16.03.1929
Neðri deild: 24. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 905 í C-deild Alþingistíðinda. (2850)

28. mál, fátækralög

Gunnar Sigurðsson:

1 Jeg ætla að byrja á að vita það, sem jeg ætla þó að gera mig sekan í að sinni, en það er að hlaupa í skörðin og tala í framsögu annars. Það hefir oft komið fyrir áður hjá hv. þm. En með því að einn skrifar undir með fyrirvara nú, þá er þetta eðlilegt. Annars álít jeg alt of mikið gert að því yfirleitt, og jeg hefi aldrei gert mig sekan í því fyr, og vona, að svo verði ekki oftar. En jeg tek til máls af því að þetta mál hefir verið mjer sjerstakt áhugamál síðan jeg var kosinn fyrst á þing 1919. Það eru engar sýslur, sem hafa orðið eins fyrir barðinu á þessu fyrirkomulagi um langan sveitfestitíma eins og Árnessýsla og Rangárvallasýsla. Þær hafa verið í vargakjöftum báðum megin frá, Reykjavíkur öðrum megin og Vestmannaeyja hinum megin. Þeir staðir hafa tekið ungt fólk, en sýslurnar hafa fengið mikið af því fólki eftir nokkurn tíma aftur — á sína sveit. Eins og hv. 1. þm. N.-M. (HStef) tók rjettilega fram, þá hafa alveg óhæfileg sveitarþyngsli komið niður á þessi hjeruð, sem missa fólkið og hnignar fyrir það.

Í raun og veru er jeg því fylgjandi, að framfærslusveit sje dvalarsveit, eins og hv. 2. þm. Reykv. (HV) fór fram á, ef ekki fylgdi sá böggull skammrifi, að landið á að vera framfærslusveit. Jeg þekki svo vel eigingirni manna, að þeir myndu vera örari á fje, ef þeir vissu, að ríkissjóður borgaði, heldur en eins og er, að sveitarsjóður borgar. Jeg fyrir mitt leyti get fallist á till. hv. 1. þm. N.-M. (HStef), að stytta sveitfestitímann í eitt ár og mun greiða því atkv. Jeg veit, að margir í þessari hv. deild eru hræddir við, að þetta sje of stórt stökk. En jeg sje ekki betur en að sá ótti sje ástæðulaus. Það gerði meðal annars að jeg bað um orðið, að jeg vildi mæla með þeirri till. hv. þm. En fari svo, að sú brtt. falli, þá mun jeg verða með till. meiri hl. n., að sveitfestitíminn verði tvö ár.

Ræðuhandr. óyfirlesið.