innbyrðis, þá ætti að jafna framfærslu þurfamanna milli allra hreppa á landinu. En nú eru sveitaþyngsli mjög misjöfn, eins og kunnugt er. Í sumum hreppum er ómagaframfærslan geysimikil, en lítil í öðrum, og ræður því tilviljun að mestu leyti.

Mjer finst, að úr því að gengið er inn á þessa stefnu, að stytta mjög sveitfestitímann, þá eigi að koma á fullkominni samábyrgð um fátækraframfærsluna í landinu yfirleitt. Annars lítur út fyrir, að þessi takmörk sjeu sett til þess, að láta einstaka sveitafjelög velta byrðinni yfir á önnur. Ef þetta frv. verður samþ., þá er jeg viss um, að reipdrátturinn á milli sveitafjelaga margfaldast um að koma fátæku fólki af sjer. Hver sveit ýtir af sjer á aðra. Ýmsar sveitir mundu gera miklar tilraunir til að koma ómögum af sjer á Reykjavíkurbæ; því að þar er fremur lítið eftirlit í þessum efnum, og örðugt að hafa mikið eftirlit í svo stórum bæ, auk þess sem fjölda Reykvíkinga er ógeðfelt að fátæklingar sjeu eltir uppi og hraktir úr bænum. Jeg held því að samþykt þessa frv. mundi aðeins leiða til meiri úlfúðar og harðleiknari ómagaflutninga á milli sveita. Þess vegna legg jeg það ákveðið til, að frv. verði felt.