16.03.1929
Neðri deild: 24. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 917 í C-deild Alþingistíðinda. (2855)

28. mál, fátækralög

Jóhann Jósefsson:

Um þetta frv. er í stuttu máli það að segja, að því er bersýnilega stefnt til höfuðs kaupstöðunum, þeim til kostnaðarauka á þessu sviði, en sveitunum að sama skapi til ljettis og sparnaðar. Hv. 2. þm. Reykv. og hv. 4. þm. Reykv. hafa báðir dregið fram þær ástæður, sem helstar eru til mótmæla þessari snöggu breytingu. Um leið og jeg tek undir það, sem þeir hafa sagt, vildi jeg fara nokkrum orðum um málið alment. Hingað til hefir það verið talin grundvallarástæðan fyrir sveitfestitímanum, að þeir, sem í hlut eiga, væru með langri dvöl búnir að vinna sjer einskonar borgararjett í því hjeraði, og ættu því heimtingu á framfærslu þar, frekar en annarstaðar. Þegar þessi tími er 2 eða jafnvel að eins 1 ár, þá virðist ekki vera mikið gert úr þeim ástæðum, sem liggja til grundvallar fyrir núgildandi skipulagi. Frá sjónarmiði rjettlætisins getur verið ýmislegt við þessa breyting að athuga. T. d. ef maður, sem búið hefir austur í sveit allan sinn langa búskapartíma og greitt þar skyldur og skatta, en bregður svo búi á efra aldri vegna þreytu eða elli, og flytur til Reykjavíkur eða einhvers kaupstaðarins, en verður fyrir einhverju óhappi eftir 1 eða 2 ár, svo að hann verður að leita opinbers styrks; væri þá nokkurt rjettlæti í því, að slengja byrðinni yfir á kaupstaðinn, en láta þá sveit, sem hann hefir búið í öll sín manndómsár, algerlega sleppa við að leggja nokkuð af mörkum. Slíkt getur varla talist rjettlæti. Kaupstaðurinn hefir ef til vill ekkert gagn haft af manninum, vegna hins stutta tíma, en verður nú að greiða allan framfærslukostnað hans. Það virðist því, að þessu athuguðu, vera full ástæða fyrir hv. flm. og formælendur þessa frv., að gæta alls hófs í þessum tilraunum sínum til þess að ýta öllum sveitaþyngslunum af sveitunum og yfir á kaupstaðina. Hins vegar skal það fúslega viðurkent, að eins og nú standa sakir kemur fram misrjetti alhnikið, og þessvegna er rjettlæti eða rjettlætisleit í þessum efnum nauðsynlegt eftir því sem unt er. En á hinn bóginn ber að gjalda varhuga við að ganga langt í að hrinda þurfalingum af sjer, því af því skapast það ástand, sem nú hefir verið lýst svo átakanlega hjer í deildinni.

Áður en jeg vík frekar að þessu, vil jeg minnast á ræðu hv. 2. þm. Rang. Hann var ákaflega glaður yfir því, að þetta hans hjartansáhugamál skyldi vera á ferðinni hjer í deildinni. Hv. þm. lýsti með snjöllum orðum hversu mikið hjartansmál það væri honum að fá sveitfestitímann styttan, eða m. ö. o. geta þannig velt sveitarþyngslunum yfir á kaupstaðina. Mjer finst kenna ósanngirni, eigi lítillar, hjá þessum hv. þm., og furðaði mig á því, þar sem maður á ekki slíku að venjast hjá þeim hv. þm. Það er rjett hjá honum, að fjöldi Rangæinga hefir á síðasta mannsaldri flutst til kaupstaðanna, Reykjavíkur, Hafnarfjarðar eða Vestmannaeyja. Og mjer er kunnugt um, að slíkir flutningar hafa á síðustu árum minkað mjög til Vestmannaeyja, en þó get jeg borið það, og get óhikað fullyrt það, að margir hinna nýtustu Vestmannaeyinga hafa komið úr landsveitunum, Rangárvallasýslu eða Skaftafellssýslum. Hv. þm. fórust þannig orð, að þessir menn hefðu lent í vargakjöftum. (GunnS: Nei, jeg sagði að austursveitirnar hefðu vargakjafta á báðar hendur). Já, eftir þessu orðalagi er svo að skilja, sem útflutningsstraumurinn hafi lent í vargakjöftum, en hafi hv. þm. ekki meint það, þá eru allar athugasemdir um þetta óþarfar. Jeg hefi drepið á, að flestir þessara manna hafi reynst hinir nýtustu, og jeg efast ekki um, að þeir hefðu einnig verið nýtir menn í sínum átthögum, en hitt vil jeg stórlega draga í efa, að lífskjör þeirra hefðu orðið betri, þótt þeir hefðu verið kyrrir í átthögum sínum. (GunnS: Alveg rjett). Þeir, sem flutst hafa til Vestmannaeyja á undanförnum 60–70 árum, hafa flestallir orðið góðir bjargálnamenn, ef ekki vel efnaðir, sumir hverjir. Það er því síst ástæða fyrir hv. 2. þm. Rang. að harma það svo mjög, þótt nýtir menn hafi flutst úr hans hjeraði til þeirra kaupstaðanna, þar sem eru nóg verkefni fyrir dugandi menn. Þá ber þess og að geta, að auk þeirra reglulegu innflytjenda, taka Vestmannaeyjar árlega við fjölda manna, oft svo skiftir hundruðum, um nokkurn tíma ársins, vertíðina. Þetta fólk snýr síðan heim með allgóðar tekjur, og get jeg því ekki skilið, að sveitirnar líði svo mjög mikinn baga við fjarveru þeirra. Jeg hygg, að það sem vertíðin gefur þessu fólki í aðra hönd, vegi meira en á móti þeim baga, sem heimahjeruðin bíða af þessum sökum. Það er því ástæðulaust fyrir hv. þm. Rang. að vera beiskur út í Vestmannaeyjar í tilefni af þessu, því að útflytjendurnir hafa flestir komist vel af og átt við sæmileg kjör að búa, og enda ekki orðið til opinberra þyngsla yfirleitt. Það kunna að vera undantekningar í þessu efni, en alment er óhætt að slá þessu föstu.

Form. allshn., hv. 2. þm. Rang., ljet þau orð falla í fyrra á Alþingi, að landbúnaðurinn væri enn ekki svo langt á veg kominn, eða stæði ekki á svo föstum fótum, að hann þyrfti eigi stuðning frá sjávarútveginum. Jeg man að vísu ekki, hvort þetta voru óbreytt orð hv. þm., en þó hygg jeg að jeg fari rjett með innihald orða hans frá þeim tíma. Hann viðhafði sterkari orð að vísu. Nú vil jeg benda hv. þm. á, að þegar þetta fólk er flutt til höfuðútgerðarstaða landsins, og verður þar verkfæri í hendi forsjónarinnar til að verða nýtir framleiðendur í landinu, þá eru þeir um leið að styðja landbúnaðinn. Fjárlögin bera þess órækast vitni, hve mikið þeir leggja af mörkum til sameiginlegra nauðsynja allrar þjóðarheildarinnar. Er nú ástæða fyrir hv. þm. að harma þetta? Þvert á móti ætti hv. þm. að gleðjast yfir því, að þessu skuli vera svo varið. Jeg tel auðvitað rjett og skylt að styrkja landbúnaðinn eins og unt er, en einmitt sjávarútvegurinn leggur ríflegastan skerf til þess, og því ættu menn síst að gleyma. Þessvegna vildi jeg mælast til þess, að ekki sje óvingjarnlegar talað um þessar verstöðvar en ástæður standa til, þótt þær þurfi á nokkrum aukavinnukrafti að halda um suma tíma árs. Þetta vona jeg, að hv. 2. þm. Rang athugi, og láti kaupstaðina njóla sannmælis. Jeg efast um, að lífsskilyrðin í hans átthögum væru mikið betri, að óbreyttu ástandi, þótt vargakjaftarnir, sem hann kallar, væru ekki til, eða a. m. k. ekki svona nálægt.

Þá vil jeg aftur víkja að því, sem jeg hvarf frá, því, að flm. og formælendum þessa máls beri að gæta hófs í tilraununum til að velta sveitaþyngslum yfir á kaupstaðina með því að hamra í gegn stytting sveitfestitímans. Eins og hv. 2. þm. Árn. komst að orði, ber að gjalda varhuga við því, að ýta undir „leiðindabrellur sveitastjórna“ til að koma mönnum af sjer. En með þessari stytting er beinlínis stutt að því. Og enn annað; þegar kröfurnar um stytting sveitfestitímans ganga eins langt og þetta frv. ber vitni um, og sjerstaklega brtt. hv. þm. N.-M., þá er ekki einungis ýtt undir „leiðindabrellur sveitastjórna“ til þess að koma mönnum af sjer, heldur og ýtt undir viðnám kaupstaðanna gegn innflutningi manna, og getur slíkt komið sjer óþægilega, og auk þess sem hinir óheppilegu, margumtöluðu fátækraflutningar eru bein afleiðing af slíku skipulagi.

Ennfremur vil jeg minna á það, að svo óhæfilegar geta slíkar kröfur orðið, að kaupstaðirnir telji sjer betra að aðhyllast skoðun hv. 2. þm. Reykv. um að gera alt landið að einu framfærsluhjeraði. Á því eru vitanlega margir agnúar, en þó mun það verða heppilegra skipulag heldur en ef sveitfestitíminn er gerður sama og enginn, eða jafnvel að framfærsluskyldan sje algerlega lögð á dvalarsveit.

Það er rjett hjá hv. 2. þm. N.-M., er hann segir, að stefna beri að sem mestum jöfnuði milli einstakra landshluta í þessum efnum. En jeg held, að sú leið, sem þetta frv. fer, og sjerstaklega brtt. hv. 2. þm. N.-M., muni síst ná tilætluðum árangri, heldur miklu fremur vekja óþarfa andstöðu þeirra landshluta, sem byrðunum er ýtt á, og hrekja þá til sterkari andstöðu gegn framkvæmdum sveitanna í fátækramálum en æskilegt er.

Vil jeg að lokum benda á eina leið, sem dregur úr vandræðum sveitarþyngslanna og vil jeg biðja hv. flm. að gefa því gaum. Sú leið er, að Alþingi og stjórn vinni saman að því, að koma á almennum tryggingum og koma þeim í gott horf. Er óhætt að fullyrða, að slíkt væri stórt spor í áttina til þess, að firra þjóðina því böli og þeim vandræðum, sem af sveitarþyngslunum leiðir. Þessvegna eru almennar tryggingar að mjög miklu leyti framtíðarlausn þessa máls.

Ræðuhandr. óyfirlesið.