16.03.1929
Neðri deild: 24. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 906 í C-deild Alþingistíðinda. (2851)

28. mál, fátækralög

Frsm. meiri hl. (Hákon Kristófersson):

Það er tæplega ástæða til að tala um þetta mál, þar sem það mætir engri verulegri mótspyrnu. Hv. frsm. minni hl. (HV) talaði ákaflega kurteislega, eins og við var að búast, viðkomandi frv. og sinni till.

Hv. þm. hefir ekki tekið rjett eftir áðan. Jeg sagði ekki, að meiri hl. n. vildi ekki breyta neinu verulegu. Jeg lagði einmitt áherslu á, að meiri hl. teldi þetta atriði, sem ráðgert er að breyta með frv., sem hjer liggur fyrir, einn af þeim verulegustu agnúum á gildandi fátækralöggjöf. En jeg sagði dálítið fyllra um þetta — frá mjer persónulega — og hafði þá sjerstaklega í huga ákvæði 43. gr. nefndra laga. Þau ákvæði álít jeg í rauninni algerlega óalandi og ósamboðin löggjöfinni, — að sitt gæti gilt í hreppi hverjum. Ef menn hefðu á sínum tíma aðhylst mínar till., þá hefði þingið komist hjá ámæli fyrir þetta hvimleiða athugaleysi í löggjöfinni. Eiginlega eru allar hreppsnefndir landsins orðnar löggjafar, með tilliti til ákvæða þeirra, sem felast í nefndri grein.

Hv. frsm. minni hl. benti til þess, að þessi stytting mundi verða frekar hagræði fyrir ýms sveitarfjelög, en óhagkvæmnin mundi snúast að Reykjavík og bæjunum. (HV: Það sagði jeg nú ekki). Þá bið jeg velvirðingar, ef jeg fer rangt með orð hv. þm., — það er ekki viljandi gert, — en jeg hefi skrifað þau niður hjá mjer svona.

Jeg verð að telja það rjettlátt á þeim stöðum, þar sem fólk safnast saman til þess að vinna, að ef einstaka fjölskylda getur ekki sjeð fyrir sjer, þá taki það bæjarfjelag við, sem þetta fólk starfar í. En jeg verð að taka undir með hv. 2. þm. Rang. (GunnS), að það fylgir óþægilegur böggull skammrifi, ef gera á landið að einu framfærsluhjeraði. Ef breytt væri einhverju í þessa átt, mætti frekar taka til athugunar, hvort sýslur mættu ekki vera framfærsluhjeruð.

Viðvíkjandi brtt. hv. 1. þm. N.-M. (HStef) á þskj. 84, þá vil jeg kannast við það, að jeg hefi mesta tilhneigingu til þess að óska, að sveitfesti væri bundin við lögheimili. Mjer virðast till. hv. allshn. nálgast till. hv. þm., með því að færa sveitfestina niður. Jeg álít óhætt að slá því föstu, að þetta er verulegt spor í áttina til að losa fæðingarhrepp við þær órjettmætu kvaðir, sem á honum liggja oft og einatt gagnvart mönnum, sem komnir eru yfir 16 ára aldurinn.

Sami hv. þm. lýsti þeim mikla mismun, sem væri á fátækraframfærslunni í hinum einstöku sýslum, og geri jeg ráð fyrir, að hann hafi farið þar rjett með. Annars hygg jeg, að það mundi tæplega bæta úr, þó að allsherjar fátækraframfæri kæmist á. Miklu fremur gæti jeg trúað, þegar farið yrði að jafna niður, að menn rækju sig á ýmsa agnúa í framkvæmdinni, sem ekki væri gott að komast fyrir. Hvert sveitarfjelag bregður öðru um óspilsemi í fjárveitingum til þurfamanna, og mundi síst úr slíkum ásökunum draga, þó að komið yrði á sameiginlegri fátækraframfærslu um land alt.

Hv. form. allshn. (GunnS) gat þess í ræðu, að hann mundi greiða atkv. með brtt. hv. 1. þm. N.-M. á þskj. 84. Við það hefi jeg ekkert að athuga, en hefi þá aðeins ofmælt áður, er jeg sagði, að meiri hl. n. stæði saman um að samþ. frv. óbreytt. Jeg játa, að jeg hafði ekki spurt hv. form. n. um þetta, en af því að hann hefir ekki kallað saman fund til þess að taka ákvörðun um þessa brtt., þá ályktaði jeg sem svo, að hann mundi standa með okkur hinum. En segjum nú svo, að þetta ákvæði verði samþ. hjer, en yrði þess valdandi, að hv. Ed. vildi ekki fallast á frv., og mundi jeg þá telja það miður farið.

Eins og jeg gat um áður, þá eru till. þessar ekki nýjar, og till. um að færa sveitfestitímann niður í 1 ár kom fram í tillögum milliþinganefndarinnar, sem starfaði að þessum málum 1921.

En jeg býst við, að þess verði ekki langt að bíða, að sú till. nái fram að ganga. En það standa þau ákvæði í sambandi við 4 ára sveitfestitímann, sem verða þess valdandi, að hann kemur ekki að tilætluðum notum. En með því að samþykkja frv. þetta, er bætt úr þeim agnúum að miklu leyti.

Jeg held svo, að engin ástæða sje fyrir mig að fara fleiri orðum um þetta mál, en vænti, að hv. þd. fallist á till. okkar meiri hl. og samþ. frv.